Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Lokið hefur verið við að steypa upp kjallara viðbyggingar við fjósið á Hóli á Upsaströnd. Starfsmenn Landstólpa munu svo reisa bygginguna í byrjun nóvember.
Lokið hefur verið við að steypa upp kjallara viðbyggingar við fjósið á Hóli á Upsaströnd. Starfsmenn Landstólpa munu svo reisa bygginguna í byrjun nóvember.
Fréttir 3. október 2017

Spurning um að hrökkva eða stökkva

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Á Hóli á Upsaströnd, skammt norðan Dalvíkur, hafa ábúendur unnið hörðum höndum við að reisa nýja viðbyggingu við eldra fjós sem þar er fyrir.  Nýja byggingin er um 520 fermetrar að stærð og þar verður að framkvæmdum loknum komið fyrir mjaltaþjóni, aðstöðu fyrir geldkýr, smákálfa auk bása fyrir mjólkurkýr og önnur aðstaða. Þau Þorleifur Karlsson og Sigurbjörg Einarsdóttir búa á Hóli. Þar er Þorleifur fæddur og uppalinn, en Sigurbjörg er Siglfirðingur. 
 
Þorleifur hefur um langt skeið rekið búið að Hóli, fyrst með móður sinni en hann tók við rekstrinum árið 1983, þá í kringum tvítugt. Hann er búfræðingur frá Bændaskólanum á Hólum, útskrifaðist þaðan árið 1982.
 
Brýn þörf á breytingum
 
„Það var orðin brýn þörf fyrir  breytingar, framkvæmdin nauðsynleg vegna þeirra reglugerðarbreytinga sem gerðar hafa verið og kveða á um aðbúnað nautgripa, en ekki var nægt pláss fyrir hendi í eldra fjósi. Staðan var því sú að það var annaðhvort að hrökkva eða stökkva,“ segir Þorleifur sem ásamt fjölskyldu tók stökkið og hefur undanfarnar vikur unnið ötullega að því að koma upp nýrri viðbyggingu við fjósið.
 
Afmælisplanið
 
Fyrsta skóflustungan að byggingunni var tekin á liðnu vori, á afmælisdegi Þorleifs, 22. maí, fyrsta steypa var 6. júní, á afmælisdegi dótturinnar, Guðfinnu. Framkvæmdir hafa gengið að óskum fram til þessa. Væntingar heimafólks um að búið yrði að reisa fjósið á afmælisdegi Sigurbjargar, sem er í næstu viku, 29. september, lágu í loftinu á þeim tíma sem Bændablaðið leit í heimsókn. Landstólpi reisir bygginguna í törn sinni norðan heiða, en fyrirtækið mun nú á haustdögum koma upp fjölda nýrra fjósbygginga á norðanverðu landinu. Einhverjar tafir verða á að komið verði að Hóli á Upsaströnd, en Landstólpamenn hafa boðað komu sína um mánaðamótin október og nóvember og reisa þá húsið. Nú í vikunni var lokið við að steypa upp kjallarann. „Svo vorum við að gæla við að mjólkurþjónninn yrði kominn upp 17. desember en þá á Karl sonur okkar afmæli,“ segir Sigurbjörg. „Þetta var nú planið, en ég veit ekki hvort það stenst, þeir hjá Landstólpa hafa boðað einhverjar smávægilega tafir á sinni áætlun, en það væri auðvitað gaman ef þetta gengi eftir.“
 
Mjaltaþjónn sem hentar vel hér
 
Mjaltaþjónninn sem settur verður upp á Hóli er af gerðinni GEA monobox, sem er ný og nett útgáfa af GEA mjaltaþjónum, en þeir eru tiltölulega nýlegir á markaði hér á landi. Svipaður mjaltaþjónn var settur upp á Melum í Svarfaðardal nýverið. Karl fór utan til Noregs til að kynna sér þessa gerð mjaltaþjóna og þótti að lokinni vandlegri skoðun að þeir myndu henta vel í nýja fjósið að Hóli. „Mér leist mjög vel á þessa mjaltaþjóna og niðurstaðan varð sú að við ákváðum að veðja á þessa gerð. Ég á ekki von á öðru en að þeir komi vel út,“ segir Karl. 
 
Búum í haginn til framtíðar
 
Viðbyggingin bætir heilmiklu plássi við þann húsakost sem fyrir er á Hóli. „Við erum auðvitað fyrst og fremst að ráðast í svo umfangsmiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir af því sú ákvörðun var tekin hér að halda ótrauð áfram í búskap. Við teljum að framtíðin hvað mjólkurframleiðsluna varðar sé bara nokkuð björt og ætlum okkur að starfa áfram í þessari grein. Því var nauðsynlegt að búa í haginn og lagfæra byggingar og laga þær að breyttum aðstæðum í greininni,“ segir Þorleifur.
 
Fjölga í bústofni
 
Alls eru á Hóli um 55 mjólkandi kýr. Aukinn húsakostur og rýmri gefur færi á að auka við bústofninn og stefnt er að því að fullnýta róbótinn í nánustu framtíð. „Við höfum verið að fjölga hjá okkur undanfarin ár, fyrir þremur árum bjuggum við með 40 kýr, þannig að það hefur smám saman bæst við og framleiðsla verið aukin,“ segir Þorleifur.
 
Vinnuaðstaða verður góð í kjölfar þess að nýtt fjós verður tekið í notkun en það sem mestu skiptir er að aðbúnaður fyrir skepnurnar verður betri en áður. „Þetta verður heilmikil breyting fyrir alla til batnaðar,“ segir Þorleifur. 
 
Þau Þorleifur og Sigurbjörg hafa stundað kúabúaskap um langt árabil og segja að til að ná árangri þurfi menn að vera vel vakandi yfir öllum hlutum. „Þetta starf er lífsstíll, við kúabændur erum á vaktinni allan sólarhringinn og ævinlega með hugann við kýrnar og velferð þeirra,“ segir Þorleifur. 
 
Margir í héraði svara kallinu
 
Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Dalvíkurbyggð þegar að kúabúskapnum kemur og segja ábúendur á Hóli að heimamenn í héraði ætli sér greinilega að veðja á þessa grein. „Menn stóðu frammi fyrir þeim kostum að byggja myndarlega upp þannig að þeir stæðust allar þær síauknu kröfur sem gerðar eru eða hreinlega að hætta sínum rekstri. Það er gleðilegt að sjá hversu margir svara kallinu og eru í óða önn að búa sig undir nýja tíma, að laga sig að breyttu umhverfi. Tíminn til að gera það er núna,“ segja þau.

Skylt efni: fjósbygging | Fjós | Kúabændur

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð
Fréttir 2. janúar 2025

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð

Vænlegast þykir enn sem komið er að horfa til notkunar á verkuðu votheyi til nýt...

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð
Fréttir 2. janúar 2025

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð

Lagt er til að hugtakið kolefniseining verði skilgreint í lögum og að þær verði ...

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild
Fréttir 30. desember 2024

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild

Búsæld seldi hlut sinn í Kjarnafæði Norðlenska (KN) í heild til Kaupfélags Skagf...

Styrkir til verslana
Fréttir 30. desember 2024

Styrkir til verslana

Sex dagvöruverslanir í minni byggðarlögum kringum landið hlutu styrki frá innvið...

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi...

Kyngreining sæðis hafin
Fréttir 27. desember 2024

Kyngreining sæðis hafin

Við Nautastöð Bændasamtaka Íslands á Hesti í Borgarfirði hefur verið komið upp f...

Áskrift að Bændablaðinu 2025
Fréttir 27. desember 2024

Áskrift að Bændablaðinu 2025

Gefin eru út 23 tölublöð af Bændablaðinu ár hvert. Upplagi þess er dreift um all...

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...