Reglugerð sem heimilar heimaslátrun á sauðfé og geitum til markaðssetningar
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð sem heimilar heimaslátrun á sauðfé og geitum til markaðssetningar. Í reglugerðinni er skilyrt að dýralæknar sinni heilbrigðisskoðunum bæði fyrir og eftir slátrun og mun kostnaður þess greiðast úr ríkissjóði.
Reglugerðin kemur í kjölfar tilraunaverkefnis um heimaslátrun sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stóð fyrir síðastliðið haust í samstarfi við Landssamtök sauðfjárbænda. Bændur stóðu þar sjálfir að sýnatökum. Reyndust gildi gerlamagns í góðu lagi og sýrustig var einnig að mestu leyti undir viðmiðunarmörkum.
Gerðar voru tilraunir með fjareftirlit dýralækna en tiltekin tæknileg vandamál komu upp og er því í nýju reglugerðinni kveðið á um að opinberir dýralæknar sinni heilbrigðisskoðunum á staðnum, bæði fyrir og eftir slátrun.
Helstu atriði reglugerðarinnar:
- Sérstakar undanþágur vegna slátrunar og stykkjunar í samræmi við kröfur Evrópuregluverksins, s.s. lágmarkskröfur til húsnæðis og aðstöðu.
- Kveðið er á um kröfur við aflífun, hollustuhætti við slátrun, innra eftirlit og förgun aukaafurða dýra.
- Til að auðvelda bændum að nýta sér þessa heimild þá hefur Matvælastofnun útbúið leiðbeiningabækling á grundvelli reglugerðarinnar þar sem skýrð eru út helstu skilyrði sem gerð eru til slátrunar og stykkjunar í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum. Leiðbeiningar Matvælastofnunar má finna hér.
Reglugerðin er einnig liður í aðgerðaáætlun til eflingar íslensks landbúnaðar í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Með því að gera bændum kleift að framleiða og selja afurðir beint frá býli má styrkja verðmætasköpun og afkomu þeirra fyrir næstu sláturtíð. Með þessu er einnig stuðlað að frekari fullvinnslu, vöruþróun, varðveislu verkþekkingar og menningararfs við vinnslu matæla.
Kristján Þór segir af þessu tilefni:
„Það hefur lengi verið kallað eftir því að bændum verði gert kleift að slátra sauðfé og geitum á búunum sjálfum og dreifa á markaði. Undanfarin tvö ár hefur átt sér stað umfangsmikil vinna í samráði við bændur og Matvælastofnun við að leita leiða til að heimila þessa framleiðslu þannig að uppfyllt séu skilyrði regluverks um matvælaöryggi og gætt sé að dýravelferð og dýraheilbrigði. Þessi breyting sem við gerum í dag markar því tímamót enda felst í þessari breytingu mikilvægt tækifæri til að styrkja verðmætasköpun og afkomu bænda til framtíðar.“