Samstarf RML og LbhÍ
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) og Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ) munu efla samstarf sín á milli á næstu misserum.
Í því felst að faghópar munu vinna að málefnum búgreina og faglegra þátta sem snerta landbúnað, landnýtingu, umhverfis- og loftslagsmál. Sérstaklega verður hugað að samstarfi um ný rannsóknarverkefni BS, MS og PhD nema og leiðir til fjármögnunar slíkra verkefna.
„Endurmenntun LbhÍ hefur eflst mikið á undanförnum misserum og lögð er áhersla á að standa saman um áframhaldandi uppbyggingu námskeiða sem svara best þörfum bænda og annarra hagaðila,“ segir í tilkynningu.
Þar kemur jafnframt fram að í ágúst verði sameiginlegur ráðunautafundur RML og LbhÍ þar sem starfsmönnum gefst kostur á að setja sig inn í verkefni hver annars ásamt því að ræða nýja samstarfsfleti.
„Sérfræðiþekking einstakra greina í landbúnaði byggir á mjög fáu fólki og því mikilvægt að samvinnan sé góð á milli aðila. Mikil tækifæri eru til að efla enn frekar samstarfið og þá ekki síst til að sækja fram og auka enn frekar samstarf í rannsóknum og nýsköpun,“ segir í tilkynningu frá RML og LbhÍ.