Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Ingibjörg Sigurðardóttir á Auðólfsstöðum og Ingvar Björnsson á Hólabaki sem stjórnaði fundi.
Ingibjörg Sigurðardóttir á Auðólfsstöðum og Ingvar Björnsson á Hólabaki sem stjórnaði fundi.
Mynd / TB
Fréttir 1. mars 2019

Töluðu um heilsuna í Húnaþingi

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Um 40 bændur í Vestur-Húna­vatnssýslu fjölmenntu á fund í síðustu viku sem haldinn var í félagsheimilinu Ásbyrgi í Miðfirði til þess að tala um heilsuna. Þar héldu erindi læknirinn Þórður Ingólfsson og sálfræðingurinn Sofia B. Krantz auk þess sem Guðmundur Hallgrímsson fjallaði um vinnuverndarverkefnið Búum vel sem Bændasamtökin hafa rekið um árabil í samvinnu við búnaðarsambönd. Tilefnið var að ræða heilsufar og vellíðan bænda og starfsfólks í landbúnaði. Greinilegt var á mætingu og umræðum fundargesta að mál­efnið vekur áhuga og er brýnt. Fundurinn var haldinn af Búnaðarsambandi Húnaþings og Stranda, Bændasamtökunum og Kvennabandinu, sambandi kvenfélaga í V-Hún.
 
Markmið verkefnisins er að fækka slysum í landbúnaði
 
Guðmundur Hallgrímsson, verkefnisstjóri vinnuverndar-verkefnisins Búum vel, hélt inngangserindi þar sem hann sagði frá tilgangi vinnuverndarstarfs almennt. Hann hefur á síðustu árum farið í heimsóknir á um 240 sveitabæi til þess að ræða vinnuverndar- og öryggismál. 
 
„Þetta er í raun undirbúningur til þess að mæta því eftirliti sem kemur síðar. Við yfirförum ýmis öryggismál á bænum, mikið í kringum vélar, rafmagn og byggingar. Ég fer með hitamyndavél og skoða rafmagnstöflur og ýmis raftæki. Með bændunum er farið yfir aðstöðu í gripahúsum og við skoðum meðal annars brunahættu, útgönguleiðir, vélar og verkfæri innanhúss og vinnuaðstöðu,“ segir Guðmundur. Í heimsóknum til bænda er líka rætt um ásýnd býlisins. „Við stærum okkur af því að framleiða góðar búvörur og er þá ekki nauðsynlegt að hafa sæmilega snyrtilegt í kringum sig?“ spurði Guðmundur fundarmenn. Hann segir að heilsufarsþátturinn í vinnuverndinni sé nú til umfjöllunar og fundurinn í Ásbyrgi viss tilraun í þeim efnum. 
 
Guðmundur Hallgrímsson, verkefnisstjóri Búum vel.
 
Eru bændur eins og annað fólk?
 
Þórður Ingólfsson er heimilislæknir í Búðardal og hefur starfað þar í um 25 ár. Hann ræddi við fundargesti um heilsufar og hvatti þá til þess að hugsa til framtíðar. „Eru bændur eins og annað fólk?“ spurði Þórður í upphafi erindis síns og velti því upp hvort bændur fengju sömu sjúkdóma og aðrir og lentu í áþekkum slysum.
 
„Það fyrsta sem maður getur sagt þegar skoðuð eru veikindi í heild að þá virðast bændur verða minna veikir en aðrir íbúar þessa lands. Þá erum við að tala um talda veikindadaga. Hvernig skyldi standa á því? Jú, er það ekki vegna þess að þeir eru að reka sín bú og verða að vinna?“ 
 
Þegar Þórður kom í Búðardal var hann búinn að vera 7 ár í Svíþjóð og vinna þar í heilsugæslu í nokkur ár. „Strax og ég hóf störf í Búðardal fannst mér áberandi mikið um slitgigt. Gerði ekkert meira með það þá en skoðaði það síðar. Nú hefur verið staðfest með rannsóknum að mikið er um slitgigt hjá bændum. Bændur fara t.d. oftar en aðrir í liðskiptiaðgerðir á mjöðmum og hnjám. Munurinn er ekki mikill en hann er marktækur,“ segir Þórður. Heilt yfir séu öll krabbamein sjaldgæfari í bændum en öðrum íbúum landsins samkvæmt mælingum og er sá munur marktækur. „Það er ef til vill ívið meira um sum krabbamein, t.d. húðkrabbamein, sem hefur væntanlega með mikla útiveru að gera vegna sólar,“ segir hann. 
 
Þórður Ingólfsson læknir.
 
Heymæðin ekki lengur algeng
 
Þórður nefnir heymæðina sem var mikið meira vandamál hér áður fyrr. „Heymæði er oft ruglað saman við frjókornaofnæmi. Heymæði er það sem kallað er á ensku „farmer‘s lung“ sem er í raun ofnæmi við myglu og jafnvel öðrum hlutum í illa verkuðu heyi. Þegar ég kom í Búðardal sá ég gamla bændur með þennan sjúkdóm en sé hann ekki lengur. Ég get ekki lofað því að búið sé að útrýma heymæðinni en með nútíma heyverkunaraðferðum hefur þetta batnað. Svo eru sumar sýkingar sem eru algengari hjá bændum en öðrum, t.d. sláturbóla sem er svolítið sérstök fyrir þessa stétt,“ segir Þórður og nefnir líka stífkrampa sem væri þó fátíður en gæti leynst í jarðvegi. Í því tilliti minnti hann bændur á að nýta sér bólusetningar. 
 
Hvernig á að lifa lífinu?
 
Þórður segir að erfitt sé að gefa eitt ráð sem gagnast öllum þegar kemur að góðri heilsu. „Auðvitað eigum við að borða og drekka hollt. Við eigum að borða fjölbreyttan mat, kjöt, fisk, grænmeti, grófmeti og lýsi. Við eigum að borða sem minnst af unnum matvælum og borða íslenskan mat. Við vitum hvernig lambakjötið er og vitum að það er hrein vara, rétt eins og nautakjötið og fiskurinn. Við eigum að borða minna af unnum mat en það hefur sýnt sig að hann er ekki alltaf heilnæmur. Þá er ég að tala um pylsur og bjúgu eða slíka fæðu,“ segir Þórður. Hann ráðleggur bændum að taka lýsi því það væri öruggt að við fengjum ekki nægt D-vítamín frá sólinni í skammdeginu.
 
Kaffið stendur fyrir sínu
 
Sykur og sætindi sem eru hraðvirk og einföld kolvetni eru óholl og sennilega ávanabindandi. Þórður mælir með því að nota lítið af þessum hráefnum í matreiðslu. „Ávaxtasykur er því miður ekki hollari en hvíti sykurinn og menn þurfa að muna eftir því, t.d. þegar fólk fær sér ávaxtasafa,“ segir Þórður en hann mælir með kaffidrykkju. „Mér finnst vanta að kaffið njóti sannmælis. Það er sýnt að þeir sem drekka kaffi lifa lengur en þeir sem ekki drekka kaffi. Þeir sem drekka kaffi fá síður sykursýki en þeir sem ekki gera það. Sama á við um sum krabbamein, t.d. ristil- og brjóstakrabbamein. Það er aldrei talað um þetta. Jú, kaffi getur verið vont í magann og fólk getur fengið magasár við að drekka of mikið af því,“ segir Þórður sem varar hins vegar við reykingum og annarri tóbaksnotkun. „Lengi var talið að það væri hollt að drekka 1–2 rauðvínsglös en það er umdeilt enn þá. Sem læknir er ég ekki hingað kominn til að mæla með því að fólk neyti áfengis en við eigum líka að vera hamingjusöm. Allt sem gleður er gott!“
 
Kaffið stendur fyrir sínu og er gott að læknisráði.
 
Viðhöldum bólusetningum
 
Þórður hvatti fólk til að viðhalda bólusetningum. „Mér finnst að bændur eigi að passa sig og vera með vörn fyrir stífkrampa. Forðumst slysin og förum varlega. Mætum í skipulagða krabbameinsskoðun. Ennþá er það bara til fyrir konur, þar sem leitað er að legháls- og brjóstakrabbameini.“ 
 
Skimun fyrir krabbameinum
 
Þórður segir að lengi sé búið að tala um að hefja skimum fyrir ristilkrabbameini en menn deila um hvaða aðferð á að nota. „Skimunin er gerð á tvennan hátt, með ristilspeglun, sem er best en svolítið dýrt. Það eru til gögn sem sýna að það svari kostnaði. Separ eru teknir en þeir geta breyst í krabbamein. Hin aðferðin er að athuga hvort það sé blóð í hægðum sem er þó ónákvæmt og gefur vafasamari niðurstöður. Það er líka hægt að mæla efni í blóði sem segja til um það hvort líkur séu á því að karlmenn séu með blöðruhálskrabbamein.“ Þórður segir blöðruhálskrabbamein mjög breytilegt og hegði sér með ólíkum hætti. „Það er mjög há prósenta af gömlum körlum sem eru með blöðruhálskrabbamein, t.d. eru níræðir karlmenn sem deyja á bilinu 80–90% með slíkt mein. Svo geta verið yngri menn, kannski í kringum sextugt sem fá blöðruhálskrabbamein og deyja á tveimur árum. Meðferðin er frekar harkaleg og því er ekki mælt með því að skima fyrir þessu hjá einkennalausum.“ 
 
Er ástæða til að leita til læknis?
 
Þórður velti upp þeirri spurningu sem margir velta fyrir sér, hvort maður ætti að fara til læknis í tékk. „Ég gæti talið ótal þætti þar. Ef við erum að léttast, höfum ekki matarlyst, breyting verður á hægðum sem varir vikum saman, eða sjáum blóð í þvagi eða eigum erfiðara með að pissa – þá borgar sig að fara til læknis. Ef við finnum hnút sem við vitum ekki hvað er, t.d. í hálsi, brjósti eða finnum eitthvað undir húðinni. Mæði sem er komin og var ekki áður, brjóstverki við áreynslu og fleira. Ég man ekki allt sem hægt er að nefna, en það er fjölmargt.“ 
 
Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir á Kollsá II, Guðbjörg Jónsdóttir á Kolbeinsá og Kristín Árnadóttir á Borðeyri.
 
Aðspurður um það hvort maður ætti að fara til læknis þó ekkert væri að svaraði Þórður að það gæti verið ráð. „Það er kannski skynsamlegt svona um miðjan aldur, svona 50–60 ára, að fara til læknis og biðja um heilsufarstékk. Eitt allra mikilvægasta sem læknirinn gerir er að spyrja hvernig lífið hafi verið og hvernig þér líður. Hann veitir svo læknisskoðun, tekur blóðprufu og spyr út í erfðir. Sum krabbamein eru arfgeng, t.d. brjóstakrabbamein og blöðruhálskirtilskrabbamein. Flestir innkirtlasjúkdómar, sykursýki og fjölmargt fleira getur verið ættgengt. Læknirinn veit yfirleitt nokkurn veginn um hvað á að spyrja.  Blóðþrýstingurinn er að sjálfsögðu mældur. Það er í raun aldrei of seint að fá svona tékk.“ 
 
Að lokum segir Þórður að fólk ætti að einbeita sér að því að njóta lífsins og gleyma ekki að hreyfa sig reglulega. 
 
„KK söng eitthvað á þá leið að einfalt líf væri gott. Að vera heiðarlegur er alltaf einfaldast. Flækjum ekki lífið of mikið. Streita og álag er oft eitthvað sem erfitt er að forðast en hægt er að draga úr. Við erum félagsverur og eigum að vera innan um hvert annað,“ segir Þórður Ingólfsson, heimilislæknir í Búðardal. 
 
Þórður Ingólfsson, læknir í Búðardal, gaf bændum góð ráð og Sofía B. Krantz sálfræðingur hvatti þá til að huga að geðheilsunni.
 
 
Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...