Möguleg íkveikja veldur skógareldum
Skógareldar geysa nú í Suður-Tyrklandi en óvíst er um eldsupptök. Landbúnaðarráðherra Tyrklands staðfestir að eldarnir hafi kviknað á fjórum stöðum nálægt borginni Manavgat, en taldi ótímabært að segja hvað hefði valdið íkveikjunni.
Gífurlegur vindhraði er eldhafinu í hag, en talið er að heimili 500 íbúa hafi orðið eldinum að bráð. Eins og er hafa þrír látist, en um sextíu manns verið flutt á spítala vegna reykeitrunar og minniháttar brunasára.
Samkvæmt fréttastofu Reuters þekur mikill og þykkur reykur himinn umhverfis svæðið og er greinilegur frá strandsvæðinu í kringum Antalya í 75km fjarlægð. Yfirvöld berjast við eldinn með öllum tiltækum aðferðum auk þess sem aðstoð hefur borist frá nærliggjandi héruðum.
Tyrkir hafa nýverið barist við miklar hörmungar vegna rigninga og flóða fyrr í mánuðunum en ár og lækir flæddu yfir bæina Arhavi og Murgul austur við Svartahaf.