Sauðfjárbændur fokreiðir út í landgræðslustjóra
Landgræðslufólk í Biskupstungum, fjallskilanefnd Biskupstungna og sauðfjárbændur í Biskupstungum, komu saman á fundi í veitingaskálanum Faxa við Tungnaréttir, sunnudaginn 7. apríl sl. Tilefni fundarins voru ummæli landgræðslustjóra, Árna Bragasonar, sem hann viðhafði á fagráðstefnu skógræktar á Hallormsstað 3.–4. apríl sl. Einnig ummæli í fjölmiðlum undanfarna daga í garð bænda, einkum þeirra sem nýta afrétti.
Samkvæmt heimildum Bændablaðsins var mikil reiði í hópi bænda og kom til mjög harðra orðaskipta milli þeirra og landgræðslustjóra.
Gagnrýnt var tal Árna um að banna ætti lausagöngu búfjár og að sumir afréttir séu ónýtir. Til dæmis Biskupstungnaafréttur. Einnig hafi hann gefið í skyn að þeir sem reki fé sitt á fjall geri það til að losna undan þeirri ábyrgð sem fylgir því að eiga búfé.
Á fundinum í Faxa var gerð afar harðorð ályktun sem samþykkt var samhljóða: „Í áratugi hefur heimafólk í Biskupstungum unnið ötullega að uppgræðslustörfum á Biskupstungnaafrétti og alla jafna í góðu samstarfi við starfsmenn Landgræðslunnar. Landgræðslustjórar, fyrrverandi og núverandi, hafa oft komið til fundar við heimamenn og lýst aðdáun sinni á því mikla og metnaðarfulla landgræðslustarfi sem hér er unnið og að árangurinn láti ekki á sér standa. Þó nokkrir félagsmenn í Landgræðslufélagi Biskupstungna og sauðfjárbændur hafa verið heiðraðir af Landgræðslunni fyrir framúrskarandi landgræðslustörf á Biskupstungnaafrétti.
Fundarmenn telja algerlega óásættanlegt að landgræðslustjóri útmáli bændur sem óábyrga skemmdarvarga sem reki fé sitt til fjalls til þess eins að eyðileggja land og komast hjá ábyrgð á sínu búfé. Eru þessi ummæli í algerri andstöðu við það sem komið hefur fram í máli hans á fundum með heimafólki.
Þá lýsa fundarmenn undrun sinni á því að landgræðslustjóri gangi svo hart fram gegn bændum á sama tíma og haldnir eru kynningar- og samráðsfundir um samstarfsverkefnið Grólind. Telja fundarmenn að alger trúnaðarbrestur hafi orðið milli hagsmunasamtaka bænda og Landgræðslunnar með ummælum landgræðslustjóra. Hann hefur með ummælum sínum gefið það út að afréttir séu óhæfir til beitar þó svo að niðurstöður Grólindarverkefnisins liggi ekki fyrir og tiltekur þar sérstaklega Biskupstungnaafrétt. Fundarmenn telja forsendur verkefnisins brostnar, þar sem landgræðslustjóri hefur þegar sagt sína skoðun, án þess að heildstæðar vísindalegar niðurstöður varðandi þróun gróðurfars á afréttum liggi fyrir.
Þá vilja fundarmenn benda á að landbúnaður er eina atvinnugreinin sem þarf að uppfylla ströng skilyrði til að nýta afrétti /hálendi landsins. Á Biskupstungnaafrétt koma tugþúsunda ferðamanna ár hvert til að njóta útivistar á og við Langjökul og fara þeir um á vélknúnum farartækjum. Landgræðslustjóri hefur gefið í skyn að mikil loftslagsvá fylgi sauðfjárbeit á afréttum, má velta því fyrir sér hvort mengi meira, 4000 fjár í 10 vikur á ári eða tugþúsundir ferðamanna á vélknúnum faratækjum allt árið um kring.
Að endingu óska fundarmenn eftir samtali við formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja, þar sem framtíðarsýn lanbúnaðarins verður rædd, en verulega hefur verið vegið að sjálfstæði landsbyggðarfólks og búsetuskilyrðum með hinum ýmsu frumvarpsdrögum undanfarin misseri. Samtalið fari fram hér heima í héraði.“