Stærsta bú fyrir lóðrétta ræktun í Danmörku
Fjórtán röðum með salati, kryddjurtum og káli er staflað upp á hver aðra í nýju lóðréttu búi í Kaupmannahöfn sem er eitt hið stærsta sinnar tegundar í heiminum. Raðirnar ná frá gólfi og upp í þak hjá fyrirtækinu Nordic Harvest en hin nýja stöð nær yfir sjö ferkílómetra.
Uppskera verður 15 sinnum á ári í nýju stöðinni þrátt fyrir að plönturnar sjái aldrei dagsljós eða næringarríka jörð en þess í stað er fjólublátt ljós beint að þeim allan sólarhringinn frá 20 þúsund sérútbúnum LED-lömpum. Á þessari framtíðarstöð sjá litlir róbótar um að sá fræjum frá hillurekka til hillurekka. Áætlað er að um 200 tonn af grænmeti verði uppskorið á stöðinni á fyrsta ársfjórðungi næsta árs og síðan um þúsund tonn á ári þegar framleiðslan verður komin á fullt. Þetta verður því ein stærsta stöð þessarar tegundar í Evrópu og raunar heiminum.
Nýja stöðin hefur mætt efasemdum frá mörgum sem stunda hefðbundinn landbúnað þar sem vangaveltur hafa sprottið upp um framleiðslugetu og rafmagnsnotkun. Forsvarsmenn fyrirtækisins benda á að stöðin hafi ákveðið loftslagsforskot með vörum sem afhentar eru í nálægð við framleiðslustaðinn og með notkun á grænu rafmagni frá vindmyllum. Þar að auki skaðar láréttur landbúnaður ekki umhverfið þar sem allt vatn, næring og áburður er endurnýtt. Hafa forsvarsmenn Nordic Harvest einnig bent á að í stöðinni þurfi einungis að nota einn lítra af vatni á hvert kíló sem framleitt er en á stórum akri þyrfti til dæmis að nota 250 sinnum meira magn.