Stenst ekki lög um varnir gegn dýrasjúkdómum
Í mars 2016 birti Evrópusambandið tillögur að nýrri reglugerð um áburð, sem meðal annars fjalla um að lífrænn áburður geti verið í frjálsu flæði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Lífrænn áburður getur verið molta sem getur innihaldið húsdýraáburð og rotmassa blandaðan húsdýraáburði og jafnvel kjöt- og beinamjöli.
Halldór Runólfsson fyrrverandi yfirdýralæknir hefur sett saman áhættulista um hættu á innflutningi á búfjársjúkdómum til landsins.
„Mest er hættan ef flutt eru til landsins lifandi dýr en það er bannað og ég tel víst að ekki verði hróflað við því. Næst á eftir á áhættulistanum og er í farvatninu er innflutningur á búfjáráburði eða búfjárskít.“
Reglugerð um áburð og sáðvörur
„Ef við bökkum aðeins og horfum til ársins 1994 við upphaf EBS-samningsins þá tók Ísland yfir allar reglugerðir um áburð, fóður og sáðvöru. Undanfarin ár hefur Evrópusambandið verið að undirbúa nýja reglugerð um lífrænan áburð sem verður bætt inn í áburðarreglugerðina.
Staðan er því sú að þar sem Ísland er búið að innleiða grunnreglugerðina þá verðum við að innleiða þá nýju líka samkvæmt EES-samningnum.“
Hvað er í lífrænum áburði?
Eins og gefur að skilja er innihald lífræns áburðar margbreytilegt. Halldór segir að í drögum að nýju reglugerðinni sé lífrænum áburði skipt í ellefu flokka og meðal annars flokka þar sem blandað er saman húsdýraáburði og plöntuleifum og í ákveðnum tilfellum kjöt- og beinamjöli. Í öðrum flokkum er svo eingöngu um að ræða plöntuleifar eða moltu.
Lög um dýrasjúkdóma
„Í lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim er innflutningur á kjöt- og beinamjöli og lífrænum áburði, svo sem alidýraáburði og rotmassa blönduðum alidýraáburði, óheimill, þar sem með lífrænum áburði geta borist smitefni, sem geta valdið dýra- og plöntusjúkdómum.“
Halldór segir því ljóst að Ísland þarf séraðlögun um að takmarka innflutning lífræns áburðar, til að vernda sérstöðu landsins, hvað varðar góða stöðu dýra- og plöntusjúkdóma.
„Ég tók saman áhættumat vegna þessa máls fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og skilaði því í mars 2018. Í áhættumatinu er gerð grein fyrir að það geti verið margir dýra- og plöntusjúkdómar, sem flestir finnast ekki hér á landi, sem geta borist til landsins með óheftum innflutningi á lífrænum áburði, sérstaklega ef hann væri ekki framleiddur undir ströngustu skilyrðum um eyðingu smitefna.
Þar sem of umfangsmikið og tímafrekt var talið að taka alla þessa sjúkdóma til skoðunar, var aðeins gert fullt áhættumat á einum sjúkdómi varðandi hverja af okkar helstu dýrategundum og einum plöntusjúkdómi sem gæti borist í margar plöntutegundir.“
Sjúkdómarnir sem gætu borist til landsins
EHV – 1 eða Herpes veirusmitsjúkdómur í hestum, sem aldrei hefur greinst hér, sem er landlægur í flestum Evrópulöndum og sem Matvælastofnun hefur verið að vara við að gæti borist hingað með fólki og búnaði.
Garnaveiki af þeirri tegund sem fer fyrst og fremst í nautgripi og hefur aldrei greinst á Íslandi.
Mæði/Visna veiran, sem veldur mæðiveiki í sauðfé og útrýmt var hér á landi með gífurlegum tilkostnaði.
PRRS – sem er veirusmitsjúkdómur í svínum, sem aldrei hefur greinst hér á landi.
AEV sem er veirusmitsjúkdómur í hænsnum, sem aldrei hefur greinst hér á landi.
Varðandi plöntusjúkdóma segir Halldór að talið sé að íslenskri garðyrkju og skógrækt gæti stafað mikil hætta af sýkingum af völdum sveppa af tegundinni Phytopthora.
Vantar opinbert eftirlit í Evrópusambandinu
„Í nýju reglugerð Evrópusambandsins er gert ráð fyrir að allur lífrænn áburður og rotmassi sé hitaður í ákveðið hitastig, til dæmis 70° á Celsíus, og haldið við það í ákveðinn tíma til að drepa bakteríur, fræ og aðrar lífverur í honum. Allir sem skoðað hafa moltugerð vita að það getur verið mjög erfitt að ná upp réttu hitastigi og halda því í öllum massanum í nógu langan tíma til að drepa ákveðnar bakteríur og eyðileggja veirur.
Áhyggjuefnið er því að ef þessi hiti næst ekki í rotmassa sem er búið að blanda með húsdýraáburði og fleiru munu geta lifað í massanum bakteríur og veirur sem geta valdið dýra- og plöntusjúkdómum hér á landi sé hann fluttur inn.“
Halldór segir að samkvæmt hugmyndafræði nýju reglugerðarinnar séu allar viðmiðunartölur til staðar en hann hafi meiri áhyggjur af eftirliti með framleiðslunni og að erfitt sé að fá opinbera vottun um að hún sé í lagi.
Úrgangur úr gróðurhúsum
„Í einum af ellefu flokkum lífræns áburðar eru leifar úr gróðurhúsum og ekki gert ráð fyrir að sá massi sé hitameðhöndlaður sem þýðir að í honum geta leynst alls konar bakteríur og vírusar sem geta borist í gróðurhús hér á landi. Einnig geta leynst í massanum framandi plöntutegundir sem geta valdið usla í ræktun.“
Þurfum undanþágu frá fimm flokkum
Halldór segir að af þeim ellefu flokkum lífræns áburðar sem er að finna í nýju reglugerð Evrópusambandsins þurfi Ísland að fá undanþágu frá að minnsta kosti fimm.
„Þessir fimm flokkar gætu verið áhættusamir í innflutningi og standast ekki innlendu löggjöfina um varnir gegn dýrasjúkdómum.