Sæferðir reka Baldur
Sæferðir hafa tekið að sér rekstur Breiðafjarðarferjunnar Baldurs og hóf nýr Baldur áætlunarsiglingar um Breiðafjörð um miðjan mánuð.
Í lok október var undirritaður samningur milli Vegagerðarinnar og Sæferða um rekstur ferjunnar.
Höfðu Sæferðir sinnt þjónustu við Flatey á Breiðafirði með skipinu Særúnu uns Baldur var tilbúinn, en hann var í slipp í Hafnarfirði um tíma þar sem gera þurfti breytingar á skipinu vegna væntanlegra ferjusiglinga. Segir í tilkynningu að settur hafi verið í skipið nýr þilfarskrani, landfestuvindur, björgunarbátar verið færðir, geymslusvæði útbúið á þilfari og skipið verið málað. Einnig hafi verið unnið að almennu viðhaldi véla og búnaðar.
„Þetta er búið að vera langt og strangt ferli að endurnýja Baldur,“ sagði Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar við undir- ritun samningsins. „En það hefur tekist mjög vel til. Við erum ánægð með nýja skipið og endurbæturnar sem gerðar hafa verið og væntum mikils af því.
Við gerum okkur vonir um að siglingar Baldurs á Breiðafirði reynist farsælar,“ sagði Bergþóra.