Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Skógarbændurnir Björn Bjarndal Jónsson og Jóhanna Róbertsdóttir. Vegurinn endar í Kluftum í Hrunamannahreppi. Hjónin hafa komið sér upp íbúðarhúsi á fallegum stað með stórbrotnu útsýni til suðurs.
Skógarbændurnir Björn Bjarndal Jónsson og Jóhanna Róbertsdóttir. Vegurinn endar í Kluftum í Hrunamannahreppi. Hjónin hafa komið sér upp íbúðarhúsi á fallegum stað með stórbrotnu útsýni til suðurs.
Mynd / ghp
Viðtal 28. júlí 2023

Hægur hjartsláttur í fjölnytjaskógi

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Kyrrð og náttúrufegurð einkennir umhverfi Klufta í austanverðum Hrunamannahreppi. Þessi fyrrum eyðijörð er nú lögbýli skógarbændanna Björns Bjarndal Jónssonar og Jóhönnu Róbertsdóttur sem eru að umbreyta hluta jarðarinnar í nytjaskóg og útivistaparadís.

Umfangsmesta ríkis- og atvinnutengda skógræktarverkefni landsins er „Skógrækt á lögbýlum“. Í því felst að skógarbóndi á lögbýli skuldbindur sig til að taka ákveðinn hluta jarðar sinnar, að lágmarki 10 hektara, til nytjaskógræktar. Þátttaka í verkefninu er háð þinglýstu samkomulagi milli bónda og Skógræktarinnar og eru í dag gildandi 700 skógræktarsamningar en undir þeim eru um 54.000 hektarar lands.

Hjónin Björn og Jóhanna hafa verið hluti af verkefninu síðan árið 2016. Þau eru á sjöunda ári framkvæmda við að koma á fót 112 hektara skógi á jörð sinni, Kluftum í Hrunamannahreppi. Björn er skógfræðingur og formaður Félags skógarbænda á Suðurlandi. Hann var lengi verkefnastjóri hjá Skógræktinni. Jóhanna starfaði sem verkefnastjóri Rauða krossins en þau hafa nú bæði lokið störfum.

„Við erum búin að planta í rétt um 80 hektara lands. Við gáfum okkur tíu ár í að gróðursetja og það gengur vel, þurfum jafnvel ekki nema níu ár til þess,“ segir Björn og þykir það nokkuð rösklega gengið til verks því samhliða gróðursetningum hafa hjónin staðið í mikilli uppgræðslu rofabarða og mela, mótað sjö kílómetra af slóðum sem munu koma til með að vera skógarstígar framtíðarinnar. Skógræktarsvæðið þeirra liggur um hvamma, brekkur og gil hvar lækjarsprænur renna víða svo hjónin hafa lagt ræsi svo aðgengi verði eins og best verður á kosið.

„Áður en við vitum af verður kominn tími á fyrstu umhirðu skógarins. Þá þarf bæði að koma með íbætur ef ræktin hefur ekki heppnast, uppkvista trén og taka tvítoppa svo þau verði góð tré til nytja,“ segir Björn. Áður en hafist var handa við umbreytingu svæðisins höfðu þau Jóhanna hannað svæðið á heildstæðan hátt og sjá þau glytta í framtíðarsýnina þó fæst tré nái einum metra í dag.

„Þú getur ekki verið í skógrækt og hugsað í dögum eða vikum. Þú verður að hugsa í árum og áratugum. Þú verður að geta séð fyrir þér hvernig skógurinn verður þegar hann er kominn upp. Þér ber skylda til að hugsa um hvað þú ert að gera því þú ert að breyta ásýnd landsins. Þess vegna má ekki hlaupa til og gróðursetja hvar sem er. Það þarf að gera áætlanir og með þeim verður framtíðarsýnin ljós.“

Hér er búið að plægja fyrir plöntun trjáa á stóru svæði og gróðursetja. Hjónin eru á sjöunda ári framkvæmda við að koma á fót 112 hektara skógi.

Kostnaður nær allur greiddur

Fimm skref þarf til að hefja skógrækt á lögbýlum samkvæmt vefsíðu Skógræktarinnar. Sækja þarf um þátttöku, því næst er væntanlegt skógræktarsvæði tekið út, að því búnu er hægt að gera skógræktarsamning og í kjölfarið hefst vinna við kortlagningu ræktarsvæðisins og gerð skógræktaráætlunar. Loks er skógarbónda skylt að sækja grunnnámskeið í skógrækt áður en hafist er handa við undirbúning lands og gróðursetningu.

Skógræktarsamningurinn er þinglýstur á jarðir og því fylgja kvaðir sem skógarbóndinn þarf að standa við til að fá ríkisgreiðslurnar sem þeim fylgja, en Skógræktin greiðir allt að 97% af kostnaði við fyrir fram samþykktar framkvæmdir. Bændur fá þannig greitt fyrir jarðvinnslu, gróðursetningu, slóðagerð og áburðargjöf, Skógræktin útvegar plöntur og bændur fá greitt fyrir umhirðu ungskóga og vörslu landsins.

Björn segir að skógræktarlög á Íslandi séu með þeim bestu sem hann þekkir til.

„Lög um nytjaskógrækt á Íslandi eru einstaklega góð, meðal annars vegna þess að hið opinbera kemur á fót ákveðnu kerfi, skyldum og kvöðum til að byggja upp skóga hér. Þannig er komið í veg fyrir að breyta ásýnd landsins hugsunarlaust, heldur eru búnar til áætlanir og reglur í kringum það svo hægt verði að segja í framtíðinni að við höfum staðið eins vel að skógræktinni og kostur er.“

Eftirlit er með þeim framkvæmdum sem skráðar eru í verkefnið og Skógræktin kemur ár hvert og tekur út skógana, athugar hvort fylgt er eftir áætlunum, könnun gerð á gróðursetningu og staðsetningum. Ef áætlunum er ekki fylgt fá bændur ekki greitt.

Fyrir fáeinum árum var þessi breiða svartur melur og brún rofabörð. Nú má sjá gróna brekku og móagróður er farinn að taka yfir rýrgresið. Einnig hafa birkiplöntur skotið upp kollinum.

Afurðir og úrvinnsla

Hins vegar segir Björn að þar með sé ekki öll sagan sögð. „Það er fátt í íslenskum lögum sem segir þér hvernig þú átt að hugsa um skóga þangað til þú heggur þá. Þar er brotalöm. Kerfið heldur ekki utan um umhirðuþátt skóganna þegar þeir eru komnir yfir fyrsta skrefið. Ekkert sem segir þér til um hvernig standa skuli að umhirðu skógarins eftir fyrstu grisjun.“

Þó ferli frá plöntun að trjáhöggi sé langt þá þurfi þeir sem halda skóga að eiga von um að fá greitt fyrir afurðir þegar þar að kemur. „Því miður eru ekki margir kaupendur að íslensku timbri í dag og þar af leiðandi eru ekkert margir skógarbændur að standa í grisjun, þó komið sé að því.“

Björn segir að Félag skógarbænda á Suðurlandi hafi nýlega markað stefnu til framtíðar. „Við gerðum áætlun til ársins 2050 um hvernig við ætlum að standa að umhirðu, grisjun, úrvinnslu og markaðssetningu skógarafurða.“ Stefnan hefur fengið heitið „Fræ til framtíðar“ og hægt er að nálgast hana á vefsíðu félagsins, skogarbondi.is.

Björn bendir á að langan tíma muni taka að fá gæðatimbur úr íslenskum skógum, en þrátt fyrir það felist í trjánum nytjar, til að mynda sé eftirspurn eftir skógarafurðum í olíu- og fataiðnaði erlendis.

Hann segir að það liggi mikil tækifæri í að taka vel utan um afurða- og markaðsmál skógræktarinnar, enda séu í þeim mikil verðmæti utan kolefnisbindingar. „Skógurinn getur gefið svo margt annað en timbrið, sýnilegt og ósýnilegt. Auðveldast er að nefna sveppi sem dæmi um það sýnilega, sem við gætum nýtt í miklu meira mæli. Síðan er það ósýnilega sem er kannski verðmætast af öllu; upplifunin. Bara lyktin í íslenskum skógum er oft svo mögnuð að hún gæti orðið söluvara. Sjálfur hef ég haft þá ánægju að taka á móti fjölfötluðu fólki úti í skógi og aldrei fengið jafn sterk viðbrögð og þegar ég lét þau finna lykt af mismunandi trjátegundum. Þetta eru verðmæti.“

Í október nk. munu skógarbændur standa fyrir málþingi þar sem einmitt verður fjallað um matarkistu íslenskra skóga og verðmætin sem í þeim felast.

Björn lítur yfir brekku með furutrjám sem eru að ná sér á strik eftir vorhretið. Í skóginum má meðal annars finna greni, aspir og birki. Íbúðarhús hjónanna sést í fjarlægð.

Þetta gerir skógarbóndi

Störf bænda eru fjölbreytt árið um kring. Vinnuár skógarbænda hefst strax um áramót, því þá þurfa þeir að vera búnir að ákveða hvað þeir ætla að gera það árið.

Samkvæmt skógræktaráætlun sinni leggja þeir inn beiðni til Skógræktarinnar um ákveðið magn af plöntum til gróðursetningar. Út frá því útvegar Skógræktin plöntur til handa bændum.

Fyrstu vetrarmánuðina segir Björn að sé nokkuð rólegur tími. „Ég er engu að síður í þeim hópi sem tel mikilvægt að skógar- bændur sæki þau námskeið sem eru í boði. Við fæðumst ekki með vitneskjuna um skógrækt en auðveldasta og fljótlegasta leiðin til að öðlast þekkinguna er að sækja sér menntun.“

Þannig, segir Björn, sé lærdómsríkt að taka þátt í félagsstarfi skógarbænda. Þau hjón eru sjálf í einum af þremur leshópum skógarbændafélagsins þar sem m.a. er farið í heimsóknir milli bænda og þeir kynna sér starf kollegana og læra jafnvel af árangri þeirra og mistökum.

Þegar líður að vori sé mikilvægt að útvega sér allt sem til þarf í gróðursetningu, kaupa áburð og yfirfara öll tól og tæki. „Það er fátt leiðinlegra en að lenda í biluðum verkfærum fyrir gróðursetningu,“ segir Björn, enda má þá engan tíma missa því frá miðjum maí er mikið um að vera. „Við vitum það að viku af júní þá þurfum við að vera búin með gróðursetningu á öllum plöntum sem koma úr frysti. Við getum svo tekið okkur aðeins lengri tíma með bakkaplöntur og asparstiklinga.“

Þegar vorgróðursetningu lýkur tekur við girðingarvinna og viðhald slóða. „Svo skiptir miklu máli, eins og núna í júlí, að komast reglulega um og skoða trén með tilliti til sjúkdóma og plága sem geta sprottið upp,“ segir Björn. Ef svo ber undir þurfi að bregðast fljótt við, láta sérfræðinga á Mógilsá vita. „Sem betur fer höfum við verið mjög laus við plágur hingað til. Við förum vikulega, göngum um og skoðum trén. Hér getur komið upp ertuygla á greni sem er mjög hvimleitt.“

Þá er júlí einnig tími jarðvinnu. Ef undirbúa þarf svæði fyrir haustgróðursetningu þarf að koma því í verk og einnig er gott að undirbúa svæði fyrir næsta ár.

„Í ágúst taka svo haustgróðursetningar við. Um leið og við gróðursetjum gefum við áburð. Við erum komin með seinleystan áburð sem plönturætur geta legið upp við án þess að brenna og því gefum við jafnóðum.“

Eftir að öllum gróðursetningum er lokið hefst vinna við umhirðu skógarins; uppkvistun, tvítoppar teknir og millibilsjöfnun – en í því felst að lökustu trén eru tekin og magn trjáa minnkar þar. Fyrsta grisjun hefst svo um 30 ára aldurinn. „Umhirðuþátturinn er mjög mikilvægur og skógarbændur verða að gera sér grein fyrir því að um leið og maður setur niður tré þá er verkefnið ekki þar með búið. Maður þarf að passa vel upp á að það fjármagn sem ríkið leggur til nytjaskógræktar á Íslandi nýtist sem best.“

Þegar líða fer að vori þarf að yfirfara öll verkfæri fyrir gróðursetningu og kaupa áburð. Neðst til vinstri sést áburðurinn sem bændurnir nota; seinleyst korn sem sett eru niður undir plönturnar.

Að njóta og nýta

Björn segir að enginn fari af stað í skógrækt í dag til þess að græða peninga, heldur til að græða upp landið. „Auðvitað geta jarðir hækkað í verði þegar á þeim er skógur en þú ert samt á öðrum forsendum. Þeir sem mennta sig í skógrækt gera það ekki til að fara í „bissness“. Þeir sem ráða sig í skógræktarvinnu spyrja ekki um laun – fólk er í þessu af hugsjón. Þannig er þetta bara.“

Hjónin segja skógræktina einnig fjölskyldufag og taka bæði börn þeirra og barnabörn virkan þátt í uppgræðslunni. „Við tökum myndir af svæðinu og biðjum þau að skoða þær eftir þrjátíu til fimmtíu ár. Þar sem áður voru rofabörð og svartir melar verður gróðursæll verðmætur skógur.“

Hér sést nokkuð myndarleg ösp í forgrunni en í bakgrunni má sjá brekku með úrvalsbirki úr yrkinu ́Emblu ́.

Því ef vel gengur mun ásýnd Klufta breytast verulega næstu áratugi. Rúmlega 100 hektara skógur með blönduðum trjátegundum munu prýða landið og ofan við það mun uppgrætt land og birkikræða líðast upp yfir 300 metra hæðina. Berjamóa má finna víða. Timbur skógarins verður nýtanlegt og gnægð fæðu verður að finna, slóðarnir munu svo bjóða upp á gönguleiðir gegnum fjölbreytt skógarlandslag. „Í framtíðinni verður þetta skógur til að njóta, ekki síður en að nýta,“ segir Björn enda feli útivist í skógi í sér mikla hugarró.

Skógurinn er óárstíðarbundinn bendir Jóhanna á. „Það er alveg eins gott að fara út í skóg á veturna og á sumrin. Hann gefur þér alltaf kyrrð og friðsæld. Þegar maður kemur á svona stað þá er eins og það hægi á hjartslættinum.“

Skylt efni: Skógrækt

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt