Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Einar E. Einarsson, formaður  Sambands íslenskra loðdýrabænda.
Einar E. Einarsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda.
Fréttir 5. október 2018

Rætt um þriggja ára samning við ríkið til að koma greininni aftur á lappirnar

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Íslenskir minkabændur hafa á síðasta áratug náð þeim árangri að framleiða einhver bestu minkaskinn í heimi. Þar hafa einungis Danir og stundum Norðmenn staðið örlítið framar. Á bak við þennan árangur liggur þrotlaust þróunarstarf og þekkingaröflun.

Nú stendur víða yfir endurnýjun á búrum vegna hertra aðbúnaðarreglugerða frá Evrópu. Nokkrir bændur eru komnir vel á veg í þeirri endurnýjun sem verður að vera lokið fyrir 1. desember 2019. Vegna stöðunnar á markaðnum og langvarandi tapreksturs hafa margir minkabændur þó ekki treyst sér til að ráðast í slíkar framkvæmdir.

Minkarækt er umhverfisvæn búgrein

Einar E. Einarsson, formaður  Sambands íslenskra loðdýrabænda (SÍL), segir að minkarækt sé umhverfisvæn búgrein. Í fyrsta lagi sé verið að nota afskurð frá matvælaframleiðslunni í fóðurgerðina en einnig nýtist skíturinn vel sem áburður á tún eða til uppgræðslu.

„Á bak við hvert framleitt skinn eru um 50 kg af hráefnum og út kemur skinn og ca 2,5 kg skrokkur. Við höfum verið að finna leiðir til að nýta skrokkinn og þá fitu sem til fellur við verkun skinnanna, samanber framleiðslu á smyrslum og leðurfeiti úr minkaolíu undir vörumerkinu Gandur.

Einnig höfum við tekið þátt í verkefnum um að framleiða gæludýrafóður úr skrokkum en það er þekkt víða erlendis og fer vaxandi.  Enn sem komið er höfum hvorki við né aðrir hafið framleiðslu á gæludýrafóðri úr skrokkunum en markmiðið er klárlega að ekkert fari til spillis í framleiðsluferlinu og að allt verði nýtt sem síðan hámarkar nýtinguna á þeim slátur- og fiskafskurði sem við notum í fóðurgerðina,“ segir Einar.

Samdráttur í heimsframleiðslu og vonir um að verð hækki

Verðsveiflur eru ekki nýtt fyrirbæri í skinnaiðnaði, en niðursveiflan nú er þó orðin óvenju löng. Einar segir að uppsöfnun á skinnum hafi greinilega verið mun meiri þegar mest var framleitt en menn töldu.

„Við trúum því að það sé loks að losna um þessa stíflu á markaðnum þó menn geti ekki tímasett hvenær viðsnúningur getur orðið. Á árunum 2009 til 2010 var heimsframleiðslan í kringum 50 milljónir skinna, en fór yfir 80 milljónir árin 2013 og 2014. Samkvæmt tölum frá Kopenhagen Fur hefur hins vegar dregið verulega úr framleiðslu minkaskinna frá árinu 2016, mest þó 2017 og áfram nú í ár. Talið er að framboðið árið 2019 verði komið undir 50 milljónir skinna, eða svipað og markaðsfræðingar telja þörf fyrir. Í framhaldinu má ætla að markaðurinn verði stöðugur og hægt vaxandi og um leið ætti markaðsverðið að hækka. Þetta er því spurning um hvort mönnum tekst að þrauka þar til verðið fer að stíga á ný.“

Ríkið þarf að koma að borðinu

Einar segir alveg ljóst að ríkið þurfi að koma að borðinu með einhverjum hætti ef ekki eigi allt að fara á versta veg. Hann segir að viðræður hafi verið í gangi og þær snúist um að gera 3 ára samning við ríkið fyrir árin 2018–2020. Með þriggja ára samningi er verið að gefa greininni möguleika á að komast aftur á lappirnar eftir þessa miklu og þungu niðursveiflu sem nú er í gangi. 

Tillögur um aðkomu ríkisins byggjast annars vegar á beinum stuðningi til framleiðenda vegna ársins 2018 og síðan stuðningi við fóðurstöðvarnar árin 2019 og 2020.

Markmiðið með stuðningi við fóðurstöðvarnar er að þær ráði betur við að framleiða samkeppnishæft fóður og efli þá um leið hjá sér allt sem snýr að aukinni móttöku og afsetningu á lífrænum úrgangi. Þær vinni þannig með stjórnvöldum í að draga úr og á endanum stoppa þá verðmætasóun sem urðun er en síðustu ár hafa fóðurstöðvarnar verið að nota árlega 6.500 til 8.000 tonn af afskurði í fóðurframleiðsluna. 

Lausn gæti samræmst markmiðum stjórnvalda

Einar segir að í þeim viðræðum sem séu í gangi hafi stjórnvöld verið jákvæð og sýnt vandamálinu skilning en verið sé að vinna í málinu.

„Allir sem þetta skoða sjá líka skynsemina í að framleiða verðmæta vöru úr þessum aukaafurðum sem falla til við matvælaframleiðslu og skapa þannig bæði atvinnu og gjaldeyri. 

Það að verið sé að nýta afskurð með þessum hætti samræmist líka vel stefnu stjórnvalda um að draga úr og að endingu banna urðun á lífrænum úrgangi. Það hefur verið markmiðið samkvæmt reglugerð 737/2003 og síðan nú með tilkomu stefnu í loftslagsmálum var gengið ennþá lengra í að hefta og banna að lokum urðun.

Ég vona því að stjórnvöld klári málið með jákvæðum hætti en við leggjum áherslu á að niðurstaða fáist fyrir miðjan október,” sagði Einar að lokum. 

Skylt efni: Loðdýr | loðskinn

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...