Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Holly T. Kristinsson á og rekur Responsible Foods ásamt manni sínum, Herði G. Kristinssyni. Nokkrar vörutegundir eru þegar komnar á markað og fleiri á leiðinni.
Holly T. Kristinsson á og rekur Responsible Foods ásamt manni sínum, Herði G. Kristinssyni. Nokkrar vörutegundir eru þegar komnar á markað og fleiri á leiðinni.
Mynd / Aðsend
Fréttir 8. febrúar 2021

Skyrnaslið verður fyrsta matvara sinnar tegundar í heiminum

Höfundur: smh

Einn matvælafrumkvöðlanna sem starfa í húsi Íslenska sjávarklasans við nýsköpun úr íslenskum mat­­vælum er dr. Holly T. Kristinsson matvæla- og næringarfræðingur. Hún fluttist til Íslands frá Kaliforníu í Bandaríkjunum árið 2015 og sá strax möguleikana sem íslenskt hráefni hefur vegna gæða þess og stofnaði fyrir­tæki sitt, Responsible Foods (RF), árið 2019 í því skyni að framleiða og markaðssetja íslenskt heilsunasl á erlendum mörkuðum. Í úthlutun úr Matvælasjóði um miðjan desem­ber fékk RF styrk til áframhaldandi þróunar á skyrnasli, sem Holly telur að eigi mikla möguleika í útlöndum.

Að sögn Holly ólst hún upp í Alaska þar sem í boði var fyrsta flokks sjávarfang og landbúnaðarvörur eins og við eigum að venjast á Íslandi. Þegar hún flutti til Flórída 15 ára gömul þá missti hún þessa tengingu við hágæða hráefni unnin í héraði en náði henni aftur þegar hún flutti til Íslands í desember 2015. „Ég var agndofa yfir íslenskum matvælum og hráefni og eftir að hafa unnið í ýmsum þróunar- og stjórnunarstöðum í stórum bandarískum matvæla- og innihaldsefnafyrirtækjum sá ég strax tækifæri til að koma íslenskum hráefnum á erlendan markað á formi sem hefur aldrei verið gert áður. Til að ná þessu markmiði stofnaði ég Responsible Foods árið 2019 með það að markmiði að framleiða einstakt heilsu­nasl úr íslensku hráefni. Styrkur frá Tækniþróunarsjóði sama ár gaf mér tækifæri til að helga mig þessu markmiði – og rúmlega ári seinna var framleiðsla komin í gang,“ segir Holly.

Hluti af vörulínu Næra.

Skyrnaslið verður einstakt nasl á heimsvísu

Það er ekki bara skyrnaslið sem RF vinnur að, mörg járn eru í eldinum. RF er með vörumerkið NæraTM, sem það markaðssetur vörur sínar undir. „RF hefur þróað einstakt poppað ostanasl sem unnið er úr 100 prósent íslenskum osti sem það fær frá Mjólkursamsölunni. Fyrirtækið er einnig að þróa umbyltandi nasl úr mismunandi sjávarfangi sem hefur þann eiginleika að hafa allt góða bragð fisksins en er alveg laust við fiskilykt, sem opnar á alveg nýjan hóp neytenda, sérstaklega á erlendum mörkuðum,“ segir Holly, spurð um vörutegundirnar sem eru á snærum Næra.

„Nokkrar mismunandi gerðir af skyrnasli eru í þróun, sem verður eina naslið sinnar tegundar í heiminum. Með tækninni sem Responsible Foods notar og hugvitinu sem fyrirtækið hefur þróað er hægt að vinna skyr í fast form til að búa til poppaða stökka skyrbita sem eru með langt geymsluþol við stofuhita. Gríðarlegur vöxtur hefur verið á skyri á erlendum mörkuðum, en það er allt á sama formi og þarfnast kælingar og er með stutt geymsluþol.

Skyrnaslið sem RF er að þróa er algjör bylting því nú er hægt að bjóða neytendum skyrið á handhægu formi og engin kæling er þörf og hægt er að geyma skyrið við stofuhita í að minnsta kosti ár. Þetta opnar marga nýja markaði og útvíkkar neytendahóps skyrs,“ segir Holly um þetta einstaka nasl.

Tvær starfsstöðvar

Sem fyrr segir er RF með aðsetur í húsi Íslenska sjávarklasans á Granda í Reykjavík og þar fer framleiðslan líka fram á naslinu úr mjólkurvörum; ostinum og skyrinu. „RF er svo að útvíkka starfsemi sína og á von á á öðru tæki til landsins í vor sem verður staðsett í glænýrri vinnslu sem félagið er að setja upp með Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslunni á Fáskúðsfirði. Fyrir austan verður lögð aðaláhersla á vinnslu á nasli úr sjávarfangi sem fyrirtækið fær spriklandi ferskt frá Loðnuvinnslunni,“ segir Holly og bætir við að þar verði áhersla lögð á nýtingu aukaafurða eins og afskurðar og uppsjávarfisks.

Fjölmörg íslensk fyrirtæki hafa fjárfest í félaginu sem nýlega lauk fyrstu fjármögnun. Holly segir að í þeim hópi séu Mjólkursamsalan, Lýsi, Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga, Ó. Johnson & Kaaber, en einnig komi margir sterkir einkafjárfestar að félaginu. Holly stýrir félaginu ásamt eiginmanni sínum, dr. Herði G. Kristinssyni, en bæði eru þau menntaðir matvælafræðingar og unnu áður hjá Matís í fjölmörg ár og þar áður í Bandaríkjunum.

Hún segir að aðalmarkmið RF sé að koma íslenskum hágæðavörum á markað erlendis, en einnig verða þær í boði fyrir íslenska neytendur. „Áherslan er lögð á Norður-Ameríku, þar sem mikil eftirspurn er eftir vörum eins og þeim sem RF er að þróa og framleiða. Ég hef einnig mikla reynslu á þeim markaði. Mikill áhugi er einnig á vörunum í Asíu og Evrópu. Þessa stundina er RF að undirbúa sína fyrstu pöntun fyrir erlendan markað.“

Vörur frá Næra eru nýkomnar á markað á Íslandi

Næra vörur komu fyrst á markað á Íslandi í lok nóvember 2020 og fást um allt land; meðal annars í Nettó, Hagkaup og ýmsum smærri verslunum. Holly segir að á markaði séu fjórar gerðir af poppuðu ostanasli úr Gouda-, Cheddar- og Óðalsosti en einnig Prótein-ostanasl með sýrðum rjóma og lauk. „Ostanaslið er mjög próteinríkt og hentar því einstaklega vel fyrir fólk sem er á ketó-mataræði, en einnig fyrir alla sem vilja hollt og gott millimál. Það er líka frábært að nota poppuðu ostabitana í salöt og súpur. Einnig er á markaðnum bragðgott skyrnasl með þremur bragðtegundum, sem er próteinríkt og er sérstaklega þróað með íslenska neytendur í huga. Margar af Næra vörunum eru án laktósa og allar vörurnar eru án glútens og lausar við hnetur.“

Styrkurinn frá Matvælasjóði er að sögn Holly til að styðja við þá miklu rannsóknar- og þróunarvinnu sem er í gangi hjá RF á skyrnaslinu. „Í verkefninu verða þróaðar fjölmargar hollar naslvörur úr mismunandi íslensku skyri ásamt ýmsum íslenskum innihaldsefnum. Áhersla er lögð á erlenda markaði og að uppfylla ýmsar kröfur sem þeir markaðir hafa umfram Ísland og að vörurnar falli að smekk erlendra neytenda. Sem dæmi er verið að þróa leiðir til að koma Ómega-3 fitusýrum í vörurnar frá Lýsi, með erlenda neytendur sem markhóp. Í aðeins nokkrum munnbitum verður því hægt að fá dagskammt Omega-3 fitusýra á nýju bragðgóðu handhægu formi og á sama tíma fá alla hollustuna úr íslenska skyrinu.“

Einstök tækni við þurrkun á hráefninu

„Tæknin sem RF notar er einkaleyfavarin tækni sem kemur frá fyrirtæki í Kanada og er einstök í heiminum,“ segir Holly þegar hún er beðin um að útskýra tæknina við þurrkunina á skyrinu. „RF er með einkaréttinn á að nota þessa tækni á Íslandi og er einnig með heimseinkarétt á lykilvörum félagsins. Vinnslan byggir þó ekki eingöngu á þessari tækni, heldur líka hugverkum sem RF hefur þróað og íslenska hráefninu sem er um margt einstakt miðað við sambærileg hráefni erlendis. Kjarni framleiðslunnar er þurrktækni sem hefur þann eiginleika að þurrka hráefnið á örskömmum tíma miðað við aðrar aðferðir en einnig undir lofttæmi þannig að lokaafurðirnar fá skemmtilega poppaða áferð. Þurrkunin er svo mild og hröð að næringargildi hráefnanna varðveitist, ásamt bragði, og engin þörf er á að kæla vörurnar sem hafa mjög langt geymsluþol.“

Holly nefnir sérstaklega að styrkir á borð við þann sem þau fengu úr Matvælasjóði séu afar mikilvægir fyrir nýsköpunarfyrirtæki eins og þeirra. „Við erum gríðarlega þakklát fyrir stuðninginn frá Matvælasjóði, sem og Tækniþróunarsjóði, Fram­leiðnisjóði og Nýsköpunarsjóði námsmanna. Styrkir frá sjóðum eins og þessum eru algjört lykilatriði fyrir fyrirtækið að halda þróun áfram og koma vörum á markað og þannig skapa störf og verðmæti fyrir Ísland.

Við erum líka að þróa ýmsar aðrar vörur eins og er sem innihalda fleiri íslensk innihaldsefni og hráefni frá mismunandi aðilum.“

Skylt efni: Næra | skyrnasl | Responsible Foods

Rjúpan stygg í snjóleysi
Fréttir 26. nóvember 2024

Rjúpan stygg í snjóleysi

Áki Ármann Jónsson, formaður Skotvís, segir rjúpnaveiðina fara vel af stað. Fugl...

Afleysing ekki fáanleg
Fréttir 26. nóvember 2024

Afleysing ekki fáanleg

Axel Páll Einarsson, kúabóndi á Syðri-Gróf í Flóahreppi, þurfti að fara í aðgerð...

Tók við dýraleifum af öllu höfuð­borgarsvæðinu og Suðurlandi
Fréttir 26. nóvember 2024

Tók við dýraleifum af öllu höfuð­borgarsvæðinu og Suðurlandi

Kjötmjölsverksmiðjan Orkugerðin í Flóanum náði að taka við öllum sláturúrgangi o...

Heildargreiðslumark 152 milljón lítrar
Fréttir 26. nóvember 2024

Heildargreiðslumark 152 milljón lítrar

Framkvæmdanefnd búvörusamninga leggur til við matvælaráðherra að heildargreiðslu...

Bleik slær Íslandsmet
Fréttir 25. nóvember 2024

Bleik slær Íslandsmet

Kýrin Bleik 995 á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd hefur mjólkað mest allra íslensk...

Kjötmjöl og kúamykja betri áburðargjafi á eldri tún
Fréttir 25. nóvember 2024

Kjötmjöl og kúamykja betri áburðargjafi á eldri tún

Bræðurnir Ísak og Logi Jökulssynir á Ósabakka á Skeiðum gerðu áburðartilraunir þ...

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...