Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Landbúnaðarland. Urriðaá í Miðfirði.
Landbúnaðarland. Urriðaá í Miðfirði.
Mynd / smh
Fréttir 14. október 2024

Samfélagslosun dróst saman um 2,8 prósent

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Samfélagslosun, sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda, dróst saman um 2,8 prósent milli ára.

Losun frá landbúnaði var 4,4 prósent minni, sem flokkast undir samfélagslosun.

Skýringin á samdrættinum á losun frá landbúnaði er sem fyrr að sauðfé fækkar, sem er talin nema um fjórum prósentum á ári að meðaltali frá 2016. Einnig var samdráttur í losun vegna minni áburðarnotkunar í landbúnaði árið 2023 samanborið við fyrri ár.

Gögn frá RML
Inga Rún Helgadóttir.

„Það liggja ótalmörg gögn að baki þessu mati, bæði innlend og erlend,“ segir Inga Rún Helgadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, spurð um uppruna gagna varðandi losunina frá landbúnaði. „Dýrafjöldinn er sú breyta sem hefur einna mest áhrif. Iðragerjun og meðhöndlun búfjáráburðar er metin á hvert dýr og svo er margfaldað með fjölda dýra.

Dýrafjöldinn hefur áhrif á bæði þessi atriði og einnig á hluta losunar frá ræktarlandi þar sem fjöldi dýra hefur áhrif á hversu mikill lífrænn áburður er borinn á tún. Margs konar gögn eru notuð við mat á iðragerjun sauðfjár og nautgripa og er þar notast við innlend gögn í sambland við erlenda stuðla. Meltanleiki fóðurs hefur til dæmis mikil áhrif og hann er reiknaður út frá gögnum frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML). Einnig tökum við inn margar aðrar breytur sem hafa minni áhrif eins og mjólkurframleiðslu, fitu- og prótíninnihald kúamjólkur, meðgöngutíðni kúa og meðgöngu- hlutföll, það er hvort ær séu ein-, tví- eða þrílembdar, og meðalþyngd í hverjum aldursflokki, auk þess sem inni- og útistaða dýra eru teknar inn í reikninginn,“ segir Inga. Þetta séu allt innlend gögn frá RML.

Erlendir stuðlar fyrir metanlosun

Hún segir óhjákvæmilegt annað en að nota einnig erlenda stuðla. „Við notum til dæmis stuðla frá IPCC [milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar] fyrir það hlutfall fóðurorkuinntöku sem verður að metani og notum aðferðafræði frá IPCC til að reikna iðragerjunina út frá þessum gögnum og stuðlum.

Fyrir losun vegna iðragerjunar annarra dýraflokka er einfaldari aðferðafræði notuð. Notast er við innlend gögn yfir dýrafjölda og þyngd dýra og í framhaldi notast við stuðla frá IPCC.

Til að reikna út losun frá meðhöndlun búfjáráburðar þarf einnig að hafa upplýsingar um inni- og útistöðutíma og notkunarhlutföll mismunandi gerða búfjáráburðargeymslna, auk nokkurra fleiri breyta,“ segir Inga.

Unnið að því að afla innlendra gagn

Varðandi þann möguleika að Ísland geti sjálft lagt til gögn og stuðla sem eigi við um íslenskar aðstæður, segir Inga að þau séu mjög meðvituð um að aðstæður á Íslandi séu um margt ólíkar þeim aðstæðum sem IPCC stuðlarnir eru miðaðir við. „Því erum við að reyna að fá fleiri innlenda stuðla og auka samstarfið við innlenda sérfræðinga varðandi val á stuðlum og bætt gögn. Þessar umbætur hafa verið í gangi undanfarin ár hjá okkur og munu halda áfram af fullum krafti. En það er skemmtilegt að segja frá því að það er flott verkefni að hefjast í samstarfi við Landbúnaðarháskólann til að afla innlendra stuðla fyrir losun frá hauggeymslum á sauðfjár- og nautgripabúum sem við erum mjög spennt fyrir.“

Hún segir að á hverju ári sé gögnum safnað í öllum flokkum bókhaldsins og losun hvers flokks reiknuð út.

Tækifæri til umbóta

Inga viðurkennir að það eru ýmis tækifæri til að gera enn betur og segir að það séu einmitt verkefni í gangi til að bæta úr þeim atriðum sem losunarbókhaldssérfræðingum finnst mikilvæg til að gefa sem réttasta mynd á losun Íslands. „Það er auðvitað margt sem við vitum varðandi losun frá búfjárrækt en einnig margt sem við vitum ekki. Við getum til dæmis ekki sagt hver heildarlosunin er vegna sauðfjárræktar á Íslandi þar sem til dæmis áburðarnotkun á Íslandi eru einungis til fyrir landið í heild en ekki skipt niður á ákveðnar búfjárgreinar.

Við erum með umbótaáætlun og uppfærum aðferðafræði ákveðinna flokka eða söfnum breyttum gögnum í samræmi við hana. Þeim breytingum er ávallt beitt á alla tímalínuna, það er að segja losunin er uppfærð fyrir öll ár bókhaldsins og samanburður tveggja ára á því að sýna raunverulegan mun í losun milli þessara ára en ekki mun vegna breyttrar aðferðafræði við útreikninga í bókhaldinu.“

Landnotkunarflokkurinn losar langmest

Heildarlosun Íslands skiptist í þrjá skuldbindingarflokka, í samræmi við skuldbingingar Íslands gagnvart EES samningnum: Samfélagslosun, sem inniheldur m.a. losun frá samgöngum, frá fiskiskipum, frá landbúnaði og frá meðhöndlun úrgangs og skólps; losun vegna landnotkunar (LULUCF), sem skógræktin er hluti af; og losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (svokallað ETS kerfi), sem inniheldur stóriðju. 

Skuldbindingaflokkurinn „samfélagslosun“ samsvarar 22 prósent af heildarlosun Íslands, og af þeim losunarflokkum sem falla undir samfélagslosun, telja „vegasamgöngur“ mest, eða 34 prósent samfélagslosunar, þá „landbúnaður“, 21 prósent, „fiskiskip“, 18 prósent og „urðun úrgangs“, 7,5 prósent.

Frá skuldbindingarflokknum „landnotkun“ er langmest af heildarlosun Íslands, eða um 63 prósent, og frá árinu 2021 hafa stjórnvöld þurft að uppfylla skuldbindingar í þeim flokki. Af þeim jarðvegsgerðum sem losa í landnotkunarflokknum er mólendi sá stærsti, um 77 prósent losunar, ræktað land er um 19 prósent og votlendi 11 prósent.

„Stærstur hluti losunar innan landnotkunar er rakinn til framræslu lands og framræslan er að mestu framkvæmd í landbúnaðarskyni. Þannig tengist flokkurinn landbúnaði. Það sem flækir málin er að hláturgaslosun þessa framræsta lands, hvort sem það er í nýtingu í dag eða ekki, er talin fram í landbúnaðargeiranum á meðan koldíoxíðs- og metanlosunin er í landnotkunarflokknum. Koldíoxíðslosunin er þó mun meiri en hláturgaslosunin og mikill meirihluti losunarinnar því landnotkunarmegin,“ útskýrir Inga.

Skylt efni: Umhverfisstofnun

Mun minni uppskera en á síðasta ári
Fréttir 27. nóvember 2024

Mun minni uppskera en á síðasta ári

Samkvæmt skráningum garðyrkjubænda á uppskeru beint af akri varð mikill samdrátt...

Meiri ásetningur og sala líflamba ástæða samdráttar
Fréttir 27. nóvember 2024

Meiri ásetningur og sala líflamba ástæða samdráttar

„Ekki þarf að koma á óvart að lömbum sem koma til slátrunar hafi fækkað þetta mi...

Tveir nýir feldhrútar á sæðingastöð
Fréttir 27. nóvember 2024

Tveir nýir feldhrútar á sæðingastöð

Eins og nýlega hefur verið greint frá hér í blaðinu er feldfjárrækt nú komin inn...

Rjúpan stygg í snjóleysi
Fréttir 26. nóvember 2024

Rjúpan stygg í snjóleysi

Áki Ármann Jónsson, formaður Skotvís, segir rjúpnaveiðina fara vel af stað. Fugl...

Afleysing ekki fáanleg
Fréttir 26. nóvember 2024

Afleysing ekki fáanleg

Axel Páll Einarsson, kúabóndi á Syðri-Gróf í Flóahreppi, þurfti að fara í aðgerð...

Tók við dýraleifum af öllu höfuð­borgarsvæðinu og Suðurlandi
Fréttir 26. nóvember 2024

Tók við dýraleifum af öllu höfuð­borgarsvæðinu og Suðurlandi

Kjötmjölsverksmiðjan Orkugerðin í Flóanum náði að taka við öllum sláturúrgangi o...

Heildargreiðslumark 152 milljón lítrar
Fréttir 26. nóvember 2024

Heildargreiðslumark 152 milljón lítrar

Framkvæmdanefnd búvörusamninga leggur til við matvælaráðherra að heildargreiðslu...

Bleik slær Íslandsmet
Fréttir 25. nóvember 2024

Bleik slær Íslandsmet

Kýrin Bleik 995 á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd hefur mjólkað mest allra íslensk...