Verknámsstörf á Reykjum
Garðyrkjunámið á Reykjum felst í bæði bóklegum og verklegum tímum, til að auka færni nemenda. Í síðustu viku var ein af þremur verknámslotum vorannar. Þá er lögð sérstök áhersla á verklega þáttinn þar sem nemendur fást við ólík viðfangsefni sem tengjast öllum námsbrautum.
Bæði staðnemar og fjarnemar hittast í verknámslotunum og þá er alltaf mikið líf og fjör. Kennarar skipuleggja verkefni sem nemendur sinna, farið er í heimsóknir til garðyrkjubænda sem taka alltaf vel á móti nemendahópum. Önnur fyrirtæki sem tengjast garðyrkjufögum á einn eða annan hátt eru líka heimsótt. Vettvangsferðir af því tagi eru mikilvægur þáttur skólastarfsins því þær auka þekkingu nemenda á daglegum störfum í ólíkum greinum garðyrkjunnar.
Verknámsaðstaðan notuð til hins ítrasta
Þessa annasömu daga höfðu nemendur á Blómaskreytingabrautinni tekið anddyri skólans í gegn. Þar var hægt að sjá heimaverkefni nemenda og sameiginlega vinnu. Efniviðurinn var framleiðsla íslenskra blómabænda, íslenskur villigróður og blóm og greinar úr gróðurhúsum á Reykjum, meðal annars úr hinu merkilega Bananahúsi. Blómaskreytinganemar hafa náð ótrúlegri færni nú á miðjum námstímanum. Aðrir nemendur unnu sín verkefni. Skrúðgarðyrkjunemar unnu hörðum höndum í verknámshúsinu að æfingum við mælingar og undirbúning fyrir hleðslur og hellulagnir. Lögðu þeir til dæmis fyrstu hellulögnina í nýendurbyggðum gróðurskála sem er nokkurs konar Miðgarður skólahússins og hefur verið notaður við alls konar samkomur í gegnum tíðina, þar er efst í huga afmælishátíð skólans Sumardaginn fyrsta, sem ekki verður unnt að halda með sama myndarbrag nú í vor og venjan er. Við skólann er starfrækt öflugt nemendafélag sem mun örugglega minna vel á sig um það leyti.
Ylrækt og braut um lífræna ræktun
Ylræktarnemar höfðu í nógu að snúast, þeir sinntu umhirðu matjurta og lögðu út sniglagildrur, hirtu illgresi, vökvuðu og sáðu miklu magni af matjurtafræi í beð sem þeir höfðu útbúið og munu uppskera í næsta mánuði. Nemar á lífrænu brautinni huguðu að jarðgerðaraðferðum. Þeir hafa sett upp nokkrar mismunandi leiðir til að jarðgera úrgang úr gróðurhúsum og mötuneyti ásamt trjákurli og hálmi. Koltvísýringur er notaður í ylrækt sem loftkenndur áburður og komust nemendur að því með nákvæmum mælingum að með því að stunda jarðgerðina inni í gróðurhúsinu jókst styrkur hans þar verulega, án nokkurs kostnaðarauka en plöntunum til gagns.
Útivera og gestafyrirlestrar
Nemendur garð- og skógarplöntubrautar fóru í skoðunarferðir um land Reykja, mældu hæðarvöxt elstu grenitrjánna sem voru gróðursett á Reykjum um 1950, reyndu sig við greiningu trjá- og runnategunda og tóku þátt í skemmtilegu ágræðslunámskeiði í gróðrarstöð skólans. Nemendur í skógtækni fóru í rannsóknarferðir í valda trjáreiti á Reykjatorfunni og í sunnlenska skóga, t.d. í Haukadalsskóg og Hellisskóg. Gestkvæmt var á Reykjum þessa daga. Starfsfólk gróðrarstöðvarinnar snerist í kringum nemendur og aðstoðaði og leiðbeindi eftir þörfum. Gestakennarar heimsóttu nemendur og fræddu þá um sín sérsvið. Margir sóttu skólann heim til að kynna sér hjarta íslenskrar garðyrkju og velta vöngum yfir framtíð Garðyrkjuskólans á Reykjum.
Endurmenntunarnámskeið fyrir almenning og garðyrkjubændur
Endurmenntunardeild LbhÍ skipuleggur námskeið fyrir almenning síðla vetrar og á vorin og þá eru helgarnar á Reykjum vel nýttar. Dæmi um garðyrkjutengd námskeið eru jarðgerð og umhirða safnhauga, trjá- og runnaklippingar, berjaræktun, ræktun grænmetis í óupphituðum garðgróðurhúsum, pottaplönturæktun og fjölbreytt fræðsla í blómaskreytingum.
Skólinn iðaði af lífi þessa viku og í öllum hornum voru nemendur að störfum. Samvera er mikilvægur hluti af lotuvikunum þar sem nemendur stinga saman nefjum, að svo miklu leyti sem grímunotkun gefur kost á. Dýrindis síðdegiskökuveisla að hætti Gurrýjar var haldin einn daginn þar sem sóttvarna var þó gætt til hins ítrasta og fleiri samverustundir tengdu nemendur og starfsfólk saman.