Stjórnvöld vilja uppræta vínekrur
Stjórnvöld í Frakklandi vilja verja 120 milljónum evra til að rífa upp vínvið af allt að þrjátíu þúsund hekturum lands. Ástæðan er offramboð.
Í Frakklandi eru um átta hundrað þúsund hektarar af vínekrum. Franska landbúnaðarráðuneytið áformar nú að borga bændum, einkum í Bordeaux-héraði, fyrir að uppræta hluta vínviðar síns til að draga saman framboð á þrúgum til víngerðar.
Alþjóðleg vínframleiðsla var rúmlega 10% meiri en eftirspurn árið 2023 samkvæmt tölum frá Alþjóðlegu vínstofnuninni (OIV) og vilja frönsk stjórnvöld hemja offramboð. Er talið að verkefnið muni kosta um 120 milljónir evra og markmiðið að koma í veg fyrir framleiðslu vínþrúgna af um 30 þúsund hekturum lands. Franska víntímaritið Decanter greinir frá.
Fá 600 þúsund á hektara
Til stendur að uppræta hátt í níu prósent af vínekrum Bordeaux- héraðsins. Bændur gætu fengið allt að fjögur þúsund evrur, um 600 þúsund kr., á hektara fyrir að heimila stjórnvöldum að uppræta vínvið. Jafnframt þyrftu þeir að undirgangast bann við gróðursetningu vínviðar á landi sínu fram til ársins 2029. Offramboð hefur lækkað verð á vínum og hefur áhrif á afkomu vínbændanna. Sömuleiðis hefur orðið markaðskreppa m.a. vegna innrásarstríðs Rússa í Úkraínu.
Vínneysla fer minnkandi
Vínneysla er að breytast víða um heim. T.d. dróst vínsala í frönskum matvöruverslunum saman um 5 prósent milli ára og er einkum um að ræða rauðvín og rósavín. Meðal-Frakkinn neytti á árum áður að meðaltali 120 lítra víns á ári en það magn er nú komið niður í 40 lítra. Franskur vínútflutningur dróst saman um 9,4 prósent á síðasta ári og hefur ekki verið minni síðan árið 2007.