Fjölskyldan í Ásbyrgi, þau Aron, Ísak, Sigurgeir og Noi.
Fjölskyldan í Ásbyrgi, þau Aron, Ísak, Sigurgeir og Noi.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 1. nóvember 2024

Í hálfa öld á bak við borðið

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Örlög margra smávöruverslana í kringum landið geta ráðist af slæmum vegasamgöngum og hafa eigendur verslunarinnar og matsölunnar Ásbyrgis ekki farið varhluta af því. Fjölskyldan, Ævar Ísak Sigurgeirsson, kona hans, Senee Sankla, og synir þeirra, Aron og Sigurgeir, hafa um langt skeið tekið á móti viðskiptavinum og velunnurum, en félagslegt gildi staða á borð við Ásbyrgi er ómetanlegt í litlum samfélögum.

Í Ásbyrgi er ávallt líf og fjör enda sækja þangað bæði ferðamenn sem og heimamenn. Í minni samfélögum er félagslegt gildi staða sem þessara ómetanlegt.

Á norðausturhorni landsins stendur verslun sem ber heitið Ásbyrgi, nefnd eftir einum fegursta stað Vatnajökulsþjóðgarðar. Mörg þekkjum við söguna um hest Óðins, Sleipni, sem tyllti niður fæti í Öxarfirðinum á ferð sinni um heiminn. Í dag má þar sjá skeifulaga hamrabelti þar sem fegurð og gróðursæld haldast í hendur, mikið náttúruundur.

Hróður verslunarinnar Ásbyrgis hefur einnig farið víða, en þar tók Sigurgeir Ísaksson við stöðu verslunarstjóra árið 1974 meðfram búskap. Með honum við búðarborðið stóð Ísak, sonur hans, annar í röð fjögurra barna þeirra Sveininnu Jónsdóttur, en Ísak hefur nú í ár staðið vaktina í hálfa öld. Áður starfræktu þau hjón, Sigurgeir og Sveininna, bensínafgreiðslu og söluturn í Ásbyrgi á árunum 1966–74, er Kaupfélag Norður-Þingeyinga opnaði þar útibú.

„Þarna hafði áður verið rekin smáverslun frá kaupfélaginu í Keldunesi. Ferðamennskan var að aukast mikið á þessum tíma, opnast hafði vegur austan Jökulsár og umferðin um svæðið því heldur meiri en áður,“ segir Sigurgeir. „Þarna rákum við verslun fyrir sveitirnar og ferðamenn líka, enda ferðamennskan býsna mikið öðruvísi en hún er í dag. Tjaldbúskapur ráðandi og stórir flokkar á ferð frá Guðmundi Jónassyni, Úlfari Jakobssyni og Arena, ferðafyrirtækjum á rútum.

Þjónustustigið var einnig öðruvísi þá en það er í dag auðvitað. Þarna voru ekki stórmarkaðir í kring eða viðlíkt og því þurftum við verslunarmenn að hafa allt til alls. Einnig var sú breyting á í sveitum, sem er öðruvísi en nú, að þá var búið á hverjum bæ. Sums staðar margt fólk en fækkun sveitafólksins hefur verið afgerandi með árunum. Vaninn var að ungt fólk kæmi í sveitina til að vinna bústörf yfir sumarið og þá höfðum við opið í búðinni frá kl. 9 til 23.30 til að þjónusta sem flesta vanalega yfir þrjá mánuði. Reksturinn var svo háður veðráttunni, en í góðviðrinu byggðust upp heilu tjaldbyggðirnar bæði í Ásbyrgi og Hljóðaklettum fram í Vesturdal. Sumarnæturnar geta verið stórkostlegar. Illviðrissumrin svo aftur á móti erfið viðureignar á margan hátt.

Vetrartíminn einkenndist af styttri vinnutíma, enda verslunin þá fyrst og fremst til að þjóna sveitunum en ekki ferðamönnum eða farandverkamönnum. Þetta er gjörólíkt miðað við hvernig þetta er í dag,“ segir Sigurgeir.

Þeir feðgar keyptu reksturinn árið 1990 og sjö árum síðar tók Ísak alfarið við rekstrinum ásamt konu sinni, Senee Sankla, sem oftast er kölluð Noi. Þá var Sigurgeir á sextugasta aldursári og fluttust þau hjónin til Akureyrar þar sem hann hóf störf hjá umhverfisráði Akureyrarbæjar.

Hóflegt verðlag fyrir dýrindis veitingar

„Ég hringdi í pabba í sumar núna 25. júlí og sagði, er þetta ekki afmælisdagur búðarinnar? Jú, jú, svaraði pabbi, þú varst nú strákur þegar þú komst hérna inn í búðina í fyrsta skipti árið 1974, og þá var komin hálf öld! Ég hafði hringt á fimmtíu ára afmæli búðarinnar,“ segir Ísak glaðlega. Hann telur sig eiga einn lengsta starfsaldur á sama stað hérlendis, en segir frá því að upphaflega hafi Ásbyrgi opnað sem útibú frá Kaupfélagi N-Þingeyinga og haldist þannig í nokkur ár. „Við pabbi sammæltumst svo um að kaupa lagerinn og reksturinn og að ég myndi starfa þar í eitt ár. Þau urðu eitthvað fleiri. Ég labbaði inn í búðina á opnunardegi fyrir fimmtíu árum sérðu, hóf ferilinn með því að raða glerjum í kassa og er hér enn!“

Þau hjónin bjóða meðal annars upp á staðgóðan morgunverð sem samanstendur af eggjum, beikoni og ristuðu brauði, kaffi og te. Grillið hefur svo verið opið langt fram á kvöld þar sem fiskur og franskar eru hvað hæst á vinsældalistanum auk súpu dagsins og hamborgara sem eru alltaf klassískir réttir. Í Ásbyrgi er einnig boðið upp á veganborgara, enda hefur verið stefnan að koma til móts við viðskiptavinina í gegnum árin, eins og best lætur.

„Fólk hváir sem kemur hérna, hvað segirðu – kaffi og kökusneið á tólf hundruð krónur? Kaffið kostar 450 kr. og einhver alþingismaðurinn sem kom hérna í sumar á ferð um landið sagði þetta sjálfsagt með ódýrustu bollum á landinu,“ segir Ísak.

Handverk Noi vekur aðdáun aðkomumanna, en það fæst í versluninni.
Handverk listakonu

Góður rómur hefur alla tíð verið gerður að utanumhaldi Ásbyrgis þar sem gott viðmót og þjónustulund hafa einkennt verslunina frá upphafi. Til að mynda kemur fram í blaðagrein dagblaðsins Dags, árið 1992, að hjá þeim fái menn „nauðsynjar og nauðsynlegan óþarfa“ enda næsta víst að það vanhagar nú flesta um.

Í dag segir Ísak úrvalið enn af ýmsu tagi en meðal þess sem vekur athygli í versluninni er undurskemmtilegt og fagurt handverk Noi. Eftir hana liggja ófá verkin, allt frá fíngerðum hekluðum leikföngum eftir taílenskum uppskriftum, fallega mynstraðar lopapeysur, húfur og margt fleira sem allt er til sölu í Ásbyrgi. Þarna er mikil listakona á ferð, en Noi lærði að prjóna með aðstoð nágranna sinna og svo við áhorf á vefmiðlinum YouTube sem býður upp á ýmis myndskeið. Verslunin hefur selt lopa og band undanfarin ár og á Noi það til að sitja í versluninni og prjóna eða hekla eitthvað sem viðskiptavinir óska eftir.

Í Ásbyrgi fæst einnig gott safn geisladiska og eitthvað af vínylplötum. Ísak segir erlenda ferðamenn afar hrifna af úrvalinu enda æ sjaldgæfara að hægt sé að fjárfesta í slíkum gripum, hvað þá á vegum úti. Geisladiskarnir koma sér vel í gömlum bílum, enda útsendingarskilyrði útvarpsins ekki alltaf upp á tíu á löngum ferðalögum.

Lífæð byggðar ekki í forgangi

Eins og virðist viðtekin venja hjá smærri verslunum landsbyggðarinnar eru þó einhverjar líkur á að hætta þurfi rekstri í náinni framtíð.
Ísak segir næstu auglýsingu frá sér verða um vetrarlokun frá 1. nóvember til 20. apríl 2025. „Fyrri dagsetningin miðar þá við lokun tjaldstæðisins í Ásbyrgi en sú seinni við opnun vegarins í fyrra, enda virðast allir snjópeningar Norðausturlands fara sem fyrr í Víkurskarðið.“

Þetta verður þó ekki fyrsta vetrarlokunin sem Ísak og fjölskylda hans standa frammi fyrir, en á fréttasíðu helgarblaðs DV í mars árið 2017 var fjallað um dræman framgang vegaframkvæmda milli Ásbyrgis og Dettifoss.

Gremja íbúa við Öxarfjörðinn var mikil og var meðal annars rætt við Ísak, sem þurfti að loka versluninni veturinn áður í fyrsta skipti frá opnun og svo einnig að langmestu leyti árið 2017. Var minnst á að verslunin væri innan marka eins fegursta þjóðgarðs landsins, á mesta uppgangstíma ferðaþjónustu í sögunni, en vegna þess að óvissa væri um hvenær gerð Dettifossvegar lyki væri framtíð hennar ótryggð.

Dettifossvegur var loks kláraður árið 2020, en þá komu á Ríkisútvarpinu fréttir þess efnis að í lok þess sumars yrði hægt að aka á malbikuðum vegi frá Dettifossi um Jökulsárgljúfur og niður í Öxarfjörðinn.

Vetrarþjónustu ekki sinnt

Ísak segir lítinn áhuga virðast vera hjá innviðaráðherra að halda sveitinni í byggð, en hann er langþreyttur á samgöngumálunum og telur ekki líta út fyrir að Dettifossvegur fari í snjómokstursútboð í ár.

Aðspurður segir G.Pétur hjá Vegagerðinni engin áform um að auka vetrarþjónustu á komandi vetri, enda sé mikill halli á þeirri þjónustu og fjárveitingar dugi engan veginn.

Sigurgeir og Pétur Jökull, flugmaður sjúkraflugvélarinnar sem flutti Sigurgeir til Svíþjóðar, hittust óvænt í Ásbyrgi.

Sveitarstjóri Norðurþings, Katrín Sigurjónsdóttir, tekur undir þetta. Á síðasta samráðsfundi Norðurþings með Vegagerðinni hafi komið fram að ekki séu fjárheimildir til þess að sinna vetrarþjónustu á þessum vegi.

Hún segir sveitarstjórnina hafa ítrekað óskað eftir því við Vegagerð, þingmenn kjördæmisins og ráðherra að Dettifossvegi sé haldið opnum á heilsársgrundvelli enda skipti þessi vegtenging afar miklu fyrir atvinnulíf, ferðaþjónustu og mannlíf á svæðinu, mjög mikilvæg tenging á milli atvinnusvæða í Þingeyjarsýslu.

Óvissa með framhaldið

Þau hjónin eru óviss með framhaldið. Fyrir utan langvinnan mótbyr með vegasamgöngur bankaði sorgin upp á fyrir um tveimur árum. Yngri sonur þeirra Ísaks og Noi, Sigurgeir Sankla, brenndist illa í slysi þann 21. nóvember 2022.

„Við erum varla tilbúin að rifja það upp,“ segir Ísak. Brunasár þöktu 41% af líkama Sigurgeirs, sem var í snatri sendur til Svíþjóðar þar sem honum var haldið sofandi í þrjár vikur og gekk undir sjö aðgerðir.

„Við erum afar þakklát þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem lögðu okkur lið svo við gátum verið með drengnum okkar í þessu ferli og viljum koma því á framfæri hérmeð. Þetta stóð yfir í hálft ár. Fyrst mánuð í Svíþjóð, síðan rúma fjörutíu daga á Landspítalanum og sjúkrahótelinu þar og síðast á barnadeildinni á Akureyri,“ segir Ísak klökkur, en litlu mátti muna að verulega illa færi.

Sigurgeir, sem einnig er afar þakklátur fyrir stuðning samfélagsins, hóf störf í Ásbyrgi seinni part sumars. Gaman er að segja frá því að einn viðskiptavinanna reyndist vera flugmaðurinn Pétur Jökull Jacobs, sem flaug honum í sjúkraflugvélinni til Svíþjóðar og var það nokkuð tilfinningarík stund.

Skylt efni: Ásbyrgi | Kópasker

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt