Mótmælt í Færeyjum
Færeyskir bændur fjölmenntu til Þórshafnar á þrjátíu og þremur dráttarvélum til að mótmæla.
Þeir vildu lýsa yfir andstöðu sinni við lagafrumvarp Høgna Hoydal vinnumarkaðsráðherra um sjálfbæra ferðaþjónustu. Mótmælin fóru fram þegar frumvarpið var tekið til fyrstu umræðu í lögþinginu að morgni þriðjudagsins 19. mars. Frá þessu er greint á vef Kringvarp Føroya. Bændurnir fóru ekki erindisleysu til höfuðborgarinnar, en þegar þingfundi lauk um kvöldið var búið að leggja til breytingar á frumvarpinu.
Erhard Joensen, formaður atvinnuveganefndarinnar, tjáir fjölmiðlum að lagafrumvarpið verði tekið til ítarlegrar endurskoðunar áður en það verði sent til næstu umræðu.