Skógrækt í stað sauðfjárræktar
Nýsjálenskir bændur hverfa í auknum mæli frá sauðfjárrækt. Á sama tíma er uppgangur í skógrækt til framleiðslu kolefniseininga. Fjöldi sauðfjár á hvern Nýsjálending hefur ekki verið færri frá upphafi mælinga.
Í meira en öld hefur sauðfjárrækt verið undirstöðuatvinnuvegur Nýja-Sjálands og helsta einkenni landsins út á við. Um allt Nýja- Sjáland eru sífellt fleiri bújarðir að hverfa undir skógrækt, sem reynist ábatasöm vegna eftirspurnar eftir kolefniseiningum. Guardian greinir frá. Nýsjálensk stjórnvöld hafa skapað umhverfi fyrir viðskipti með kolefniseiningar og geta landeigendur haft góðar tekjur af framleiðslu þeirra.
Á sama tíma hefur verðið á ull fallið um helming á heimsmarkaði og sauðfjárbændur verða fyrir sífellt meiri efnahagslegum og pólitískum þrýstingi.
Fjárfestar kaupa jarðir
Ræktarland hefur hækkað þónokkuð í verði eftir uppgang kolefnismarkaða. Frá árinu 2017 hafa 175.000 hektarar af landbúnaðarlandi, sem áður var nýtt til sauðfjár- og nautgriparæktar, verið selt til aðila sem leggja stund á skógrækt. Fjörutíu prósent landsins var keypt af erlendum fjárfestum sem hyggjast græða á framleiðslu kolefniseininga.
Samkvæmt tölum sem birtar voru í vor, taldi nýsjálenski sauðfjárstofninn 25,3 milljónir áa í júní 2022. Það er fækkun um 2%, eða 400 þúsund frá árinu áður – sem er meira en allt sauðfé á Íslandi. Fjöldi sauðfjár náði hámarki árið 1980, þegar 70 milljón kindur voru í landinu.
Þá voru 22 kindur fyrir hvern Nýsjálending, á meðan hlutfallið í dag eru fimm kindur á hvern íbúa, en Nýsjálendingar eru 5,15 milljónir talsins. Hlutfallið hefur ekki verið lægra í 170 ár. Til samanburðar, þá er fleira sauðfé í Ástralíu, en þar er hlutfall kinda á hvern einstakling þrjár ær.
Rúningur dýrari en ullin
Nú er kostnaður við rúning meiri en verðið sem fæst fyrir ullina. Enn fremur verða bændur fyrir sífellt meiri gagnrýni vegna áhrifa búskaparins á umhverfið. Uppgangur skógræktar hefur reynst ábatasöm leið fyrir bændur til að losna úr sauðfjárrækt. Skógrækt er eitt helsta verkfæri nýsjálenskra stjórnvalda í átt að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Á sama tíma er meira en helmingur losunar Nýja- Sjálands frá landbúnaði – aðallega metan frá jórturdýrum. Talið er að Nýja-Sjáland geti ekki náð tilætluðu kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 án þess að ráðast í ákafa skógrækt.
Skógrækin gagnrýnd
Skógræktinni hefur ekki verið tekið gagnrýnilaust og hefur almenningsálit versnað á síðustu misserum. Í vor var bent á að ef Nýsjálendingar reiða sig um of á skógrækt, verði nær ómögulegt að viðhalda samdrætti í losun til langs tíma. Enn fremur skók öflugur fellibylur landið í vetur og hlaust mikið tjón af braki sem fauk frá skógræktarsvæðum. Stjórnvöld tilkynntu í síðasta mánuði að þau myndu taka til endurskoðunar hversu stórt hlutverk ræktun furutrjáa spilar á nýsjálenska kolefnismarkaðnum.
Skógrækt hefur reynst mörgum bændum fjárhagsleg lyftistöng, en samfélagslegur kostnaður hefur verið mikill. Dreifbýlissamfélög hafa byrjað að leysast upp þar sem atvinna af skógrækt er takmörkuð, nema rétt á meðan trjánum er plantað. Verslanir, skólar og aðrir innviðir dreifðari byggða bera sig ekki, sem hefur leitt til frekari keðjuverkunar og fólksflótta úr sveitum.
Umhverfissinnar hafa bent á að umhverfisávinningurinn sé umdeilanlegur þegar ræktaðir eru skógar með mónókúltúr. Geislafura, sem er helsta trjátegundin í skógrækt Nýsjálendinga, er innflutt tegund sem vex mjög hratt og getur spillt upprunalegu vistkerfi.