Nýtt vísinda- og nýsköpunarráð
Skipað hefur verið nýtt vísinda og nýsköpunarráð í samræmi við lög sem tóku gildi nú í vor.
Markmið laganna er, skv. tilkynningu á vef Stjórnarráðsins, að efla stefnumótun og samhæfingu á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar hér á landi svo að styrkja megi íslenskt þekkingarsamfélag og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði í sumar fulltrúa í ráðið til næstu fjögurra ára. Hlutverk þess er einkum að veita ráðgjöf um stefnumótun á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar, sérstaklega gagnvart mikilvægum samfélagslegum áskorunum.
Einnig að fjalla um framtíðarsýn og stefnu stjórnvalda og setja fram rökstuddar tillögur að umbótum með tilvísun í alþjóðlega þróun á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar, ásamt því að stuðla að upplýstri og gagnrýnni umræðu um vísindi, tækni og nýsköpun, stöðu greinanna og mikilvægi fyrir íslenskt samfélag.
Formaður ráðsins er Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands.