Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Fréttir 25. september 2019
Metþátttaka á landsmóti á Langanesi
Höfundur: Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson
Landsmót Smalahundafélags Íslands var haldið á Hallgilsstöðum á Langanesi helgina 24.–25. ágúst. Þetta mót fer í sögubækurnar þar sem metþátttaka var á mótinu, eða 25 hundar. Eins og venjulega var keppt í þremur flokkum, A-flokki, B-flokki og Unghundaflokki. Níu hundar kepptu í unghundaflokki, þrír í B-flokki og 13 hundar í A-flokki.
Mótið tókst með miklum ágætum. Austurlandsdeild Smalahundafélagsins hélt um það af miklum myndarskap. Veðrið setti þó reyndar mark sitt leiðinlega mikið á þessa daga en kalt var í veðri og vætusamt fyrri daginn og hvasst þann seinni. Engu að síður voru allir sáttir að móti loknu.
Þessir hlutu heiðursverðlaun mótsins, Aðalsteinn Aðalsteinsson, formaður Smalahundafélags Íslands, og dómari mótsins, Gunnar Einarsson frá Daðastöðum.
Dómgæsla var í höndum Gunnars Einarssonar frá Daðastöðum og Sverris Möllers frá Ytra-Lóni en þeir hlupu í skarðið þar sem Englendingurinn Edward Thornally forfallaðist á bókstaflega síðustu stundu. Austurlandsdeild Smalahundafélagsins vill koma á framfæri kærum þökkum til Gunnars og Sverris. Gunnar var einnig gerður að heiðursfélaga í Smalahundafélagi Íslands á meðan á móti stóð en óhætt er að segja að framlag hans til smalahundagreinarinnar á Íslandi sé mikið og án hans ósennilegt að greinin væri á þeim stað sem hún er í dag. Úrslit voru eftirfarandi:
Unghundaflokkur:
-
Maríus Snær Halldórsson og Fríða frá Hallgilsstöðum 1.
-
Svanur Guðmundsson og Skessa frá Dalsminni.
-
Krzystof Krawczyk og Loki frá Hallgilsstöðum 1.
B-flokkur.
-
Krzystof Krawczyk og Tígull frá Hallgilsstöðum 1.
-
Björn Jóhann Steinarsson og Skriða frá Skriðu.
-
Sigurður J. Hermannsson og Táta frá Skriðu.
A-flokkur.
-
Aðalsteinn Aðalsteinsson og Burndale Biff frá Bretlandi.
-
Jens Þór Sigurðsson og Groesfaen Nap frá Bretlandi.
-
Maríus Snær Halldórsson og Elsa frá Hallgilsstöðum 1.
Íslandsmeistarinn Aðalsteinn Aðalsteinsson.