Viðkvæmari fyrir útihita
Hér áður fyrr var talað um að besti umhverfishiti kúa séu 5-10 gráður og að þeim líði þó ágætlega frá -15 og upp í +25 gráður.
Þessar tölur byggja þó á gömlum rannsóknum og í dag er margt sem bendir til að kjörhitastig umhverfis fyrir kýr hafi lækkað þó nokkuð. Þetta kemur til af því að hver kýr framleiðir í dag miklu meiri mjólk en fyrir nokkrum áratugum og fyrir vikið er hitaframleiðsla þeirra sjálfra mun meiri í dag vegna gerjunar fóðurs í vömb. Hitaorka frá vömb er nánast hrein umframorka sem kýr þurfa að losna við og því meiri sem umhverfishiti kúa er, því erfiðara er fyrir kýrnar að losna við þennan hita. Í ofanálag skiptir rakastigið einnig máli, því með hækkandi rakastigi verður enn erfiðara fyrir kýrnar að losna við þessa orku.
Sænsk rannsókn á áhrifum umhverfishita á hámjólka kýr, þ.e. kýr sem innbyrða mikið magn fóðurs, sýnir að þegar við 15 gráðu umhverfishita fara að sjást áhrif á kýrnar með því að þær draga úr áti og við 20 gráðu hita eru áhrifin mjög skýr.
Í dag er algengast að miðað sé við 20 gráðu umhverfishita þegar byrja ætti að bjóða kúm upp á kælingu og skugga, þ.e. þær ættu að hafa tryggt aðgengi að skugga svo sólin nái ekki að skína beint á þær. Þetta er ein meginástæða þess að fleiri og fleiri kúabú í norðurhluta Evrópu eru farin að setja upp kælikerfi í fjósunum, þ.e. setja upp viftur sem sjá um að blása á kýrnar og gera nærumhverfi þeirra ákjósanlegt – rétt eins og fólk gerir í hita með blævæng, nú eða viftum.