Skortur á grænmeti
Skortur er víða á grænmeti og ávöxtum í verslunum á Bretlandseyjum, dagamunur er á framboði þess og verð hefur hækkað.
Neytendur á Bretlandseyjum sem vanir eru góðu úrvali í verslunum segja að framboð á fersku grænmeti hafi dregist saman undanfarið, gæði þess hafi minnkað og verð hækkað. Í breskum fjölmiðlum kemur fram að suma daga sé í boði spergilkál og púrra en engir tómatar né salat og daginn eftir snúist dæmið við og stundum séu grænmetishillur verslana tómar.
Talsmenn verslunarinnar segja sitt á hvað að ástæða skorts á grænmeti stafi af völdum slæms árferðis þar sem grænmetið er ræktað en aðrir segja útgöngu Breta úr Evrópusambandinu hafa dregið úr vöruúrvali og hækkað verð. Verslanir hafa einnig gripið til skömmtunar með því að takmarka það magn af grænmeti sem fólk og veitingahús mega kaupa.
Borðið rófur
Í svari umhverfis- og matvælaráðherra Breta, Thérèse Coffey, vegna málsins, sagði hún mikilvægt að landar hennar bregðist við skortinum með því að borða meira af innlendu grænmeti eins og rófum í stað þess að reiða sig á innflutning.
Ráðamenn hafa einnig sagt að skorturinn sé tímabundinn þrátt fyrir vísbendingar um að málið sé mun alvarlegra en þeir vilja viðurkenna.
Bent hefur verið á að skorturinn sé svipaður og var í upphafi Covid og að mest vöntun sé á grænmeti sem einungis er hægt að rækta á Bretlandseyjum í gróðurhúsum yfir köldustu mánuði ársins.
Allt að 70% minni uppskera
Tölur um ræktun grænmetis og ávaxta á Spáni og í Marokkó, þaðan sem Breta flytja mikið inn, sýna að kalt veður hefur dregið úr uppskeru á papriku, salati og agúrkum um allt að 70%. Einnig hefur verið bent á að á síðustu áratugum hafi Bretar vanist því að geta fengið ferskt grænmeti og ávexti árið um kring og að ólíkt því sem áður var séu þeir ekki lengur sjálfbærir með framleiðslu og treysti því mikið á innflutning.
Til skamms tíma hafa Bretar getað flutt inn ódýrt grænmeti, til dæmis tómata, sem þó er hægt að rækta innanlands. En vegna lágs verðs á innfluttum vörum hefur dregið verulega úr innanlandsframleiðslu.
Auk þess hefur orkukostnaður rokið upp sem gerir breskum bændum enn erfiðar fyrir og dregur enn frekar úr framleiðslu innanlands. Það verð sem verslunin er reiðubúin að greiða fyrir vörur dugar ekki fyrir framleiðslukostnaði.
Talað fyrir daufum eyrum stjórnvalda
Bændur hafa lengi talað fyrir daufum eyrum stjórnvalda þegar þeir hafa varað við að núverandi staða gæti komið upp ef treyst væri of mikið á innflutning matvæla. Launakostnaður í landbúnaði á Bretlandseyjum hefur hækkað eftir úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, meðal annars vegna þess að áður gátu bændur þar reitt sig á erlenda farandverkamenn sem leituðu til landsins og voru viljugir til að vinna fyrir lág laun.
Bresku bændasamtökin segja að vegna þessa nái bændur oft ekki uppskeru sinni í hús áður en hún skemmist og milljónir tonna af grænmeti og ávöxtum rotni úti á ökrum. Á sama tíma hefur kostnaður vegna útflutnings landa í Evrópusambandinu til Bretlandseyja hækkað eftir úrsögn þeirra úr sambandinu.
Stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að styðja ekki við innlenda matvælaframleiðslu með því að styrkja bændur í viðleitni þeirra til að fara út í aðgerðir til að lækka kostnað við framleiðsluna.
Ekki síst í ljósi þess að Bretland er eyja og í dag háð meginlandi Evrópu með matvæli og að ekki er talið að draga muni úr þeirri þörf á næstu misserum.
Til að draga úr skortinum er því nauðsynlegt að auka innlenda framleiðslu og greiða framleiðendum verð sem standi undir kostnaði.