Samningur um heimaslátrunarverkefni sem á að hefjast í haust
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Guðfinna Harpa Árnadóttir, bóndi á Straumi í Hróarstungu og formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, undirrituðu í dag samkomulag um tilraunaverkefni um heimaslátrun sem á að hefjast í haust.
Í tilkynningu úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að markmið verkefnisins sé að leita leiða til þess að auðvelda bændum að slátra sauðfé heima til markaðssetningar þannig að uppfyllt séu skilyrði regluverks um matvælaöryggi og gætt sé að dýravelferð og dýraheilbrigði.
Með verkefninu sé þannig leitast við að bæta afkomu sauðfjárbænda, stuðla að bættri dýravelferð og sterkari tengingu á milli neytenda og íslenskra frumframleiðenda matvæla.
Auglýst eftir þátttakendum á næstu dögum
„Tillögur að fyrirkomulagi verkefnisins voru unnar af aðgerðahópi sauðfjárbænda um heimaslátrun í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Ráðuneytið fer með stjórn verkefnisins og mun taka saman niðurstöður við lok þess. Auglýst verður eftir þátttakendum á næstu dögum en áætlað er að sláturdagsetningar liggi fyrir í lok ágúst og að niðurstöður verkefnisins liggi fyrir í árslok 2020.
Með verkefninu er leitast við að auka möguleika bænda á að slátra heima og selja sínar afurðir. Til þess að unnt sé að markaðssetja afurðir sem slátrað hefur verið heima þarf að uppfylla ákvæði regluverks um matvælaöryggi, dýravelferð og hollustuhætti. Fyrirhugað er að bændur framkvæmi heimaslátrun sjálfir á bæjunum og opinbert eftirlit verði framkvæmt af dýralæknum á vegum Matvælastofnunar. Kjöt af gripum sem slátrað verður í tilraunaverkefninu verður ekki selt,“ segir í tilkynningunni.
Haft er eftir Kristjáni Þór að um mikilvægt skref sé að ræða í átt að því að auka frelsi bænda, aukinni verðmætasköpun og sé einnig hvatning til nýsköpunar og þróunar. „Sauðfjárbændur hafa lengi kallað eftir að fá tækifæri til að skoða möguleika þess að slátra heima og selja á markaði og styrkja þannig böndin milli neytenda og framleiðenda. Með þessu tilraunaverkefni erum við að svara þessu ákalli og leita leiða til að framkvæma þetta innan þess regluverks sem gildir,“ segir Kristján Þór.