Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Um 600 manns mættu á opinn borgararfund í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði sunnudaginn 24. september þar sem fjallað var um brýn hagsmunamál íbúa á Vestfjörðum undir kjörorðunum Fólk í fyrirrúmi.
Um 600 manns mættu á opinn borgararfund í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði sunnudaginn 24. september þar sem fjallað var um brýn hagsmunamál íbúa á Vestfjörðum undir kjörorðunum Fólk í fyrirrúmi.
Mynd / Haukur Már Harðarson
Fréttir 18. október 2017

Vestfirðingar vilja laxeldi í Djúpinu, veg um Teigsskóg og hringtengingu rafmagns

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Fjölmennur íbúafundur var haldinn á Ísafirði sunnudaginn 24. september um mikil hitamál er varða laxeldi, samgöngur og raforkuframleiðslu í fjórðungnum. Í ályktun, sem samþykkt var einróma á fundinum, var þess krafist að ráðist verði strax í vegagerð í Gufudalssveit, að raforkumál á Vestfjörðum verði færð í nútímabúning með hringtengingu Vestfjarða og að laxeldi verði áfram heimilað í Ísafjarðardjúpi.
 
Til fundarins kom Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarmálaráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Þá var Árna Finnssyni, formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands, einnig boðið til fundarins. Að loknum fjórum framsögum tóku fulltrúar sveitarfélaganna, ráðherrar, fulltrúi KPMG og formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands sæti í pallborði og svöruðu spurningum úr sal.
 
Samkvæmt greiningu KPMG sem kynnt var á fundinum yrðu áhrif af laxeldi í Djúpinu veruleg. Er þó bent á að forsendur í úttektinni séu háðar óvissu, m.a. um hvort laxeldi verði leyft í Djúpinu. Segja skýrsluhöfundar þó ljóst að um sé að ræða stórt tækifæri til atvinnuuppbyggingar og styrkingar samfélaga í byggðarlögunum við Ísafjarðardjúp. Helstu  niðurstöður eru:
 
  • Fjöldi beinna nýrra starfa er áætlaður um 260 og nái hámarki um áratug eftir að ákvörðun um að leyfa eldi yrði tekin. 
  • Fjöldi afleiddra starfa sem verða til á svæðinu verði um 150 á sama tíma. 
  • Íbúaþróun snúist við og áætluð fjölgun verði um 900 manns í sveitarfélögum við Djúp á sama tíma og bein störf ná hámarki. 
  • Heildarumfang 25 þúsund tonna fiskeldis og óbeinna áhrifa er talin skila um 23 milljörðum króna á ári við hámarksframleiðslu. 
  • Heildarumfang stangveiði á svæðinu og óbeinna áhrifa er metin um 220 milljónir króna á ári, eða um 1% af umfangi laxeldis. 
  • Ársgreiðslur til ríkissjóðs munu nema um 1 milljarði króna og um 250 milljónir króna renna til sveitarfélaga þegar framleiðsla er í hámarki og flest bein störf verða til. 
 
Vilja veg um Teigskóg, hringtengingu rafmagns og laxeldi í Djúpinu
 
Heimir Már Pétursson fréttamaður var fundarstjóri en á sjötta hundrað mættu á fundinn og voru umræður líflegar. Í pallborði að loknum ávörpum sátu bæjarstjórar sveitarfélaganna á Vestfjörðum fyrir svörum, sem og fjórir ráðherrar. Í fundarlok las Heimir Már upp ályktun fundarins við góðar undirtektir, en hún var svohljóðandi:
 
„Borgarafundur á Vestfjörðum 24. september 2017 vill að mat á samfélagslegum áhrifum verði í framtíðinni lagt til grundvallar stórframkvæmdum og lagasetningu þegar það á við. Jafnframt setur fundurinn fram eftirfarandi þrjár kröfur:
 
Ráðist verði strax í vegagerð í Gufudalssveit samkvæmt leið Þ-H (um Teigsskóg), vegna brýnna hagsmuna sveitarfélaganna, atvinnulífsins og íbúa.
 
Raforkumál á Vestfjörðum verði færð í nútímabúning með hringtengingu Vestfjarða um Ísafjarðardjúp, þannig að atvinnutækifærum fjölgi á Vestfjörðum.
 
Laxeldi verði áfram heimilað í Ísafjarðardjúpi og í því ljósi setji stjórnvöld fram, fyrir árslok, ákvæði um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir til að verja laxveiðiár í Ísafjarðardjúpi gegn hugsanlegri hættu á erfðablöndun.“
 
Engin sátt né samlyndi
í að skilgreina heimkynni fólks
sem friðland
 
Eiríkur Örn Norðdahl, rithöfundur, þýðandi og ljóðskáld, flutti tölu á borgarafundinum sem vakti mikla athygli. Hann sagði hvorki sátt né samlyndi í því fólgið að skilgreina heimkynni fólks sem friðland sem það megi ekki snerta, sem það megi ekki hafa lifibrauð sitt af – að byggðin verði að víkja fyrir óbyggðunum, því réttur óbyggðanna sé meiri. 
 
„Það er ekki ballans. Það er ofbeldi,“ sagði Eiríkur Örn í ræðu sinni sem hljóðar svo: 
„Maður lifir í náttúrunni. Það er ekki nóg með að sólarlögin sprengi hjörtun í elskendum, kyrrðin slái á æsing hugsjúkustu brjálæðinga og skáldin yrki allt sem skiptir máli til vatnsfallanna. Það er ekki heldur nóg með að náttúran færi okkur fæðu til að seðja hungrið, fisk úr ólgandi hafinu, krækling úr spegilsléttum firðinum, grænmeti og ávexti beinlínis upp úr jörðinni og kjöt af beinum skepnanna. Við sleppum nefnilega aldrei úr náttúrunni. Náttúran er óaðskiljanlegur hluti af okkur – við erum ekki utan við náttúruna, ekki utan á henni, heldur í henni. Við erum náttúran.
 
En maður lifir ekki bara í náttúrunni – maður deyr líka í náttúrunni. Hafið drekkir manni, fjöllin ryðjast yfir mann – þurrka út heilu byggðalögin – fellibyljir leggja samfélög í eyði, flóð sökkva borgum – og náttúran, mannleg náttúra, hefur oft og tíðum þær afleiðingar að við völdum hvert öðru, eða sjálfum okkur, óumræðanlegum skaða. Fólk drepur fólk og fólk drepur sjálft sig. Og lifi maður alla þá náttúru af – sem er tölfræðilega ósennilegt – svíkur mann loks bara líkaminn, náttúra holdsins, og maður hrynur niður og verður að eintómu dufti, jafn örugglega og ef hvað sem er annað hefði drepið mann.
 
Maður lifir í náttúrunni, maður deyr í náttúrunni og þess á milli beislar maður náttúruna. Maður reisir segl upp í vindinn, lætur stjörn­urnar teyma sig um hafið, steypir akkeri úr málmgrýti, smíðar skeifur á hestana, múl á hundana, leggur vegi meðfram fjörðum, brúar firðina, borar göt á fjöllin, sigrar háloftin og sigrar jafnvel sjálft holdið. Því náttúra mannsins er stór og afleiðingar hennar miklar og mikilfenglegar.
 
Maður beislar náttúruna og maður eyðileggur náttúruna. Nýjustu tölur segja að eftir þrjátíu ár verði meira plast í hafinu en fiskur. Mér skilst að Reykvíkingar séu meira og minna að kafna í svifryksmengun af umferðinni. Fellibyljina sem riðið hafa yfir Karíbahafið upp á síðkastið er ekki hægt að skrá á reikning duttlungafullrar náttúru. Þar á maðurinn, græðgi stórfyrirtækja og fyrirhyggjuleysi samfélaga, hönd í bagga. Olían fuðrar upp í farartækjum svo uppskerur bresta vegna loftslagshlýnunar. Námur tæmast, búskapur breytist í villimennsku – og já, laxeldi hefur, þar sem hirðuleysi réði för, farið allharkalega af hjörunum. Og það viljum við ekki – það vill enginn skíta í deigið. Ef við ætlum að stunda hér sjókvíaeldi þurfum við að geta treyst því að regluverkið sé grjóthart. Búskap þarf alltaf að stunda af virðingu við náttúruna – það er ekki valkvætt.
 
Maður eyðileggur náttúruna og maður eyðileggur þar með sjálfan sig – en eyðileggingin er mismikil. Með hverjum nýjum vegi hverfur ósnortið víðerni, með hverju nýju húsi gufa óbyggðirnar upp og sjást ekki aftur fyrr en byggðin leggst í eyði og húsin fyllast draugum – og á eftir draugunum koma túristar. Við getum dregið úr vistspori okkar – lágmarkað þau áhrif sem við höfum á umhverfi okkar – en við getum ekki látið vistsporið hverfa. Allri tilveru fylgir bæði fórnarkostnaður og áhætta. Ef náttúran nyti einfaldlega vafans stæðum við aldrei á fætur, drægjum ekki andann fyrir áhyggjum af fiðrildaáhrifum andardráttarins. Náttúran nýtur ekki vafans nema að svo miklu leyti sem okkur er leyfilegt að telja okkur sjálf til hennar.
 
Ég hygg að flestum hér inni – þeim sem ekki búa að jafnaði á höfuðborgarsvæðinu, í öllu falli – finnist oft einsog það gildi önnur lögmál um þróun mannlífs í og í kringum smærri byggðir en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem valdið hefur hreiðrað um sig. Í Garðabænum víla menn ekki fyrir sér að draga Ómar Ragnarsson argandi ofan af vinnuvélunum til að leggja veg, þar sem menn telja að vegur þurfi að liggja, en við Reykhóla er hægt að halda vegalagningu í gíslingu í meira en áratug fyrir nokkrar hríslur og einn sumarbústaðareiganda. Á suðvesturhorninu má holufylla og malbika hraunið langleiðina frá Hafnarfirði til Keflavíkur ef með því mætti flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Því í Vatnsmýrinni vill fólk víst búa. Það eru kannski fréttir fyrir suma, en fólk vill líka búa á Vestfjörðum.“
 
„Erum ekki einföld náttúrubörn sem glepjast af gylliboðum siðspilltra útlendinga“
 
„Og þetta er ballans. Það er alger óþarfi að láta einsog sú sé ekki raunin – svo klisjan um „sátt og samlyndi við náttúruna“ sé bara tuggin enn einu sinni, hún er sönn og við kærum okkur alls ekki um að leggja heimkynni okkar í rúst, einsog einhverjir virðast halda og við erum ekki einföld náttúrubörn sem glepjast af gylliboðum siðspilltra útlendinga og þarfnast þar með verndar siðaðra manna. En stundum er einsog hér rekist stöðugt á tvær ólíkar þjóðir – Vestfirðingar og þeir sem vilja hafa vit fyrir þeim.
 
Spurningin um líf í Djúpinu er okkur ekki fræðilegs eðlis, ekki ljóðrænn harmsöngur um exótíska og deyjandi byggð, eða dystópísk dæmisaga fyrir börn, heldur kaldhamraður og hversdagslegur veruleiki. Og það er hvorki sátt né samlyndi í því fólgið að skilgreina heimkynni fólks sem friðland sem það megi ekki snerta, sem það megi ekki hafa lifibrauð sitt af – að byggðin verði að víkja fyrir óbyggðunum, því réttur óbyggðanna sé meiri. Það er ekki ballans. Það er ofbeldi.
 
Eining lýðræðislegrar þjóðar byggir á samstöðu, sjálfs­ákvörðunarrétti og því að ákvarðanir séu teknar eins nærri þeim sem þær varða og frekast er kostur. Ef þeir sem vilja hafa vit fyrir okkur ætla einfaldlega að ákveða þetta fyrir okkar hönd, hafa af okkur sjálfsákvörðunarréttinn með yfirgangi, þá erum við ekki lengur þjóð. Sama hver niðurstaðan er. Þá er samkomulagið – um að við gætum hagsmuna hvers annars, við séum saman í þessum báti – einfaldlega brostið.“
 
 
Þingmenn Norðvesturkjördæmis vilja lög um Teigsskóg
 
Deilur um staðsetningu vegtenginga úr Reykhólasveit sem tengi byggðir á sunnanverðum Vestfjörðum með sómasamlegum hætti við aðal vegakerfi landsins hafa staðið yfir í áratugi. Hefur þetta staðið atvinnuuppbyggingu, ferðaþjónustu og mannlífi á Vestfjörðum mjög fyrir þrifum og erfiðlega hefur gengið að höggva á þennan hnút. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að löggjafinn grípi um tauma í þeim tilgangi að koma í veg fyrir  frekari tafir og flýta því eins og kostur er að framkvæmdir geti hafist. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa á undanförnum vikum og misserum sett fram sambærileg sjónarmið.
 
Í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar var ákveðið að tengja Ísafjörð við vegakerfið með vegalagningu um vestanvert Djúpið og yfir Steingrímsfjarðarheiði. Fyrir var frumstæður vegur yfir sjö fjallvegi í vestur frá Ísafirði og austur eftir Barðastrandarsýslu um tvo fjallvegi í Dölum og suður í Borgarfjörð. Þá var líka hægt að komast að sunnan um dali yfir í Djúp um Þorskafjarðarheiði og taka svo Djúpbátinn Fagranes ýmist í Ísafirði eða í Ögri. 
 
Ráðist var í að tengja Djúpveg frá Álftafirði í Ögur. Vegagerðin vildi þá að tengingin úr Djúpinu yrði úr Ísafirði yfir í Kollafjörð um Kollafjarðarheiði og rökstuddi það m.a. með minni snjóþyngslum og minni hæð vegstæðis yfir sjó. Þá var aftur á móti tekin pólitísk ákvörðun um að fara yfir Steingrímsfjarðarheiði til Hólmavíkur. Ljóst er að sú ákvörðun sló á frest nauðsynlegum endurbótum á vegum í Austur- Barðastrandarsýslu sem enn er ekki búið að tengja með sómasamlegum hætti.
 
Ekki hefur bætt úr skák að hart hefur verið deilt um hvaða leiðir eigi að fara til að losna við erfiðan fjallveg um Hjallaháls úr Þorskafirði yfir í Djúpafjörð. Þar hafa tvær leiðir verið efstar á blaði undanfarin misseri. Annars vegar jarðgöng í gegnum Hjallaháls eða vegur um svonefndan Teigsskóg sem Vegagerðin hefur lagt til að verði farin ásamt þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Mjög harðar deilur hafa staðið í á annan áratug um Teigsskógarleiðina og hafa eigendur sumarbústaðalands farið fyrir því andófi.
 
Sveitarstjórnarmenn um alla Vestfirði hafa hvatt til þess að drifið verði í framkvæmdum en ekkert gerist. Ráðherrar hafa komið og farið og ýmist sett verkefnið í farveg eða kastað því út af borðinu. Fátt virðist vera að gerast á vettvangi stjórnmálanna í þessu máli, nema að Teitur Björn Einarsson alþingismaður kynnti  drög að lagafrumvarpi fyrir hönd þingmanna Norðvesturkjördæmis fyrir skömmu sem ætlað er að koma málinu úr þessari sjálfheldu. Óljóst er hvert framhaldið á því máli verður í ljósi stjórnarslita og þingrofs vegna alþingiskosninga sem halda á 28. október næstkomandi. 
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...