Nákuðungar sniglast um austfirskar fjörur
Nákuðungur (Nucella lapillus) er nú farinn að sjást æ oftar í fjörum Austurlands en lengi var talið að sjór austan við land væri of kaldur til að nákuðungar fengju lifað þar.
Teknir voru saman allir fundarstaðir nákuðungs á Austurlandi nú í sumar og annaðist Náttúrustofa Austurlands verkefnið í kjölfar þess að tegundarinnar varð vart í fjöru utan við Skálanes í Seyðisfirði í júnílok.
Kuðungurinn hefur samkvæmt samantektinni fundist á í það minnsta sex stöðum eystra; í Finnafirði, Bjarnarey, Skálanesfjöru, á Teigarhorni, Djúpavogi og Stokksnesi.
Hlýnun sjávar gæti verið völd að breytingunni en fram til þessa hefur kuðungurinn, sem er sæsnigill af dofraætt, einkum fundist og verið algengur við suðvestur- og vesturströnd Íslands og allra helst í grýttum þangfjörum. Finnst hann einnig á ströndum norðvestanlands þótt í minna mæli sé.
Nákuðungur er við norðurmörk útbreiðslu sinnar hér á Íslandi. Hann er kjörfæða fyrir bogkrabba og ýmsa fugla sem leita ætis í fjörum en lifir sjálfur mest á hrúðurkörlum og smákræklingum. Hann verður kynþroska við þriggja ára aldur og elstu dýrin verða um tíu ára.
Nákuðungurinn er fæða fyrir ýmsa fjörufugla á borð við tjalda, tildrur og sendlinga en æður og mávar fúlsa heldur ekki við þeim. Hann lifir almennt í öllum fjörum hvort sem er brimsömum eða skjólsælum en liggur marga mánuði í dvala undir slútandi steinum að vetrarlagi.
Kuðungstegundin er vöktuð af Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurnesjum, meðal annars er það gert til að fylgjast með styrk lífrænna tinsambanda í lífríki sjávar.