Olga setti Evrópumet
Höfundur: vh
Nýtt met var sett við sölu á Holstein kvígu í febrúar er kvígan Olga, sem heitir reyndar Gah Olga Des Grilles, var seld á 130.000 evrur, sem gera hvorki meira né minna en 17 milljónir króna. Þessi ótrúlega upphæð er nýtt met í Evrópu.
Á naut.is segir Snorri Sigurðsson að kvígan, sem fæddist 30. júlí 2018 á kúabúi í Normandí, hafi verið boðin upp á kynbótamarkaðinum Paris Dairy Sale í Frakklandi. Strax í sumarbyrjun verður hægt að byrja að skola úr henni egg og tæknifrjóvga, en það er afar vinsæl aðferð sem nú orðið er mikið notuð, þ.e. glasafrjóvgun.
Skýringin á þessu ævintýralega verði á kvígunni Olgu er að greining á erfðaefni hennar gaf einstaklega há svör, sem bendir til þess að um yfirburða kynbótagrip sé að ræða.
Þannig fékk hún 235 í einkunn samkvæmt franska ISU staðlinum, 172 í einkunn samkvæmt þýska RZG staðlinum og 4916 gPFT stig. Framangreindar einkunnir eru flestum framandi á Íslandi en þetta munu víst allt vera einstaklega háar einkunnir.