Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Fjölskyldan í Brennholti í Mosfellsdal, Tómas Ponzi, Björk Bjarnadóttir og sonurinn Egill Mikael Ponzi, sem heldur á Boldungi. Það er tómatayrki og afrakstur
sjö ára ræktunarstarfs Tómasar. Yrkið Boldungur er ræktað í köldu gróðurhúsi og þrátt fyrir að sumarið hafi verið sólarlaust og kalt þá var ágætis uppskera.
Um einstaklega duglega tómataplöntu er að ræða, tómatarnir kjötmiklir og safaríkir með góðu jafnvægi á milli sætu og sýru.
Fjölskyldan í Brennholti í Mosfellsdal, Tómas Ponzi, Björk Bjarnadóttir og sonurinn Egill Mikael Ponzi, sem heldur á Boldungi. Það er tómatayrki og afrakstur sjö ára ræktunarstarfs Tómasar. Yrkið Boldungur er ræktað í köldu gróðurhúsi og þrátt fyrir að sumarið hafi verið sólarlaust og kalt þá var ágætis uppskera. Um einstaklega duglega tómataplöntu er að ræða, tómatarnir kjötmiklir og safaríkir með góðu jafnvægi á milli sætu og sýru.
Mynd / smh
Viðtal 30. október 2024

Gómsæt og kuldaþolin tómatayrki

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

„Þetta er Boldungur, nýtt tómatayrki sem varð til með krossfrjóvgun á gömlu tómata-ættardjásni (Heirloom tomato) við kuldaþolið síberískt yrki,“ segir Tómas Ponzi þar sem hann heldur á óvenju stórum og fallegum tómati í gróðurhúsi sínu í Brennholti í Mosfellsdalnum.

„Það tekur sjö ár að fá fram stöðugt yrki, sem breytist hvorki í stærð, lit né lögun og getur því fengið sitt eigið nafn og hægt að bjóða fræ af honum. Núna eru einmitt sjö ár síðan ég prófaði að rækta saman þessi tvö yrki,“ útskýrir Tómas.

Vinnur að aðalstarfi í tæknilausnum

Síðustu þrjátíu árin hefur hann rekið lítið tæknifyrirtæki sem hannar sérhæfðar örtölvulausnir til vöktunar, stýringar og upplýsingamiðlunar.

Hann hefur ekki hlotið formlega menntun á þessu sviði, ekki frekar en í garðyrkjunni, en segist ganga vel að mennta sig sjálfur. „Ég er bara með stúdentspróf en fékk áhuga á tölvum í framhaldsskóla. Sérhæfði mig svo í elektróník og örgjörvalausnum. Hef síðan hannað alls konar lausnir fyrir hina og þessa,“ segir hann.

Garðyrkjan hefur verið aukabúgreinin í Brennholti, en Tómas segir að hún sé svolítið að taka yfir – enda hafi hann mikla ástríðu á því þróunarstarfi sem hann stundar þar. „Það er nauðsynlegt fyrir mig að slíta mig reglulega frá tækninni og vinna með plöntunum til að halda heilsu,“ segir hann.

Stanslaus straumur viðskiptavina

Fjölskylda Tómasar eignaðist landið í Brennholti árið 1965 og voru ræktunaraðstæður ákjósanlegar; heitt vatn, sendinn jarðvegur og stutt í grunnvatnið. Þar var reist um 100 fermetra upphitað gróðurhús og stundaði fjölskyldan tómata- og vínberjarækt. Í heita húsinu hafa þessi ættardjásn lengi verið ræktuð og eru geysivinsæl að sögn Tómasar, sem selur tómatana beint út úr gróðurhúsinu.

„Það streyma til okkar gestir stanslaust yfir sumartímann, frá miðjum júlí til septemberloka.“ Viðskiptavinirnir fá þá blöndu af því sem til er, en á bilinu 30–50 afbrigði af öllum gerðum eru jafnan í ræktun hvert sumar í heita húsinu.

Tómas og Björk selja tómatana beint úr gróðurhúsunum. Garðyrkjan hefur verið aukabúgrein í Brennholti en Tómas segir að hún sé svolítið að taka yfir enda hafi hann mikla ástríðu fyrir þróunarstarfi sínu.

„Michelin-gæði“ á tómötunum

„Vegna þess hversu uppskeran er takmörkuð getum við aðeins látið eitt veitingahús fá tómata frá okkur og það er Michelin-staðurinn Óx á Laugavegi,“ heldur Tómas áfram.

„Landið sem faðir minn og móðir keyptu hér er einmitt einstaklega hentugt til salat- og tómataræktunar og ég hef í raun helgað mig þeirri ræktun – og kynbótum á tómötum – af mikilli ástríðu síðan. Ég reyni að hafa ræktunina eins náttúrulega og kostur er. Jarðveginn hef ég bætt með mómold, notað sauðatað og smá þaramjöl sem áburð og svolítinn skeljasand sem kalkgjafa. En plönturnar þurfa að hafa fyrir því að sækja þessa næringu sem gera þær harðgerar. Svo vökva ég bara fimmta til sjöunda hvern dag og það byggir upp sterkt rótarkerfi. Einnig myndast sveppaþræðir í jarðveginum sem hjálpa plöntunum að sækja næringarefnin og vatnið. Þannig verða gæðin til – bæði bragðgæði og næringarlega,“ segir Tómas og bætir við að um lífræna ræktun sé að ræða, en þó án vottunarinnar.

Þráinn Freyr Vigfússon, eigandi veitingastaðarins Óx, tínir hér skjaldfléttu úr köldu tómatahúsi Tómasar og fékk nokkra stóra og fallega tómata til að framreiða um kvöldið.

Gerði samning við lífið

Eftir að hafa lifað af erfið veikindi árið 2011 fékk Tómas það verkefni í hendurnar að gera tilraunir með ræktun kuldaþolinna tómatayrkja. „Fyrst ég komst lífs af, varð ég að spyrja tilveruna að því hvað ég ætti að gera við lífið mitt og svarið kom á augabragði á ensku: „You should grow tomatoes outdoors in Iceland“ – og það var eins og svarið hefði komið frá látnum föður mínum.

Þá fór ég að skoða þessi kuldaþolnu yrki. Ég komst í kynni við ræktanda í Minsk í Hvíta-Rússlandi og hann sendi mér 20 kuldaþolin yrki frá Síberíu. Ég byrjaði á að prófa ræktun á þeim í svona litlum vermireitum, í litlum A-laga húsum, en það gekk brösuglega.

Þá ákvað ég að byggja óupphituð bogahús sem eru fjögurra metra breið og með sex metra boga yfir og klædd með ylplasti. Þau hafa gefið alveg svakalega góða raun. Núna er ég kominn með fjögur slík, 18 metra löng, og er búinn að prófa upp undir hundrað yrki af kuldaþolnum tómataafbrigðum frá öllum heimshornum, aðallega þó Síberíu, Austur-Evrópu, Litáen, Kanada og Kasakstan – og reyndar víðar.“ Tómas bendir á að mestmegnis séu plönturnar litlar runnatýpur og nefnir Boldungs-plöntuna sem dæmi, sem er mjög lágvaxin miðað við þær sem þekkjast frá öðrum garðyrkjubændum í hefðbundinni tómataframleiðslu. „Plantan verður aðeins um 50 sentímetrar á hæð en gefur af sér stóra og afar bragðgóða tómata,“ segir Tómas.

Ákjósanleg bogahús

Tómas segir að svona bogahús séu ákjósanleg fyrir tómata- og salatræktunina – og raunar margs konar ræktun. „Sérstaklega henta þau fyrir tómataræktunina mína, þar sem þau einangra vel og það þýðir að frostlaust er hér alveg frá maíbyrjun og fram í miðjan október.
Aðalvandamálið við tómataræktun er rakastigið og mikilvægt að rakinn sé ekki lengi á plöntunum. Þegar það gerist er hætt við myglu. Þetta á sérstaklega við óupphituð hús, því í þeim safnast mikil dögg yfir nóttina. Hins vegar er ég með viftu á gaflinum hérna sem er beintengd sólarsellu og það þýðir að loftstreymið í gegnum húsið er í réttu hlutfalli við hitamyndunina í húsinu. Viftan fer í gang strax við sólarupprás og gengur svo mishratt eftir því hversu sterkt sólarljósið er – virkar sem hitastillir og rakastillir hússins.“

Þola kulda að frostmarki

Tómas útskýrir að kuldaþolnu yrkin þoli kulda allt niður undir frostmark, en þá falli blöðin líkt og gerist með kartöflugrös. „Ég hef boðið fræ og forræktaðar plöntur síðustu tíu árin og verið með marga fasta viðskiptavini þennan tíma. Núna er ég með um 14 yrki og þau eru öll sæmilega bragðgóð – alltaf betri en tómatarnir úti í búð. Mig langaði hins vegar til að reyna að þróa þau áfram í ræktun og ná þeim á pari við þau sem ég er með í heita húsinu.

Þar eru ættardjásnin, sem þýðir að fræin af þeim hafa varðveist mann fram af manni í að minnsta kosti 50 ár. Viðskipti með fræ í dag eru orðin þannig að í raun þarf maður að fá ákjósanleg fræ frá einstaklingum eða fræsamtökum, þá meina ég af arfhreinu yrki. Af því að ráðandi markaður selur mest það sem er kallað „hybrid yrki“, sem margir þekkja sem F1-yrki, sem þýðir fyrsta kynslóð eftir krossfrjóvgun. Fræ af slíkum tómötum er ekki hægt að taka, rækta upp af þeim og fengið sama tómatinn aftur. Ef þú vilt fá sama tómatinn úr ræktuninni verður þú þá að kaupa ný fræ og það hugnast mér ekki. En þetta snýst um peninga. Mér finnst að fræin eigi ekki að vera einkaleyfisvarin eða háð ákveðnum framleiðanda eins og F1-yrkin. Það ætti að vera frjáls dreifing á fræjum eins og náttúran sjálf ætlaði það.Við ættum frekar að snúa okkur að því að hjálpa náttúrunni og vera í þjónustuhlutverkinu, í stað þess að vera alltaf að reyna að græða 1 á henni.“

„Árið 2017 krossfrjóvgaði ég sjö harðgerðustu kuldaþolnu afbrigðin með bragðbesta yrkinu úr heita gróðurhúsinu, sem heitir Brandywine. Ég vildi endilega bragðbæta þessi kuldaþolnu, þó að þau hafi verið bragðgóð fyrir.“

Tómas Ponzi heldur stoltur á fallegum Boldungi. Þrátt fyrir að sumarið hafi verið sólarlaust og kalt þá var ágætis uppskera af Boldungi í Brennholti.
Boldungur er orðinn að stöðugu yrki

„Ég náði í frjó af Brandywine ættardjásn-afbrigðinu, sem eru alveg stórkostlegir tómatar, og frjóvgaði það við tiltekið síberískt yrki,“ heldur Tómas áfram og greinir frá tilurð Boldungs.

„Ættardjásnin eru arfhrein og kuldaþolnu yrkin líka, mörg þeirra meira að segja með mikla sögu. Við krossfrjóvgunina fæ ég fyrstu kynslóð (F1) sem er öll eins og klónuð. Svo blandast erfðaefnið í kynslóð tvö (F2), þegar þú tekur fræ úr fyrstu kynslóðinni og setur niður á ári tvö – þá færðu fjölbreytnina.

Allar plönturnar eru ólíkar og einstakar í kynslóð 2. Þetta er hin náttúrulega aðferð sem ég vildi fara. En svo vildi ég búa til arfhrein yrki úr þessari krossfrjóvgun minni, sem ég gæti boðið fólki og sagt að hér væru fræ úr þessum tómat og þú getur fengið þannig tómat með því að sá því. Ég vil þannig útdeila möguleikum náttúrunnar,“ segir hann.

„Það hefur tekið þennan tíma frá 2017 fyrir erfðaefnið í Boldungi að verða stöðugt þannig að nú mun ég alltaf fá sams konar tómata úr ræktun með fræjunum úr honum sjálfum. Í þróunarferlinu, á þessum sjö árum, komu fram ýmsar útgáfur en svo var það mitt að velja hvaða eiginleika ég vildi halda í og halda áfram með í ræktun. Þar skiptu bragðgæðin sköpum. Svo er það auðvitað mikil heppni að þessir góðu eiginleikar kæmu fram. Boldungur er einstaklega dugleg planta og tómatarnir kjötmiklir og safaríkir með gott tómatabragð þar sem gott jafnvægi er á milli sætu og sýru,“ bætir Tómas við í lokin.

Úrval af ættardjásnum úr upphitaða gróðurhúsinu. Mynd / Aðsend

Skylt efni: tómataræktun

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt