Tíu mánaða bið eftir staðfestingu ráðherra
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur enn ekki skrifað undir staðfestingu á því að hluti Borðeyrar verði verndarsvæði í byggð en tíu mánuðir eru liðnir frá því sveitarstjórn Húnaþings vestra óskaði eftir því.
Þann 19. maí 2018 samþykkti sveitarstjórn að hluti Borðeyrar verði verndarsvæði í byggð vegna menningarsögulegs gildis og ásýndar svo auðveldara verði að vernda sérkenni byggðakjarnans í komandi skipulagsvinnu. Þann 30. maí óskaði sveitarfélagið eftir staðfestingu mennta- og menningarmálaráðherra, eins og kveðið er á um í lögum að þurfi að gera.
Í millitíðinni hefur Minjastofnun sent inn sína umsögn og mælir stofnunin með staðfestingu. Töfin hefur hamlað skipulagsvinnu á Borðeyri og uppbyggingu ferðaþjónustu í Hrútafirði, að því er fram kemur í fundargerð byggðarráðs Húnaþings vestra.
Byggðarráð Húnaþings vestra harmar þessi vinnubrögð og hvetur ráðherra til að klára málið sem fyrst. Þetta kemur fram á fréttavefnum huni.is.