Vernd landbúnaðarlands í landsskipulagi
Drög að hvítbók um skipulagsmál liggur í Samráðsgátt stjórnvalda, en frestur til umsagnar rann út 31. október.
Hvítbókin verður grunnur að þingsályktunartillögu um nýja landsskipulagsstefnu til 15 ára, með fimm ára aðgerðaráætlun, þar sem meðal annars verður kveðið á um vernd landbúnaðarlands. Í kaflanum Markmið um samkeppnishæft atvinnulíf er undir einum liðnum sérstaklega fjallað um áherslur í skipulagi hvað varðar landbúnaðarland í dreifbýli og þéttbýli. Þar er kveðið á um að skipulag eigi að stuðla að möguleikum á fjölbreyttri og hagkvæmri nýtingu landbúnaðarlands í sátt við umhverfið og stuðli að auknu fæðuöryggi þjóðarinnar.
Gert er ráð fyrir að við skipulagsgerð í dreifbýli verði land sem hentar vel til ræktunar matvæla almennt ekki ráðstafað til annarra nota með óafturkræfum hætti.
Skipulagsákvarðanir um ráðstöfun lands til landbúnaðar og annarrar nýtingar munu byggjast á flokkun landbúnaðarlands með tilliti til ræktunarskilyrða, auk landslagsgreiningar og vistgerðaflokkunar. Ákvarðanir um uppskiptingu lands munu byggjast á skipulagsáætlunum. Áhersla er á að stefna í skipulagsáætlunum um ræktun stuðli að framleiðslu afurða með lítið kolefnisspor, svo sem innlendri grænmetisframleiðslu.
Þá verður í skipulagi dreifbýlis stutt við fjölbreytta nýtingu landbúnaðarlands, svo sem í tengslum við nýsköpun og ferðaþjónustu. Gert er ráð fyrir að við skipulagsgerð í þéttbýli verði vaxtarmörk þess skilgreind, meðal annars með það fyrir augum að standa vörð um verðmætt landbúnaðarland. Í skipulagi verði hugað að tækifærum til aukinnar ræktunar matvæla í þéttbýli.