Verð skinna mjög lágt
Í september fór fram uppboð á minkaskinnum hjá Saga Furs í Finnlandi. Meðalverðið var langt undir framleiðslukostnaði.
Einar Eðvald Einarsson, minkabóndi á Syðra-Skörðugili, segir það jákvæða við uppboðið að liðlega nítíu prósent skinnanna seldust, sem sé meira en í fyrra. Meðalverð íslenskra skinna á árinu voru tæpar fjögur þúsund krónur á meðan framleiðslukostnaðurinn er á bilinu sjö til átta þúsund krónur. Þetta var síðasta uppboð ársins.
Áföll greinarinnar hafa verið stór undanfarin ár. Fyrst féll skinnaverðið árið 2016 í kjölfar mikillar offramleiðslu árið á undan. Covid-faraldurinn lokaði síðan á stærstu markaðina í Asíu. Einar segir þrengingar greinarinnar yfirleitt ekki hafa varað nema í þrjú til fjögur ár. Núna hafi minkabændur farið í gegnum átta ára samdráttarskeið, sem sé einsdæmi.
Íslenskir minkabændur hafa í gegnum tíðina selt sín skinn á uppboði í Kaupmannahöfn. Eftir hrun greinarinnar í Danmörku hafi þeir fært sig til Saga Furs í Helsinki í Finnlandi. „Ég er ekki bjartsýnn á framtíðina, en auðvitað vonar maður að einhverjir standi þetta af sér,“ segir Einar. Árið 2015 hafi verið 32 starfandi minkabú á landinu, á meðan þau séu átta í dag.