Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Fé komið heim á bæ í Helguhvammi á Vatnsnesi.
Fé komið heim á bæ í Helguhvammi á Vatnsnesi.
Mynd / Eydís Ósk Indriðadóttir
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðanroki og úrkomu sem var ýmist í formi rigningar eða slyddu.

Bændum var uppálagt að fylgjast vel með veðri og grípa til ráðstafana ef þörf væri á að koma fé af fjalli.

Bændablaðið kannaði stöðuna hjá nokkrum bændum norðan heiða og var misjafnt hvaða áhrif veðrið hafði. Á Vestfjörðum og í Dölum virðist áhrifa varla hafa gætt og það sama má segja um Austfirði. Í sveitum víða þar á milli var settur meiri kraftur í smalamennskur og þeim flýtt í sumum tilfellum. Talsverður munur gat verið á nágrannasveitum hvort grípa þurfti til aðgerða.

Lögregla ræddi við bændur

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti í Árneshreppi, segir óvenjumikið hafa verið um heimasmalanir um helgina þar sem hún þekkir til. Lögreglan setti sig í samband við bændur á sunnudaginn og kannaði hvort þeir hygðust ganga á fjöll. Eva býst ekki við öðru en að fyrstu réttir í hreppnum verði 14. september og þær seinni þann 21. sama mánaðar, eins og lagt hefur verið upp með. Þegar blaðamaður ræddi við Evu á mánudaginn var komin smá föl í fjallstoppa og norðanstinningskaldi.

Magnús Örn Valsson, sauðfjárbóndi á Bergsstöðum á vestanverðu Vatnsnesi, segir marga bændur í kringum sig hafa smalað heimalöndin um helgina. Það sé í sjálfu sér ekkert óvanalegt, en bændur kepptust við að koma fénu í var neðar í fjallshlíðum áður en veðrið gengi yfir.

Ingveldur Ásta Konráðsdóttir, bóndi á Böðvarshólum í Vesturhópi, segir bændur á austanverðu Vatnsnesinu hafa smalað mikið um helgina samkvæmt venju. Þeir hafi hins vegar farið aukalega á mánudeginum vegna veðurs. Margir lentu í snjó og þegar blaðamaður ræddi við Ingveldi á mánudaginn taldi hún að snjólínan væri komin niður í 200 metra.

Víða var slydda þótt jörð væri ekki alveg hvít. Mynd / Högni Elfar Gylfason

Fé sett í örugga heimahaga

Jón Árni Magnússon, sauðfjárbóndi á Steinnesi í Vatnsdal, segir bændur í kringum sig blessunarlega hafa verið búna að fara í fyrstu leitir á heiðarlöndunum. Ekki séu nema örfáir tugir kinda eftir á óhemju landsvæði og það væri hending hvort þær fyndust ef sendur væri út leitarhópur.

Á mánudaginn var allt fé í Steinnesi komið í heimahagana og sagðist Jón Árni vera að vinna í því að koma því fyrir á túnum sem eru örugg og auðvelt að reka inn í hús ef veðrið færi á versta veg.

Auður Ingimundardóttir, bóndi á Hólabæ í Langadal, segir mest öllu hafa verið smalað í kringum sig samkvæmt áætlun. Bændur á svæðinu hafi safnast saman á mánudaginn til að reka fé á Svartárdalsfjalli, en þar hafði ekkert verið smalað í haust.

Bjarni Salberg Pétursson, bóndi á Mannskaðahóli í Skagafirði, segir fjóra bændur í kringum sig hafa farið í Unadal fyrir ofan Hofsós núna á mánudaginn til að reka fé frá svæðum sem þeir töldu hættuleg fyrir fé í miklu fannfergi. Vanalega séu fyrstu smalamennskur um næstu helgi.

Bændur í Víðidal ráku fé í hávaðaroki. Mynd / Sigríður Ólafsdóttir

Snjókoma í byggð

Jóhannes Ríkharðsson, bóndi á Brúnastöðum í Fljótum, segir bændur hafa smalað í Héðinsfirði og Siglufirði um síðustu helgi samkvæmt áætlun. Aðdragandinn að veðrinu hafi verið góður sem hafi gefið fénu færi á að koma sér neðar í fjöllin. Á mánudaginn var snjór kominn niður að efstu bæjunum í Fljótunum og frétti Jóhannes af bónda sem fór aukalega eftir fé á Lágheiðinni.

Gunnar Kristinn Guðmundsson, bóndi á Göngustöðum í Svarfaðardal, segist hafa sótt megnið af sínu fé á mánudagskvöldið í afrétt í Skallárdal, sem hafi verið tæpri viku á undan áætlun. Heimtur voru góðar og gekk verkefnið vel fyrir sig, enda stutt á afréttinn.

Í Fljótunum náði snjólínan langt niður í hlíðar. Mynd / Halldór G. Hálfdánarson

Mígandi rigning

Ásta Flosadóttir, bóndi á Höfða í Grenivík, sagði veðrið hafa einkennst af mígandi rigningu og að allt væri komið á flot. Í hennar sveit var réttað á sunnudaginn samkvæmt áætlun og taldi hún ekki ástæðu til að hafa áhyggjur ef einhverjar kindur væru eftir í Fjörðum ef hvellurinn gengi hratt yfir.

Arnór Erlingsson, bóndi á Þverá í Fnjóskárdal, var að kanna aðstæður á Flateyjardalsheiðinni þegar blaðamaður hafði samband á þriðjudaginn. Þar hafi ekki verið komin nein ófærð og flýttu bændur ekki göngum, þó þeir hafi rætt það sín á milli. Hann er bjartsýnn á að veðrið valdi engum skaða, en það hafi snjóað í fjöll nokkru áður en versta veðrið skall á, sem hafi gefið kindunum tíma til að færa sig neðar.

Allt fé komið á hús

Elín Heiða Hlinadóttir, bóndi í Svartárkoti í Bárðardal, segir smalamennskur hafa farið fram um síðustu helgi samkvæmt áætlun. Á þriðjudaginn var snjór yfir öllu og allt fé komið á hús, en í eðlilegu árferði ættu kindurnar að vera á beit úti í haga.

Sigurður Ágúst Þórarinsson, bóndi á Skarðaborg í Reykjahverfi, segir bændur í kringum sig hafa verið búna að fresta göngum um eina viku þar sem þeir voru enn í heyskap, en þurft að flýta þeim aftur og voru smalamennskur og réttir um síðustu helgi. Spáin hafi ræst að mestu leyti og að það hefði verið glórulaust að fara ekki af stað, enda bændur enn með óveðrið árið 2012 í fersku minni.

Einar Ófeigur Björnsson, bóndi á Lóni í Kelduhverfi, segist hafa farið um helgina til að smala úr þeim hluta landsins sem liggur hæst, og það hafi verið fyrr en áætlað var. Þegar blaðamaður hafði samband á þriðjudaginn var hvass norðanvindur, úrkoma og fimm stiga hiti, sem væru ekki slæmar aðstæður fyrir sauðféð. „Þetta er ekkert veður miðað við það sem við munum eftir 2012. Þetta er bara blíða miðað við það,“ segir Einar.

Gangnamenn fá ekki hvíld

Gunnar Björnsson, bóndi á Sandfellshaga í Öxarfirði, segir bændur hafa farið af stað í göngur á venjulegum tíma á miðvikudaginn í síðustu viku. Þeir komu með hluta fjárins niður á sunnudaginn og þá hafi veðrið verið farið að versna. Vanalega hefðu gangnamenn fengið smáhvíld en þeir fóru af stað aftur á sunnudagskvöldið til að koma fénu niður af háheiðunum og kláruðu að rétta á þriðjudaginn, sem var degi á undan áætlun.

Gunnar bætir við að þetta hafi verið sérstakt sumar þar sem ekki hafi verið hægt að sleppa fénu á fjall fyrr en þremur vikum seinna en vanalega. Þá hafi bændur ekki náð að klára heyskap fyrr en rétt fyrir göngur.

Halla Eiríksdóttir, bóndi á Hákonarstöðum í Jökuldal, segir bændur hafa verið byrjaða að smala innst í dalnum um síðustu helgi, rétt eins og lagt var upp með. Áframhald á leitum hefði átt að vera um næstu helgi, en ákveðið var að klára eins mikið og hægt var í byrjun vikunnar. Smalamennskur gengu vel og telur Halla féð vera vænt. Sumir bændur séu þegar búnir að senda lömb í lógun, en bændur á Jökuldal slátri margir mjög snemma. Þegar blaðamaður hafði samband á þriðjudaginn var nokkur bleyta og snjóinn farið að taka upp.

Í Jökulsárhlíðinni voru áhrifin óveruleg og sagði Sigurlaug Jónína Ólöf Þorsteinsdóttir, bóndi á Torfastöðum, ekki hafa verið tilefni til að flýta göngum.

Guðný Gréta Eyþórsdóttir, bóndi í Fossárdal í Berufirði, tekur í sama streng. Þar hafi gengið yfir hvassviðri með smá snjókomu í fjöllum, en norðanáttin sé yfirleitt þurr á hennar svæði. Snjórinn í fjallstoppunum ýti fénu niður sem sé til bóta og engar hættur fyrir það sem stendur.

Svissnesk ferðaþjónusta við Hengifoss
Fréttir 28. nóvember 2024

Svissnesk ferðaþjónusta við Hengifoss

Svissneska parið Isabelle og Steff Felix komu í Fljótsdalinn snemma árs 2022 og ...

Svipuð mjólkurframleiðsla
Fréttir 28. nóvember 2024

Svipuð mjólkurframleiðsla

Á fyrstu tíu mánuðum ársins hefur verið framleitt 85,6 prósent af heildargreiðsl...

Snyrtilegasta býlið í Borgarbyggð
Fréttir 28. nóvember 2024

Snyrtilegasta býlið í Borgarbyggð

Bændurnir á Sámsstöðum í Hvítár síðu í Borgarbyggð fengu nýlega umhverfisviðurke...

Fuglaflensa í borginni
Fréttir 28. nóvember 2024

Fuglaflensa í borginni

Máfur sem fannst í byrjun nóvember við Reykjavíkurtjörn greindist með skæða fugl...

Mun minni uppskera en á síðasta ári
Fréttir 27. nóvember 2024

Mun minni uppskera en á síðasta ári

Samkvæmt skráningum garðyrkjubænda á uppskeru beint af akri varð mikill samdrátt...

Meiri ásetningur og sala líflamba ástæða samdráttar
Fréttir 27. nóvember 2024

Meiri ásetningur og sala líflamba ástæða samdráttar

„Ekki þarf að koma á óvart að lömbum sem koma til slátrunar hafi fækkað þetta mi...

Tveir nýir feldhrútar á sæðingastöð
Fréttir 27. nóvember 2024

Tveir nýir feldhrútar á sæðingastöð

Eins og nýlega hefur verið greint frá hér í blaðinu er feldfjárrækt nú komin inn...

Rjúpan stygg í snjóleysi
Fréttir 26. nóvember 2024

Rjúpan stygg í snjóleysi

Áki Ármann Jónsson, formaður Skotvís, segir rjúpnaveiðina fara vel af stað. Fugl...