Spurning hvort afurðir standi undir lýsingakostnaði
Garðyrkjubændur sem nota lýsingu í gróðurhúsum standa frammi fyrir þeirra spurningu hvort afurðaaukningin vegna lýsingarinnar standi undir kostnaði.
Í búvörusamningnum er stefnt að því að endurgreiða bændum allt að 95% af flutningskostnaði raforku. Það sem af er þessu ári hefur endurgreiðslan verið 63%.
Gunnar Þorgeirsson, garðyrkjubóndi í Ártanga í Grímsnesi og formaður Sambands garðyrkjubænda, segir að í búvörusamningnum sé stefnt að allt að 95% niðurgreiðslu á flutningi á raforku til garðyrkjubænda vegna gróðurhúsalísingar. „Á síðasta ári var niðurgreiðslan 73% af flutningskostnaðinum og að hluta til voru það fjármunir sem áttu að fara til að niðurgreiða flutningskostnaðinn á þessu ári, 2018. Miðað við fyrstu mánuði þessa árs er endurgreiðsluhlutfallið ekki nema 63%.“
Heildarupphæðin til niðurgreiðslu á flutningskostnaði raforku vegna gróðurhúsalýsingar garðyrkjubænda samkvæmt fjárlögum á síðasta ári var 270 milljónir en af þeirri upphæð fóru 30 milljónir inn á þetta ár. Eftir stóðu því 240 milljónir.“
Spurning um kostnað
„Gunnar segir að hver og einn garðyrkjubóndi verði að meta það í kostnaðarrekstri hvort það svari kostnaði að lýsa húsin eða ekki og ég veit að nokkrir hafa komist að þeirra niðurstöðu að það borgar sig alls ekki.
Það er ekki almenn stefna Sambands garðyrkjubænda að menn eigi að hætta að lýsa húsin hjá sér en að sjálfsögðu er umræða um það í gangi á milli þeirra sem eru að nota lýsingu.
Vandinn er sá að þegar endurgreiðsluhlutfallið er komið niður í 63% þá er orðið spurning um hvort afurðirnar sem verið er að framleiða standi undir lýsingakostnaðinum.“
Föst upphæð samkvæmt búvörusamningnum
Lýsingakostnaður garðyrkjubænda hefur verið í umræðunni í mörg ár.
„Allt þar til við gerðum síðustu búvörusamninga þurftu garðyrkjubændur að semja við fjárlaganefnd um endurgreiðsluupphæðina á hverju ári.
Samkvæmt núgildandi búvörusamningi er um að ræða fasta krónutölu, 280 milljónir, sem á að fara til niðurgreiðslu á flutningskostnaði raforkunnar og eftir því sem lýsingin eykst lækkar endurgreiðsluhlutfallið.
Ekki hjálpar heldur til þegar búið er að eyða hluta fjármagnsins fyrirfram,“ segir Gunnar.
Flutningskostnaður á raforku hefur hækkað umtalsvert
„Hvað verð á raforku varðar hefur í mörg ár verið reynt að semja við raforkusala um að garðyrkjan fái raforkuna á sama verði og aðrir stórkaupendur. Því miður er sú umræða gersamlega strand sem stendur í gjaldskrá rafveitnanna og ekki vilji hjá þeim að koma til móts við garðyrkjubændur um lækkun hennar.
Flutningur á raforku hefur einnig hækkað umtalsvert á síðustu árum og langt umfram annað verðlag og sérstaklega gjaldskrá Landsnets. Það segir sig sjálft að þegar flutningskostnaðurinn hækkar á móti fastri tölu endurgreiðsluhlutfallsins verður minna til skiptanna,“ segir Gunnar Þorsteinsson, formaður Sambands garðyrkjubænda, að lokum.