Tveir fjölónæmir
Árið 2023 voru níu Salmonella-stofnar úr stroksýnum við slátrun svína næmisprófaðir og reyndust sex þeirra ónæmir, þar af tveir fjölónæmir.
Út er komin skýrslan Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería hjá mönnum og dýrum á Íslandi 2023. Þar kemur m.a. fram að níu stofnar úr jákvæðum stroksýnum, sem tekin voru samkvæmt landsáætlun um varnir og viðbrögð gegn Salmonella í svínum og afurðum þeirra í fyrra, voru næmisprófaðir. Sex þeirra reyndust ónæmir, þar af tveir fjölónæmir.
Þegar bornar eru saman tölur yfir sýklalyfjanæmi baktería í dýrum og matvælum milli landa í Evrópu kemur í ljós að staðan er einna best á Íslandi. Heildarsala sýklalyfja fyrir dýr hérlendis árið 2023 dróst saman um 12% á milli áranna 2022 og 2023. Samkvæmt nýjustu skýrslu Lyfjastofnunar Evrópu er sala sýklalyfja fyrir dýr á Íslandi árið 2022 minnst í Evrópu í tonnum talið, eða 0,6 tonn.