Úkraínskur kjúklingur kaffærir innlendan
Pólsk bændasamtök vara við því að mikill innflutningur ódýrs kjúklingakjöts og eggja frá Úkraínu beri innlenda framleiðslu ofurliði.
Fyrir skemmstu fór að bera á andstöðu pólskra bænda við mikinn innflutning á úkraínskum kornvörum, eftir að tollar á innflutningi voru felldir niður í kjölfar innrásar Rússa.
Nú hefur það sama gerst með afurðir eggja- og kjúklingabænda með þeim afleiðingum að afurðaverð hefur hrunið. Poultry World greinir frá.
Framleiðslukostnaður lægri
Áætlað er að framleiðslukostnaður á eggjum og kjúkling í Úkraínu sé 25 prósent lægri en í Póllandi. Lækkað afurðaverð hefur leitt til að pólskir bændur eiga erfitt með að láta enda ná saman. Nokkrir hafa brugðið til þess ráðs að blanda kjúklingafóður heima á bæ, en varað hefur verið við að það geti minnkað framleiðslu. Fulltrúar bænda hafa sent pólska landbúnaðarráðuneytinu beiðni um að taka málið til umræðu á vettvangi Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Vilja setja framleiðslukröfur
Pólskir kjúklingaframleiðendur hafa bent á að eina leiðin til að breyta núverandi ástandi sé að framlengja ekki niðurfellingu tolla á innflutningi frá Úkraínu til Evrópusambandsins. Engu breyti ef Pólland eitt og sér taki aftur upp innflutningshömlur, ef úkraínskur varningur kemst óheftur til annarra landa ESB. Innflutningurinn hefur áhrif á markað allra sambandsríkjanna.
Kallað hefur verið eftir að auknar kröfur verði settar á framleiðslu þess kjöts sem flutt er inn, til að jafna stöðu bænda.
Bændurnir bæta við að enginn neiti því að þörf sé á að leggja Úkraínu lið, en nauðsynlegt sé að finna flöt sem kippir ekki stoðunum undan innlendri landbúnaðarframleiðslu.