Líffræðilegum fjölbreytileika hrakar
Þrátt fyrir aukna þekkingu og takmörkun á neikvæðum áhrifum mannlegra athafna á lífríki í Norðaustur-Atlantshafi hrakar líffræðilegum fjölbreytileika á hafsvæðinu.
Það er niðurstaða nýrrar skýrslu á vegum OSPAR samningsins um verndun Norðaustur- Atlantshafsins.
Viðnámsþol hafsins gegn loftslagsbreytingum hefur veikst og súrnun sjávar knýr fram miklar breytingar sem eru að stofna lífríki hafsins í hættu, að því er fram kemur í niðurstöðum skýrslunnar sem unnin var með samningsaðilum, skrifstofu OSPAR og yfir 400 vísindamönnum og sérfræðingum.
Skýrslan er heildstætt mat á lífríki svæðisins og tekur meðal annars til losunar mengandi efna í hafið, ofauðgunar næringarefna, fiskveiða, rusls í hafi, hávaðamengunar og áhrifa loftslagsbreytinga.
Mat á búsvæðum botns og uppsjávar og vistfræðilegt mat á fæðuvefjum sjávarfugla, sjávarspendýra og fiska sýna öll hnignun á líffræðilegum fjölbreytileika þrátt fyrir framfarir við að greina og bregðast við þeim.
Þá eru breytingarnar að flýta fyrir útbreiðslu nýrra tegunda sem geta orðið ágengar og dregið enn úr fjölbreytileika lífríkis Norðaustur- Atlantshafsins
Einnig er það nefnt að mengunarvaldar á borð við lyfjaagnir og PFAS efni veki vaxandi ugg meðal höfunda en skýrsluna má nálgast á vef OSPAR.