Rafn Bergsson og Majken Egumfeldt-Jörgensen eru alsæl með aðstæðurnar í fjósinu á Stóru-Hildisey 1.
Rafn Bergsson og Majken Egumfeldt-Jörgensen eru alsæl með aðstæðurnar í fjósinu á Stóru-Hildisey 1.
Mynd / smh
Viðtal 30. ágúst 2024

Flytja að Stóru-Hildisey 1

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Rafn Bergsson, formaður deildar nautgripabænda hjá Bændasamtökum Íslands, og kona hans, Majken Egumfeldt-Jörgensen, hafa fært sig um set í Austur-Landeyjum og eru flutt á Stóru-Hildisey 1 frá Hólmahjáleigu.

Þau segjast hafa formlega flutt 20. júlí en Majken segir að í raun hafi ferlið tekið um eitt ár frá því að fyrsta tilboð var gert.

Vinnumaður á næsta bæ keypti Hólmahjáleigu

Skrifað var undir kauptilboð í byrjun febrúar fyrir Stóru-Hildisey 1. „En fyrirhuguð viðskipti voru þá auðvitað með þeim fyrirvara að við seldum okkar jörð, þannig að þetta tekur allt sinn tíma,“ bendir Rafn á.

Þau þurftu hins vegar ekki að leita langt eftir kaupanda, því Bretinn Jack Willam Bradley, sem var vinnumaður á nágrannabænum, Stóru Hildisey 2, og unnusta hans, Rebekka Karolína Björgvinsdóttir, ákváðu að hefja búskap saman og kaupa Hólmahjáleigu.

Byrjuðu frá grunni

„Við tókum við Hólmahjáleigu árið 2005, af foreldrum mínum og þar eru mínar rætur. Þá var reyndar engin mjólkurframleiðsla en kvótinn hafði verið seldur þremur árum áður. Búið var að breyta fjósinu í hesthús – þannig að við byrjum í kúabúskap frá grunni því þar lá okkar áhugi.

Við keyptum því kýr og kvóta og settum upp rörmjaltakerfi – og má segja að við höfum farið erfiðu leiðina. En við byggðum okkur upp hægt og bítandi; vorum komin með lausagöngu og mjaltaþjón,“ útskýrir Rafn.

Þau segja að á þetta löngum tíma hafi laun erfiðisins loksins skilað sér í því að þau voru komin í þá aðstöðu að geta svipast um eftir möguleikum á stækkun og voru í raun að huga að stækkun Hólmahjáleigu þegar Stóra- Hildisey 1 var auglýst til sölu – og þau ákváðu að stökkva á það góða tækifæri. „Það er ekkert launungarmál að maður hefur horft á Stóru-Hildisey með ákveðinni aðdáun enda að öllu leyti fyrirmyndarbú sem við tökum við. Þegar við skoðuðum dæmið þá var þetta langhagstæðasti kosturinn miðað við okkar forsendur til að komast í betri og nýrri aðstöðu.

Majken og Rafn böðuð í sólarljósinu í björtu fjósinu á Stóru-Hildisey 1.

Umtalsverð aukning

Breytingar verða talsverðar á umfangi búrekstrar með flutningum Rafns og Majken. „Þetta er umtalsverð aukning. Við tókum með okkur um 50 þúsund lítra í greiðslumarki en bara fimm kýr að gamni,“ segir Rafn og Majken bætir við að það hafi verið
þeirra uppáhaldskýr.

Jörðin á Stóru-Hildisey er 300 hektarar að stærð og ræktað land 107 hektarar. Tóku þau við búinu með um 70 kúm og samanlagður kvóti verður rúmir 500 þúsund lítrar, en í Hólmahjáleigu voru þau með um 326 þúsund lítra kvóta.

Svo er hérna svolítið nautaeldi líka sem við vorum áður ekki með. Segir Majken að búið sé að nefna allar kýrnar en núna taki við að kynnast þeim betur.

Nýtt mjalta- og gjafakerfi

„Við vorum í raun mjög heppin með hvað þetta gekk allt saman vel upp, því vildum selja okkar jörð í rekstri til áframhaldandi búrekstrar. Já, í raun þetta gekk bara mjög hratt í gegn þegar réttur skriður var kominn á málið,“ segir Rafn.

Þau eru búin að koma sér vel fyrir og segja að aðstæður séu um margt öðruvísi en þau áttu áður að venjast. „Það hefur verið mesta áskorunin að læra á nýtt mjalta- og gjafakerfi,“ segir Majken, „en þetta er smám saman að koma,“ bætir Rafn við. Þá hringir sími Rafns og þá er mjaltaþjónninn að láta vita að ekkert hafi mjólkast í 90 mínútur, sem þau skrifa á tæknilega örðugleika þar sem kýrnar voru úti.

Afurðaverð togast upp

„Við þekkjum svo sem alveg nautaeldið líka, þar sem við vorum með það í Hólmahjáleigu líka til að byrja með. En það gengur bara fínt – erum með ágætis aðstöðu fyrir það hér,“ svarar Rafn. Spurður út í þróun á afurðaverði í nautakjötsframleiðslunni, segir Rafn að það sé heldur að togast upp á við í rétta átt. Þá hafi náðst svolítill ávinningur með auknum ríkisstuðningi á sláturálagið. Hann segir að það þurfi þó að gera talsvert betur svo þessi grein geti vel þrifist á Íslandi. Um langt skeið hafi afurðaverð verið alveg óviðunandi og svaraði í raun engan veginn kostnaði að setja nautkálfa á. Rekstrarskýrslur Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins hafi líka ítrekað staðfest bága stöðu greinarinnar.

Nýlegar afurðaverðshækkanir séu hins vegar vonandi fyrirboði þess sem koma skal og segir Rafn að með sameiningu kjötafurðastöðva sé vonast eftir að svigrúm skapist til hagræðingar í sláturgeiranum og þannig möguleikum á enn frekari hækkunum afurðaverðs í átt að því sem telst viðunandi. Þannig hafi afurðastöðvarnar sjálfar talað. „Núna er boltinn hjá þeim og við verðum að sjá að þessi hagræðing skili sér til leiðréttingar á afurðaverði til bænda,“ segir Rafn. „Ég held að það séu fáir sem vilja í raun upplifa skort á íslensku nautakjöti með tilheyrandi auknum innflutningi,“ skýtur Majken inn í.

Annars konar opinber stuðningur

Rafni sýnist að ásetningurinn hafi aukist aðeins aftur eftir að hafa hrapað verulega á tímabili. „Svo má ekki gleyma því í allri umræðu um opinberan stuðning við íslenskan landbúnað að það er líka hægt að styðja við hann með öðrum hætti en beinhörðum stuðningsgreiðslum. Ég vænti þess að það verði skoðað meira núna þegar stuðningskerfið verður tekið til endurskoðunar. Til dæmis væri hægt að búa til umgjörð utan um fjárhagslegt umhverfi búgreinanna sem sé þolanlegra en þessi fjármagnskostnaður sem við búum við í dag, á því sviði búa íslenskir bændur við mjög skakka samkeppnisstöðu miðað við bændur í nágrannalöndunum sem við flytjum inn afurðir frá.

Staðreyndin með okkar grein, okkur nautgripabændur, er að við erum með mjög fjárfrekan búrekstur miðað við tiltölulega litla veltu.“

Möguleg framleiðsluaukning

Þau segja að um sinn ætli þau að sjá aðeins til með framtíðarmúsíkina, hvort þau ætli að auka við sig í framleiðslu. Þau fullnýti nú þann mjaltaþjón sem þau eru með, en útiloka ekki aukningu þegar fram líða stundir.

Þegar blaðamann bar að garði um miðjan ágúst var seinni slætti nýlokið og þau vonuðust nú bara eftir að þurfa ekki að slá í þriðja sinn. Fyrrum ábúendur, Pétur Guðmundsson og Izabela Barbara Pawlus, hafi verið með þeim í fyrsta slætti og aðstoðað þau við að koma sér fyrir í búskapnum í nýju fjósi.

Þau eru Pétri og Izabelu þakklát fyrir alla hjálpina. Þau hafi verið einstaklega viljug að hjálpa og leiðbeina þeim. Það sé ómetanlegt að samskiptin séu góð og vilji til að hjálpa sé til staðar þegar tekið er við svona rekstri.

Skylt efni: Stóra-Hildisey I

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt