Skógarkerfill og lúpína breiðast hratt út
„Það er mjög mikið af skógarkerfli í Þingeyjarsveit, sérstaklega á Laugum í Reykjadal, en þaðan hefur hann dreifst mjög víða um Reykjadalinn. Þá er orðið mikið af skógarkerfli á nokkrum svæðum í Kaldakinn og stöku stað í Aðaldal og Fnjóskadal,“ segir Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir, líffræðingur hjá Náttúrustofu Norðausturlands.
Sigþrúður og Sesselja Guðrún Sigurðardóttir, sem einnig er líffræðingur hjá NNA, luku í sumar við kortlagningu á ágengum og framandi plöntutegundum í Þingeyjarsveit, lúpínu, skógarkerfli og bjarnarkló. Vettvangsvinnu er lokið og er nú verið að vinna upp úr henni. Verkinu lýkur í haust.
Sesselja Guðrún og Sigþrúður Stella önnum kafnar í vettvangsvinnu í fyrrasumar. Mynd / Chanee Thianthong
Útbreiðsla eykst með minnkandi beit
Sigþrúður Stella segir að skógarkerfillinn breiðist mjög hratt út um svæðið, meðfram vegum þar sem fræin „fá far“ með farartækjum og meðfram ám og lækjum. Einnig getur hann dreifst mjög auðveldlega með jarðvinnuvélum sem fara á milli svæða.
Með minnkandi beit á svæðinu hefur útbreiðsla hans aukist mjög mikið og hann leggur auðveldlega undir sig gömul næringarrík tún og önnur vel gróin svæði en einnig tekur hann yfir lúpínubreiður. Í þéttum breiðum verður skógarkerfillinn allsráðandi og aðrar plöntutegundir þrífast þar ekki.
„Spánarkerfill er ekki eins útbreiddur en á nokkrum stöðum eru miög stórar breiður af honum. Hann dreifist á sama hátt og skógarkerfill. Hann er ekki enn orðinn eins ágengur en spurning hvað verður,“ segir Sigþrúður Stella.
Aðrar plöntur verða undir í samkeppni við lúpínu
Lúpína er víða um svæðið, að sögn Sigþrúðar Stellu, og eru stærstu breiðurnar í landgræðslugirðingum og skógarreitum en hún hefur einnig dreift sé víða utan þeirra svæða og inn á gróið land þar sem ekki er beit.
„Lúpína hefur dreift sér víða meðfram Skjálfandafljóti og Fnjóská og út í eyrar og hólma í ánum. Plöntutegundum fækkar í lúpínubreiðum þar sem litlar plöntur verða undir í samkeppninni. Í hólmum og meðfram Fnjóská hefur t.d. eyrarrósin þurft að víkja fyrir lúpínu.“
Mikið um bjarnarkló á Végeirsstöðum
Bjarnarkló, eða risahvönn, er ekki á mörgum stöðum innan sveitarfélagsins en Sigþrúður Stella segir að þó hafi nú í sumar fundist margar plöntur innan skógargirðingar við Végeirsstaði í Fnjóskadal, – „og þar eru fleiri plöntur en á öllum hinum stöðunum, þar sem bjarnarkló er, til samans“.
Séð yfir Lauga í Reykjadal sumari 2019, en þar sjást stórar kerfilsbreiður greinilega. Mynd / Aðalsteinn Örn Snæþórsson