Karlar í skúrum víða um land
Karlar í skúrum er samfélagslegt úrræði þar sem karlmenn hittast með það að leiðarljósi að auka lífsgæði sín gegnum handverk, tómstundir og ekki síst samveru.
Verkefnið hóf göngu sína upphaflega á vegum Rauða kross Íslands að ástralskri fyrirmynd sem hefur slegið í gegn víða á heimsvísu.
Rannsóknir sýna að einmanaleiki og félagsleg einangrun séu í vaxandi mæli eitt þeirra málefna sem brýnt sé að hlúa að. Þetta snertir auðvitað alla aldurshópa, en samkvæmt hlédrægnikenningunni eru aldraðir í stærsta áhættuhópnum. Kenningin fjallar um virkni einstaklinga í samfélaginu þegar hefðbundin hlutverk þeirra breytast, en þá er hætta á að tengslamyndun rofni við annað fólk. Konur virðast virkari í að sækja sér félagsskap á öllum aldursskeiðum og eigi í kringum sig ríkara tengslanet en karlmenn.
Góð heilsa og vellíðan grundvallarmannréttindi
Áhersla er lögð á andlega, líkamlega og félagslega heilsu með verkefninu Karlar í skúrum. Hugmyndafræðin að baki verkefninu er að nokkru leyti byggð á rannsóknum sem hafa sýnt fram á að karlmönnum þyki betra að vera í samskiptum á meðan að þeir hafa eitthvað að vinna með í höndunum. Með þetta í huga hóf Rauði krossinn verkefnið hérlendis.
„Oftast taka svo opinberir aðilar eða önnur samtök við rekstri þeirra verkefna sem við hefjum. Dæmi um það er Konukot sem borgin hefur tekið við og útvistar til Rótarinnar,“ segir Hildur Helga Gísladóttir hjá Rauða krossinum. Hvað varðar Karla í skúrum minnist hún á sambærilega starfsemi í Hafnarfirði og víðar umland–semídagerrekinaf einstaklingum eða félagasamtökum, oft með einhverjum stuðningi bæjarfélaga.
Lionsklúbbur Vestmannaeyja er eitt slíkra samtaka, en nú föstudaginn 18 október sl. var verkefnið Karlar í skúrum formlega opnað í kjallara Dvalarheimilis Hraunbúða þar í bæ. Ingimar H. Georgsson, verkefnastjóri klúbbsins, ávarpaði gesti og fór yfir ferli verkefnisins í stórum dráttum. Eyjamönnum var óskað til hamingju með daginn og bæjarstjóranum, Írisi Róbertsdóttur, formlega afhent afnot af aðstöðunni. Áætlað er að þeir karlmenn sem taka þátt í verkefninu, hittist þar og starfi, muni stofna eigið félag en megi njóta góðs af aðstöðunni í kjallaranum svo lengi sem þeir kjósa.
Karlar í skúrum Vestmannaeyja
Þakkir fengu fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar sem höfðu styrkt verkefnið með ýmsum hætti, bæði í formi fjárframlaga, tækjabúnaðar og annars, svo og Vestmannaeyjabær sem útvegaði húsnæðið. Lionsmenn stóðu sjálfir í að innrétta rýmið, sem var yfir 400 stunda verkefni, listavel og haganlega gert, en öll aðstaða er til fyrirmyndar og mjög vel búin tækjum og verkfærum. Meðal þess sem þar má finna er vélasalur, föndurherbergi og smíðastofa, ótal handverkfæri, borðsög, bandsög, fræsari, hefilbekkir, rennibekkir, kaffistofa og ýmislegt fleira.
Á opnuninni gátu gestir barið augum verk staðarlistamannanna Sigurðar Óskarssonar frá Hvassafelli, Friðgeirs Þorgeirssonar trésmiðs og Kristmanns Kristmannssonar múrara. Einnig mættu góðir gestir frá félagi trérennismiða á Íslandi og Karla í skúrum Mosfellsbæjar og Hafnarfjarðar sem kynntu starfsemi sína við góðar undirtektir auk þess sem félagar frá Hafnarfirði sýndu ýmsa handverksmuni.
Málefni aldraðra í fyrirrúmi
Mikill áhugi var og ánægja með opnun verkefnisins og var strax ágætis mæting daginn eftir, en þá var boðið upp á kynningarnámskeið. Arnar Ragnarsson, formaður Félags trérennismiða á Íslandi, uppfræddi menn um rennismíði, umhirðu rennijárna og brýningu ern Arnar er félagi í hafnfirska handverkshópnum Snúið og skorið. Páll Steindórsson frá Mosfellsbæ kynnti útskurð og sýndi listavel gerða muni frá félaginu þar í bæ. Að lokum sáu þeir Jóhann Gunnarsson, Sigurjón Elíasson og Ólafur Guðmundsson frá Hafnarfirði um að fræða menn og svara spurningum auk þess sem sá síðastnefndi sýndi smíðisgripi og leiðbeindi mönnum við tálgun.
Aðstaðan í Hraunbúðum verður opin alla virka daga frá klukkan níu og fram yfir hádegi – en þeir sem hafa áhuga á að líta við á öðrum tímum dagsins eða um helgar geta fengið lykil sér til þægindaauka.
Til gamans má geta þess að Lionsklúbbur Vestmanneyja sem fagnar hálfrar aldar starfsafmæli nú í ár styrkti einnig félagasamtökin Félag eldri borgara í Vestmannaeyjum, Hollvinasamtök Hraunbúða og Bjargið um 300.000 kr. hvert til eflingar starfsemi þeirra – málefni aldraðra.