Útbreiðsla og þéttleiki uppsjávarfiska mæld
Rannsóknaskipið Árni Friðriksson kom í höfn fyrir skömmu eftir að hafa lokið þátttöku í árlegum uppsjávarvistkerfisleiðangri í Norðurhöfum að sumarlagi. Í leiðangrinum var farið í kringum landið og teknar 64 togstöðvar. Auk þess voru gerðar sjómælingar og teknir átuháfar.
Í leiðangrinum var rannsökuð útbreiðsla og þéttleiki makríls, síldar og kolmunna í íslenskri landhelgi að undanskildum suðausturhluta hennar sem Færeyingar og Norðmenn rannsökuðu. Samkvæmt því sem segir á vef Hafrannsóknastofnunar sýna bráðabirgðaniðurstöður að magn makríls í íslenskri landhelgi er meira en sumarið 2020 en mun minna en áratuginn þar á undan. Makríll hefur áberandi meiri útbreiðslu fyrir austan landið en sumarið 2020 en þéttleikinn er lítill.
Líkt og undanfarin ár veiddist norsk-íslensk vorgotssíld á flestum togstöðvum fyrir norðan og austan landið og íslensk sumargotssíld veiddist á landgrunninu fyrir sunnan og vestan landið.
0-ára kolmunni veiddist við landgrunnsbrúnina fyrir sunnan og vestan landið sem gerðist síðast í þessum leiðangri sumarið 2011. Lítið mældist af kynþroska kolmunna.
Hrognkelsi voru með mesta útbreiðslu allra tegunda og veiddust á 59 af 64 stöðum. Í leiðangrinum voru merkt alls 451 hrognkelsi.
Gögn frá skipunum fimm sem taka þátt í leiðangrinum verða tekin saman og greind fljótlega og niðurstöður þeirrar vinnu kynntar í lok ágúst. /VH