Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi
Fréttir 26. september 2023

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands vinna fjölbreyttar rannsóknir og tilraunaverkefni, allt frá riðukynbótamati til skipulagsfræða.

Um 390 nemendur eru í reglubundnu námi við háskólann á haustönn, þar af 174 í búvísindum og 588 allt í allt í einingabæru námi.

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir.

Að sögn Ragnheiðar I. Þórarinsdóttur, rektors LbhÍ, hefur skólinn verið að eflast á öllum fagsviðum á undanförnum misserum og rannsóknarverkefnum farið fjölgandi samhliða aukinni áherslu á alþjóðlegt samstarf. „Nýverið var send umsókn í evrópska LIFE sjóðinn í samstarfi við Landgræðsluna, Umhverfisstofnun, Fuglavernd, Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknastofnun, Samtök íslenskra sveitarfélaga og Royal Society for the Protection of Bird í Bretlandi,“ segir hún. „Verkefnið snýr að endurheimt vistkerfa, sem er vel við hæfi þar sem LbhÍ býður í fyrsta sinn alþjóðlegt meistaranám á því sviði í haust.“

Riðukynbótamat

Fjölmörg rannsókna- og tilraunaverkefni eru í gangi hjá LbhÍ, að sögn Ragnheiðar. Eitt þeirra lýtur að riðukynbótamati og er unnið í samstarfi við RML og styrkt af Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar. Það snýst um að prófa aðferð til að spá fyrir um arfgerð príon-gensins í kindum sem ekki hafa verið arfgerðargreindar byggt á ættskrá, en þekkt er að arfgerð príon-gensins hefur mikil áhrif á líkur á riðuveiki.

Jafnframt er gerð safngreining á útgefnum niðurstöðum um hlutfallslega riðuáhættu hjá kindum með mismunandi arfgerð príon-gensins. Með því að taka saman arfgerð eða spá um arfgerð annars vegar og niðurstöður safngreiningarinnar hins vegar er stefnan að þróa kynbótamat fyrir mótstöðu gegn riðusmiti sem getur orðið mikilvægt hjálpartæki við að velja fyrir fé sem er minna móttækilegt fyrir riðu án þess að þurfa að arfgerðargreina alla gripi.

Ræktun fyrir hæfilegri fitu á lambakjöti

Verkefni um ræktun fyrir hæfilegri fitu á lambakjöti er í startholunum hjá LbhÍ, styrkt af Matvælasjóði og unnið í samstarfi við Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins. Undanfarna áratugi hefur eitt af kynbótamarkmiðum í sauðfjárrækt verið að draga úr fitusöfnun lamba. Nokkur umræða hefur verið um hvort nógu langt hafi verið gengið í þeim efnum og rétt að stefna frekar að einhverju millistigi, sem teldist þá hæfileg fita. Jafnframt er ljóst að fitusöfnun lamba hefur sterk tengsl við þunga lamba og hvaða þunga lömb ná við slátrun er mjög misjafnt á milli bæja og héraða.

Helstu markmið verkefnisins eru 1) að finna það fitustig sem gefur mest verðmæti lambaskrokka og hvernig best er að vinna að því að ná því stigi með kynbótum. 2) Að finna samsetningu heildareinkunnar fyrir fallþunga og kjötmat (gerð og fitu) sem stuðlar að mestri verðmætaaukningu fyrir greinina. 3) Að skoða samspil þunga lamba og erfðaþáttarins fyrir kjötmatseiginleika með slembi- aðhvarfs líkönum.

Jarðræktarrannsóknir

Umsvif jarðræktarrannsókna við LbhÍ hafa aukist að undanförnu. Til að mynda eru um 1.500 tilraunareitir með hafra í ár. Ein stór tilraun með 450 mismunandi arfgerðir er til rannsóknar hér og í Noregi. Verkefnið er undanfari stærra Evrópuverkefnis sem er í bígerð. Auk þess var í vor sáð út 200 arfgerðum af norrænum höfrum og þar af 180 úr norræna genbankanum. Frumniðurstöður gefa til kynna að genbankinn hefur að geyma spennandi efnivið fyrir íslenskar aðstæður sem getur reynst verðmæt erfðauppspretta fyrir mögulegar kynbætur hafra á Íslandi.

Til viðbótar eru byggtilraunareitir, en byggrannsóknir eru einhverjir mikilvægustu hagsmunir íslenskrar kornræktar. Nú hafa byggkynbætur hafist að nýju eftir hlé og vaxa hratt að umfangi með tilraunum á nýjum kynbótalínum úr íslenska byggstofninum. Vonir standa til að hafist verði handa við hveitikynbætur strax á næsta ári. Kornsýni úr öllum tilraunareitum eru tekin til frekari rannsókna á tilraunastofum til þess að meta gæði kornsins sem vex í tilraunum. Aðstaða til þessarar úrvinnslu og varðveislu erfðaauðlinda er í raun ekki til staðar og því er talið mikilvægt að hefjast strax handa við byggingu nýrrar jarðræktarmiðstöðvar í staðinn fyrir þá sem var áður að Korpu.

Skordýr sem prótein

LbhÍ hefur komið upp aðstöðu fyrir skordýrarækt og er áhersla á ræktun mjölorma og hermannaflugu til framleiðslu á hágæðaafurðum. Hluti af verkefninu er að nýta matarafganga sem fóður fyrir skordýrin og fylgjast með þróun reglugerða um skordýr til manneldis og sem fóður fyrir dýr. Þá er einnig kannaður áhugi
almennings annars vegar og bænda hins vegar á nýtingu skordýraafurða. Áhugi á skordýraeldi í Evrópu hefur vaxið hratt, nokkur sprotafyrirtæki hafa verið að ryðja sér til rúms og nokkrar afurðir komnar á markað. Næringargildi mjölorma og lirfu hermannaflugunnar er gott og sagt geta komið í stað fiskimjöls og sojabaunamjöls. Þá þykir skordýraræktun til próteinframleiðslu áhugaverð vegna lítilla umhverfisáhrifa framleiðslunnar.

Áhrif beitar á vistkerfi

Rannsóknir um áhrif beitar á vistkerfin eru ansi mikilvægt viðfangsefni, að sögn Ragnheiðar. Eitt tilraunaverkefnið er að skoða hvaða áhrif mismunandi grasbítar hafa á vistkerfið á Íslandi. Girðingar af mismunandi gerð voru settar upp sumarið 2022 til að greina á milli áhrifa stórra og meðalstórra grasbíta. Sumar girðingar útiloka allar tegundir grasbíta, og sumar útiloka stærri grasbíta eins og hreindýr og sauðfé. Verkefnið er staðsett á Vesturöræfum af því að þar er að finna á sama svæði hreindýr, heiðagæs, rjúpu og sauðfé. Niðurstöðurnar munu veita upplýsingar um hvernig best megi stjórna beit og vernda beitilönd gegn ofnýtingu gróðurs. Rannsóknasvæðið er einnig partur af alþjóðlegu tengslaneti Tundra Exclosure Network og vegna þess verður hægt að bera saman niðurstöður frá öðrum rannsóknasvæðum á norðurskautssvæðinu.

Annað tilraunaverkefni hjá LbhÍ rannsakar áhrif sauðfjárbeitar á vistkerfin í mishnignuðum túndrubúsvæðum á tveimur svæðum, innan og utan eldvirka svæðisins. Girðingar sem útiloka sauðfé voru settar upp árið 2016 og eru þau svæði borin saman við svæði með sauðfé. Gróðurfarsbreytingar eftir að sauðfé var útilokað gerast mjög hægt sem bendir til þess að vistkerfin geti ekki brugðist við og grípa þurfi til virkra aðgerða til að endurheimta þessi vistkerfi.

Rannsóknir í skipulagsfræði

Í skipulagsfræðinni segir Ragnheiður unnið að verkefninu Walkmore í samstarfi við TØI og NMBU í Noregi en verkefnið fjallar um hvernig bætt skipulag og hönnun geti stuðlað að gönguvænna umhverfi og að fleiri fari gangandi vegna daglegra erindagjörða. Það tekur til tilviksrannsókna í þrem bæjum í Noregi sem eru á stærð við Akureyri. Í bæjunum eru aðstæður að mörgu leyti svipaðar okkar, vegalengdir eru almennt stuttar þó bíllinn sé algengasti ferðamátinn.

Þetta eru aðeins örfá dæmi um fjöldann allan af forvitnilegum rannsókna- og tilraunaverkefnum háskólans um þessar mundir.

LbhÍ tók til starfa árið 2005 og er reistur á grunni Rannsóknastofnunar land- búnaðarins, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Garðyrkjuskóla ríkisins í Ölfusi. Sérstaða skólans er náttúra Íslands, nýting, viðhald og verndun hennar og viðfangsefnin landið og það sem á því lifir.

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...