Reglur um notkun sýklalyfja í landbúnaði í Kaliforníu hertar
Stjórnvöld í Kaliforníu hafa hert reglur um notkun sýklalyfja í landbúnaði verulega og eru reglurnar þær ströngustu í Bandaríkjunum. Reglurnar taka gildi í ársbyrjun 2018.
Markmið reglnanna er að draga úr notkun sýklalyfja í landbúnaði með því að gera notendum þeirra erfiðara að kaupa þau. Reglurnar eru settar vegna vaxandi hættu á lífshættulegum sýkingum í mönnum vegna fjölónæmra baktería. Notkun sýklalyfja í landbúnaði, bæði sem vaxtarhvata og til að fyrirbyggja sýkingar í búfé hafa orðið þess valdandi að komið hafa fram stofnar baktería sem eru með öllu ónæmar fyrir sýklalyfjum. Berist þannig ofurónæmar bakteríur í menn eru ekki til lyf sem vinna á þeim.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Evrópusambandið og Smitvarnamiðstöð Bandaríkjanna hafa lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein mesta ógnin við lýðheilsu í heiminum í dag. Bandaríska sóttvarnareftirlitið áætlar að þar í landi beri að minnsta kosti tvær milljónir manna í sér fjölónæmar bakteríur og að árlega deyi um 23.000 manns af þeirra völdum.
Um 70% af öllum sýklalyfjum sem notuð eru í baráttunni við sýkingu hjá mönnum eru einnig notuð við kjöt- og mjólkurframleiðslu í Norður-Ameríku. Mörg af þessum lyfjum eru ekki lyfseðilsskyld og hafa lengi verið notuð í landbúnaði.
Fjöldi veitingahúsa í Bandaríkjunum hafa lýst yfir að þau ætli að hætta að kaupa kjöt af framleiðendum sem noti sýklalyf í óhófi. Í mars síðastliðinn gaf McDonald’s í Bandaríkjunum út yfirlýsingu um að keðja ætlaði að hætta að selja kjöt af kjúklingum sem væru gefin sýklalyf til að auka vaxtarhraða þeirra.