Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hrútar frá Bergsstöðum. Bændurnir í Miðfirði eiga í viðræðum við stjórnvöld um bætur vegna niðurskurðar á um 1.400 fjár.
Hrútar frá Bergsstöðum. Bændurnir í Miðfirði eiga í viðræðum við stjórnvöld um bætur vegna niðurskurðar á um 1.400 fjár.
Fréttir 25. maí 2023

Vantar hvata til að halda áfram

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Bændur á bæjunum Bergsstöðum og Syðri-Urriðaá í Miðfirði standa
nú í samningaviðræðum við ríkið um bætur í kjölfar niðurskurðar
vegna riðutilfella sem greindust í þeirra hjörðum. Samstarf er meðal
bændanna og njóta þeir liðsinnis lögfræðinga Bændasamtaka Íslands í
þeirri viðleitni að ná fram sanngjörnum bótum. Þeir telja reglugerðina
úrelta enda geri hún hvorki ráð fyrir að tjón sé að fullu bætt né að stofn sé byggður upp að nýju.

Elín Anna Skúladóttir og Ari G. Guðmundsson á Bergsstöðum.

Elín Anna Skúladóttir á Bergsstöðum bendir á að reglugerðin, sem gerir ráð fyrir bótagreiðslum í kjölfar niðurskurðar vegna riðu, sé frá árinu 2001 og þar sé eitt og annað sem þurfi að uppfæra.

„Til dæmis má nefna að fyrir­komulag á ullargreiðslum til bænda er nú tvískipt, annar hlutinn er frá Ístex en hinn hlutinn frá ríkinu. Þegar reglugerðin var samin þá var bara gert ráð fyrir greiðslum frá ríkinu þannig að við yrðum til dæmis af þessum ullargreiðslum fyrir afurðir okkar sem lagðar voru inn til Ístex og það er ekki í samræmi við reglugerðina þar sem lagt er upp með að bændur skuli ekki verða fyrir afurðatjóni,“ segir Elín.

Ekki gert ráð fyrir greiðslum vegna uppbyggingar

„Síðan er það hitt að bústofninn er bara tekinn og okkur gert tilboð í hann vegna bótagreiðslna – en svo er ekki gert ráð fyrir sérstökum bótum fyrir kaupum á líflömbum til uppbyggingar á nýjum stofni. Bætur vegna niðurskurðar virðast eiga að duga fyrir þeim en til dæmis í okkar tilviki þá vorum við með um 700 kindur og til að geta byrjað að nýju með sambærilegan fjárstofn þá þyrftum við að taka að láni um 15 milljónir miðað við verð á lífgimbur í dag og þann fjárfjölda sem við vorum með, sem verður mun hærra eftir tvö ár þegar og ef við getum hafið búskap að nýju. Eðlilegast væri að við fengjum það fjármagn sem kostaði okkur að kaupa nýjan fjárstofn í stað þess gamla.

Hvar er svo allt talið um fæðuöryggi hjá ráðamönnum þjóðarinnar? Núna virðist stefna í kjötskort í landinu, það er bara allt önnur staða en hefur verið síðustu 10­30 ár.

Núna vantar kjöt á markaðinn og fyrir okkur er enginn hvati til að taka fé aftur og alveg galið að þurfa að taka lán til að kaupa sér nýjan bústofn, að það dugi engan veginn bústofnsbæturnar fyrir nýjum fjárstofni,“ segir Elín

Engin vinnulaun greidd vegna hreinsunar

Elín segi það líka umhugsunarvert að þó allur efniskostnaður sé bættur þá er ekki borguð króna vegna vinnu við niðurrif, uppbyggingu og þrif.

„Við erum svo sem ekki bjartsýn, reglurnar eru mjög skýrar á meðan reglugerðinni er ekki breytt, gera bara ráð fyrir lágmarksbótum sem eru í raun bara starfslokasamningur eins og við sjáum þetta,“ segir Elín.

Gáfu smituðu gimbrina yfir á Syðri-Urriðaá

Hún segist ekki vita enn hvort þau muni taka aftur til sín fé eftir fjárleysisárin. „Það fer eftir því hvernig allt saman þróast og samningar verða við ráðuneytið. Við erum búin að mæta á einn fund með þeim ásamt nágrönnum okkar á Syðri-Urriðaá og þar fengum við fínar viðtökur og áttum gott spjall. Okkur er málið skylt því við gáfum þessa einu gimbur sem hefur reynst smituð á Syðri-­Urriðaá – þannig að þetta er virkilegur harmleikur fyrir okkur og við myndum alls ekki vilja missa þau héðan úr sveitinni.“

Ólafur Rúnar Ólafsson og Dagbjört Diljá Einþórsdóttir búa á Syðri-Urriðaá.

Líklega ekki mögulegt að byrja aftur

Ólafur Rúnar Ólafsson á Syðri­ Urriðaá tekur undir með Elínu að bæturnar sem í boði eru séu eins konar starfslokasamningur við ríkið. „Það vantar allan hvata fyrir bændur til að halda þessu áfram, almennilegan stuðning til að byggja upp að nýju og nokkra aðra þætti sem lenda á okkur.

Eins og staðan er núna þá lítur ekki út fyrir að við getum byrjað aftur fjárhagslega, þegar okkur verður leyft það. Við erum með okkar skuldir og miðað við þær bætur sem standa okkur til boða þá er það bara líklega ekki hægt. Það er talað um það í reglugerð að bændur skuli fá fullar bætur en það virðist í það minnsta í okkar tilfellum að það sé fjarri lagi.

Á fundinum var svo sem hlustað á okkur og okkar viðhorf en við höfum ekki fengið nein viðbrögð,“ segir Ólafur.

Hátt verð fyrir verndandi arfgerð

Ólafur segir að kostnaðurinn við að taka hrúta með verndandi arfgerðina ARR yrði mjög hár. „Við myndum auðvitað reyna að taka ARR­hrúta ef við færum í fjárskipti eftir tvö ár og mér skilst að verðið á slíkum hrútum sé í hæstu hæðum enda mjög eftirsóttir – þannig að það er ekki einu sinni víst að þeir muni liggja á lausu næstu árin.

Ef við þurfum að kaupa líflömb aftur þá yrði það mjög kostnaðarsamt, mér skilst að meðalverð fyrir lífgimbur sé á bilinu 30­35 þúsund – og við erum ekkert að fá bætur sem geta staðið straum af slíkum kaupum. Við fáum þennan bústofnsstyrk vegna niðurskurðarins, sem er hugsaður til uppbyggingar á nýjum stofni eftir tvö ár. Kannski erum við svona barnaleg að vilja bætur fyrir féð sem er farið, óháð því hvort við tökum fé eða ekki. Það sem er furðulegt í þessu er að bændur fá þessar bústofnsbætur hvort sem þeir taka fé eða ekki. Þannig er verið að hvetja og verðlauna okkur að taka ekki fé aftur en ef við byrjum aftur þá fara allar bústofnbæturnar upp í kostnað á nýju fé sem eru samt fjarri lagi að duga til.

Maður vill nú helst tjá sig sem minnst um þessi mál – við erum í raun enn að jafna okkur eftir þetta mikla áfall,“ segir Ólafur.

Úr fjárhúsunum á Bergsstöðum. Elín segir að bætur vegna niðurskurðar eigi að duga þeim fyrir nýjum fjárstofni en í þeirra tilviki muni þær hrökkva skammt.

Útreikningum og samningum ólokið

Í svari frá matvælaráðuneytinu, við fyrirspurn um fyrirkomulag bótagreiðslna til Miðfjarðarbænda, kemur fram að ekki liggi enn fyrir hver muni verða heildarupphæð bóta vegna niðurskurðar þar. Uppmælingar og útreikningar standi enn yfir og samningum við ábúendur þar af leiðandi ekki lokið.

Bætur séu reiknaðar út frá þeim forsendum sem skilgreindar eru í reglugerð sem fjalli um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar. Auk bóta vegna niðurskurðar og afurðatjónsbóta, sé einnig greiddur efniskostnaður vegna þrifa og endurnýjunar. Í svari ráðuneytisins kemur fram að sá kostnaður liggi ekki fyrir að svo stöddu.

Skylt efni: riða | riða í sauðfé

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...