Umbreyting matvælakerfa
ESB hleypti nýverið af stokkunum áætluninni Snjöll matvæli (Cleverfood) sem er ætlað að umbreyta evrópskum matvælakerfum til hagsbóta fyrir loftslag, sjálfbærni, líffræðilega fjölbreytni og lýðheilsu.
Markmiðið með þessu yfirgripsmikla verkefni er að vekja Evrópubúa innan ESB, unga sem aldna í öllum þjóðfélagshópum, til aukinnar neytendavitundar og fá þá til að beita sér í ríkara mæli á þeim vettvangi, stórauka samlegðaráhrif og samvinnu innan ríkja ESB í öllu er lýtur að matvælum og efla lagasetningu og hagsmunagæslu hvað þetta varðar. Kaupmannahafnarháskóli leiðir Snjöll matvæli og er kostnaðaráætlun við áætlunina um 8,1 milljón evra, eða ríflega 1.200 milljónir íslenskra króna.
Til að umbreyting náist er talið nauðsynlegt að breyta bæði löggjöf og meðvitund neytenda gagnvart hollum og sjálfbærum matvælum, sérstaklega úr jurtaríkinu, auk þess að efla samvinnu á m.a. matvælamarkaði og í matvælarannsóknum. Áætlað er að koma upp nýsköpunarhröðlum í tækni og samfélagi. Eiga þeir að ryðja úr vegi ýmsum hindrunum sem standi þeim sem koma að matvælakerfum Evrópu fyrir þrifum og hindri mögulega meðal annars bændur og frumkvöðla í matvælaframleiðslu í að tileinka sér nýja tækni og starfshætti. Kallað verður eftir samvinnu ríkisstofnana, háskóla, atvinnugreina, samtaka og hagsmunahópa innan ESB-ríkjanna. Verkefnið tengist matvælastefnu ESB til ársins 2030 og fleiri stefnumarkandi aðgerðaáætlunum.
Matvælakerfi Evrópu eru talin valda allt að þriðjungi losunar gróðurhúsalofttegunda í álfunni og brýnt að snúa þeirri þróun við. „Núverandi- og framtíðarkreppur, þar á meðal loftslagskreppa, matarkreppa, kreppa líffræðilegs fjölbreytileika og heilsukreppa, eru órjúfanlega tengdar því hvernig við framleiðum matvæli,“ segir Christian Bugge Henriksen, dósent við plöntu- og umhverfisvísindadeild Kaupmanna- hafnarháskóla í frétt á vef háskólans. „Þannig er kominn tími til að gera róttækar breytingar, þar sem öll ESB- ríki gera samstillt átak til að umbreyta matvælakerfi okkar með því að gera það sanngjarnara, sjálfbærara, hringlaga og plöntumiðað,“ segir Christian. Hann mun næstu fjögur árin stýra Cleverfood ásamt teymi úr loftslags- og fæðuöryggishóp við plöntu- og umhverfisvísindadeild háskólans.