Heimsframleiðslan 37 milljarða virði
Búist er við að sala á Aloe vera-vörum á markaði muni nema um 2,7 milljörðum Bandaríkjadala (um 37,5 milljörðum ISK) á næsta ári og nemur árleg hækkun frá 2017 um 6,2 prósentum. Alþjóðleg eftirspurn eftir húð- og hárvöru er drifkraftur þessa vaxtar.
Kína, Bandaríkin, Mexíkó, Ástralía og hluti landa í Suður-Ameríku eru helstu framleiðendur og útflytjendur á Aloe vera-vörum.
Aloe vera er harðgerður, fjölær þykkblöðungur af ættkvísl biturblöðunga, með gulum blómum og stinnum, spjótlaga blöðum sem vaxa í hvirfingu og geta orðið allt að 90 cm löng. Hundruð tegunda eru til af Aloe en Aloe vera (L.) N.L.Burm., einnig kölluð Aloe barbadensis Mill., er þekktust og mest notuð í ræktun. Hún er m.a. talin sótthreinsandi og bólgueyðandi og gjarnan notuð til að meðhöndla ýmsa húðsjúkdóma og bruna. Til að plantan geti lifað af langvarandi þurrka geymir hún í blöðum sínum mikið af næringarefnum. Í blöðum Aloe vera er annars vegar glært hlaup og hins vegar beiskur, gulleitur vökvi (alóín).
Kólumbus notaði kanarískt Aloe vera
Finna má upplýsingar um gagnsemi Aloe vera í heimildum allt frá 1.500 f.Kr. Í sjóferðadagbókum Kristófers Kólumbusar laust fyrir árið 1500 kemur fram að hann tók talsvert af plöntunni á Kanaríeyjum til að hafa í löngum sjóferðum, vegna græðandi eiginleika hennar.
Þegar leitað er að besta Aloe vera í heimi beinast sjónir einmitt að Kanaríeyjum. Þar um slóðir vex jurtin einkum á Gran Canaria, Lanzarote og Fuerteventura. Eldfjallajarðvegur og loftslag eyjanna gerir að verkum að Aloe vera þaðan inniheldur ríkuleg steinefni. Það er jafnframt sagt innihalda allt að þrisvar sinnum meira (23,38%) af fjölsykrunni acemannan en plöntur annars staðar frá.
Allt unnið í höndunum
Á austanverðri Gran Canaria, í Carretera, El Goro, er einn Aloe vera-búgarða fyrirtækisins Finca Canarias. Þar eru, með lífrænum aðferðum, ræktaðar yfir 35 þúsund plöntur (Aloe Barbadensis Mill.).
Finca býður upp á leiðsögn þar sem verkunin er sýnd og útskýrð fyrir gestum, farið yfir margvísleg eigindi plöntunnar og gestir auðvitað hvattir til að kaupa framleiðslu fyrirtækisins í formi hreins hlaups og ýmissa smyrsla. Einnig er hægt að kaupa lifandi plöntur. Framleiðsla Finca er vottuð og segja aðstandendur fyrirtækisins hana besta fáanlega Aloe vera í heimi:
„Lífræn ræktun og ferlar eru hluti af fyrirtækjamenningu okkar. Fjölskyldan hefur ræktað og unnið Aloe vera kynslóðum saman og vill halda áfram á sama hátt til að fórna ekki gæðum. Allt ferli, frá söfnun laufa til hreinsunar og umhirðu plantna, er unnið í höndunum og strangt gæðaeftirlit á öllum þrepum frá ræktun til pökkunar. Á plantekrunum er hvorki notað skordýraeitur né önnur varnarefni. Sömu aðferðir við frjóvgun og eftirlit hafa verið viðhafðar í áratugi. Aloe vera er náttúrulega ræktað í hæsta gæðaflokki, án skaðlegra efna,“ segir í kynningarefni Fincas.
Ársframleiðslan fimm lauf
Í hverjum mánuði eru handtínd um 5.000 fersk lauf af Aloe vera á plantekrunum í Carretera. Hver planta gefur 4–5 laufblöð á ári. Þannig er lífvænleiki plantnanna tryggður.
Vinnslan fer þannig fram að hvert einstakt laufblað er handþvegið í vatni. Rótin er síðan skorin af með keramik- og plastáhöldum svo hlaupið verði ekki fyrir efnahvörfum. Þar næst eru blöðin sett í vatnsbað í átta klukkustundir til að fjarlægja umfram alóín (þunni vökvinn). Eftir það er hlaupið handskorið úr hýðinu með plastspaða.
Að loknu þessu ferli inniheldur hlaupið aðeins 5% alóín. Þá er gelið kaldpressað og C- og E-vítamíni, sem unnin eru úr sítrónu, bætt við en þau virka sem náttúruleg rotvarnarefni. Með þessu móti segir Fincas fá 99,38% hreint Aloe-hlaup. Vörur fyrirtækisins séu alltaf ferskvara og framleiðslan skipulögð í samræmi við eftirspurn. Gæði skipti meira máli en magn.
Að sjálfsögðu eru svo fleiri framleiðendur Aloe vera á eyjunum og segjast auðvitað allir selja bestu vöruna.
Til að tryggja að maður hafi gæða Aloe vera í höndunum er gagnlegt að skoða í innihaldslýsingu hvort laufsafi (Aloe vera leaf juice) sé ekki örugglega efst þar á blaði og ekki í vörunni vatn, Aloe vera extrakt eða -duft.