Metanminnkandi kúafóður hluti loftslagsstefnu
Bresk stjórnvöld vilja leita leiða til að koma metanminnkandi fóðri í almenna notkun innan tveggja ára. Þessi áform voru kynnt sem hluti af vegferð breskra stjórnvalda í átt að kolefnishlutleysi.
Bændur fagna þessum fyrirætlunum, en stjórnvöld hafa átt í samráði við stéttina varðandi útfærslu áætlunarinnar. Engin metanminnkandi lausn er komin á markað sem hefur fullnægjandi virkni, en mikil framþróun er á sviðinu og eru bundnar miklar vonir við að fullnægjandi úrræði verði aðgengileg innan tveggja ára. Frá þessu greinir Guardian.
Metan sem myndast við meltingu kúa og losnar frá mykjunni er talið stuðla að fjórtán prósent losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum.
Á Bretlandi eru 9,4 milljónir kúa og kálfa. Ef tekst að koma bætiefnunum í kjarnfóður með góðri virkni gætu stjórnvöld skyldað notkun þeirra í nokkrum þrepum með það markmið að notkunin verði sem mest.
Varaformaður bresku bændasamtakanna, Tom Bradshaw, sagði í samtali við Guardian að mest gróðurhúsaframleiðsla nautgripa komi út um framendann á þeim, ekki afturendann. Flest bendi til að bætiefnin verði gagnleg, þó enn sé óljóst hvaða áhrif þau hafi á nýtni fóðursins. Hann sagði að frekari rannsóknarvinnu sé þörf til að ná markmiði minnkaðrar losunar, en nokkur verkefni séu í gangi á Bretlandseyjum núna. Fleiri leiðir séu hugsanlega færar til að minnka metanlosun kúa, en á Nýja-Sjálandi fullyrða stjórnvöld að þeim hafi tekist að minnka losun síns kúastofns með kynbótum.
Bresk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að einblína um of á tæknilausnir með óstaðfesta virkni í viðleitni sinni til að ná kolefnishlutleysi. Hópur 700 vísindamanna kom fram eftir að ríkisstjórnin kynnti leiðarvísi að kolefnishlutleysi og sagði stjórnvöld leggja of mikið traust á aðferðir eins og kolefnisförgun sem enn hefur ekki tekist að skala upp.