Samvinna franskra Limousine-ræktenda
Franskir Limousine-ræktendur hafa allt frá árinu 1986 á ýmsan hátt unnið saman að því að bæta nautgripahjarðir sínar.
Bændurnir telja að sameinaðir kraftar við að þróa og kynna Limousine-kynið efli hag þeirra sem nautakjötsframleiðendur verulega.
Í Farmers Weekly segir frá því að Limousine-samtökin Le Pôle de Lanaud, sem er grein af þessum meiði, hafi verið sett á stofn 1991. Miðstöð samtakanna er á sveitabæ rétt utan við Limoges. Markmiðið er að sameina alla hlekkina í keðju kynbóta og eru samtökin stofnuð og rekin af ræktendum einvörðungu. Starfið felst í að halda sérstaka Limousine-ættbók sem vottar hreinræktaða Limousine- nautgripi fyrir kynbótaræktun. Annar þáttur er að selja kynbótanautgripi, sæði og fósturvísa í Frakklandi og á alþjóðavettvangi.
Umfangsmiklar athuganir
Á Station de Lanaud eru nautkálfar valdir frá aðildarbúum, þeir metnir og settir á sölulista. Ingenomix-erfðafræðifyrirtækið, sem er sprotafyrirtæki á vegum ræktendanna, framkvæmir prófanir til að spá fyrir um erfðafræðilega eiginleika nautgripanna.
Hátt í þúsund nautkálfar eru árlega valdir úr ættbók og af þeim fara 500 bestu í sölu. Samanlagt eiga bændurnir sem taka þátt, um 1.500 talsins, í kringum 100.000 ættbókarfærða gripi, eða um einn tíunda hluta af heildar-Limousine- hjörð Frakklands.
Á annan tug sérfræðinga Le Pôle de Lanaud starfar með þátttakendum víðs vegar um Frakkland. Þeir skrá kálfa, gera kynbótaáætlanir, velja kálfa fyrir prófun og aðstoða við að leita uppi bestu kvígurnar til að bæta ræktunina.
Um 2.400 kálfar eru skoðaðir á hverju ári, tæknimennirnir velja 700 af þeim og eru þeir sendir í Le Pôle de Lanaud til frekari rannsókna. Markmiðið með því að koma þeim öllum á einn stað er að þeir séu allir við sömu umhverfisaðstæður til að styrkja útkomu prófana, sem eru allt frá því að skoða skapgerð yfir í vöxt, vöðva og beinagrind.
Tíu bestu af 700 úrvalsnautum
Betri helmingurinn af hinum rannsökuðu nautum fær svo gæðastimpilinn Reproducteur jeune (RJ) og þau sem eftir eru kallast Espoit. Útbúin er söluskrá og hver færsla sýnir ættbók nautsins, ræktunargildi, foreldra og erfðafræðilegar upplýsingar. Verðmunur á RJ og Espoit er alla jafna um 2.500 evrur. RJ-nautin fara í svonefnda ættarhjörð eða eru seld til útflutnings, en Espoit-nautin er mest keypt af ræktendum í atvinnuskyni til að bæta hjarðir. Tölvubúnaður og öpp eru notuð til að gera þetta allt aðgengilegt.
Annað stig valferlisins er að 36 bestu nautin fara gegnum aðra prófunarstöð og þar er m.a. bætt við skoðun á skilvirkni fóðurs. Af þessum 36 eru þau 10 bestu svo notuð til sæðinga. Á bænum er jafnframt Limousine Park, landbúnaðartengd ferðaþjónusta með 100 sæta veitingastað sem kynnir kjötið og annað staðbundið hráefni. Í Le Pôle de Lanaud er fjórum sinnum á ári haldinn tveggja daga kynbótanautamarkaður, í janúar, mars, júní og nóvember
Limousine-tegundin er annað mesta mjólkurframleiðslukyn Frakklands.