Stækka B. Jensen á alla enda og kanta
B. Jensen ehf., að Lóni á Akureyri, hefur eflst og dafnað allt frá stofnun árið 1968. Nú stendur til að stækka.
Markaðssvæði B. Jensen er allt landið, að sögn Eriks Jensen framkvæmdastjóra. „Við sendum um land allt og seljum bæði til einstaklinga og fyrirtækja, s.s. veitingahúsa,“ segir hann.
Nú vinna 18 manns hjá fyrirtækinu sem samanstendur af sláturhúsi, kjötvinnslu og verslun. Erik stendur iðulega vaktina í versluninni, sem er vinsæl meðal heima- og ferðafólks. „Ég er allt í öllu, ef þarf að gera við, mála, ræða við bændur, panta inn eða selja, ég geri bara það sem gera þarf,“ segir Erik hlæjandi.
Stækka um 1.000 fermetra
Sláturhús B. Jensen var stækkað til að koma fyrir nýrri vinnslulínu árið 2007 og jókst þá vinnslugetan um 50%, starfsmannaaðstaða o.fl. stækkaði 2010 og nú stendur enn til að sækja í sig veðrið. Grunnur er kominn að 1.000 m2 viðbyggingu sem verður að hluta til á tveimur hæðum. Á efri hæð verða skrifstofur, stærri kaffistofa og betri búningsaðstaða og á jarðhæðinni aðstaða fyrir kjötvinnslu. Búðin verður sömuleiðis stækkuð.
„Við ætlum helst að auka vinnslugetuna með nýbyggingunni um 50% aftur,“ segir Erik. „Ég vil helst fara í 150-200 tonn á mánuði í framleiðslunni. Við erum í 60-80 tonnum núna, það er misjafnt milli mánaða.“ Þau stefna á að byggingin verði tilbúin í maí næsta vor þannig að hægt sé að taka hana í notkun. Ráða þarf inn eitthvað af viðbótarfólki og reiknað með að starfsmenn verði þá um 25 talsins í heildina.
Eina húsið með sláturhús, kjötvinnslu og búð
Áhættuvefir úr slátruninni, svo sem heilar, fara til brennslu suður í Kolku. Þó að það sé kostnaðarsamt segir Erik það samt ódýrara en að brenna þetta sjálfur. Ekki standi til að breyta því nema brennslustöð verði sett á laggirnar á Akureyri.
Þótt nautakjötið sé hvað veigamest hjá B. Jensen er fyrirtækið einnig með svína- og hrossakjöt á boðstólum, að sögn Eriks, og svínakjötið slagar hátt upp í nautakjötssöluna. „Þetta er eina húsið á Íslandi sem rekur sláturhús, kjötvinnslu og búð,“ segir hann.
Erik rekur fyrirtækið ásamt konu sinni, Ingibjörgu Stellu Bjarnadóttur, en þau keyptu það árið 1998. „Fyrirtækið var stofnað 1968 af foreldrum mínum, Jónínu Guðjónsdóttur og Benny Albert Jensen, sem var danskur slátrari. Þau eru svo þrjú börnin okkar að vinna hér og ein tengdadóttir.“