Suðurlandsdeild stofnuð
Suðurlandsdeild Klúbbs matreiðslumeistara varð að veruleika þegar deildin var stofnuð í Tryggvaskála á Selfossi að kvöldi 26. september síðastliðinn.
Fundurinn hófst með því að forseti Klúbbs matreiðslumeistara, Eyrbekkingurinn Þórir Erlingsson, setti fundinn. Kynnti hann því næst sögu og gildi Klúbbs matreiðslumeistara í orði og myndum. Þá var dagskrá vetrarins á Suðurlandi kynnt og samþykkt að félagsfundir verði haldnir þriðja hvern þriðjudag á mismunandi stöðum á svæðinu.
Nálægt þrjátíu manns mættu á fundinn en í lok hans var boðið upp á dýrindis humarsúpu að hætti matreiðslumanna Tryggvaskála.