Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Þjónustumiðstöðin og Hengifossárgljúfur.
Þjónustumiðstöðin og Hengifossárgljúfur.
Mynd / Nives Dragan
Viðtal 30. október 2024

Þjónustan aukin við Hengifoss

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Í ágúst var ný þjónustumiðstöð við leiðina upp að Hengifossi í Fljótsdal formlega vígð.

Hengifoss er einn af vinsælustu áfangastöðum á Austurlandi og sá ferðamannastaður sem laðaði flesta ferðamenn til sín á þessu landsvæði þangað til Stuðlagil kom til sögunnar.

Helga Eyjólfsdóttir

Helga Eyjólfsdóttir ferðamálafræðingur var ráðin í vor til að annast utanumhald fyrir ferðaþjónustuna við Hengifoss, en það er í fyrsta skipti sem sérstakur starfsmaður er ráðinn til slíkra verka fyrir Fljótsdalshrepp.

Þörfin vaxið fyrir betri aðstöðu

„Eftir því sem ferðamönnum hefur fjölgað síðustu 15 árin eða svo hefur þörfin fyrir endurbætta aðstöðu vaxið en hér var í rauninni engin aðstaða fyrir, fyrir utan skúr með tveimur klósettum og of lítið bílastæði. Síðastliðin tíu ár hefur fjöldi þeirra sem ganga upp að fossi að minnsta kosti. þrefaldast, farið úr 40 þúsund upp í um 120 þúsund á síðasta ári,“ útskýrir Helga.

„Árið 2016 var haldin arkitektasamkeppni og vinningstillaga valin frá ZIZ AS, Eirik Rønning Andersen, siv.ark. MNAL og Sigríði Önnu Eggertsdóttur arkitekt FAÍ. Í kjölfarið var farið í að útfæra nánar hús og skipulag og ýmsar samningsgerðir til að tryggja starfsemi þjónustumiðstöðvarinnar,“ heldur hún áfram.

Sýning um jarðfræði, náttúru og samfélag

Helga segir að hönnun hafi að mestu leyti verið búin á árinu 2022 og verkið boðið út þá um haustið. „Byrjað var að reisa húsið vorið 2023 og veturinn nýttur í frágang innanhúss. Þann 11. ágúst síðastliðinn opnuðum við svo formlega með nýju húsnæði sem inniheldur rúmlega 110 fermetra sal, sjö salerni og stærra bílastæði. Húsnæðið nefnum við þjónustumiðstöð eða Visitor Center.

Salurinn hefur ekki verið tekinn í notkun eins og er, þar sem enn á eftir að ákveða nákvæmlega í hvað salurinn verður nýttur en sú vinna er í fullum gangi. Salernin eru þó opin ferðafólki. Meginmarkmið með salnum verður að taka á móti ferðafólki og veita þeim upplýsingar um staðinn og nærliggjandi svæði. Þá horfum við einnig til þess að hafa hér veitingasölu og einhvers konar sýningu þar sem við miðlum áhugaverðum upplýsingum um jarðfræði, náttúru og samfélag,“ segir Helga sem vonast til að salurinn verði tekinn í notkun næsta vor.

Þjónustumiðstöðin í nærmynd.
Enn streymir ferðafólk að Hengifossi

Að sögn Helgu kemur talsverður fjöldi ferðafólks enn að Hengifossi og áætlar hún að á bilinu 250–450 manns komi daglega. Alls hafi um fimm þúsund manns komið í október.

Sérstakur rafrænn teljari sér um að afla upplýsinga um fjölda ferðamanna, að sögn Helgu. „Það er leysigeisli sem nemur fólkið á uppleið að fossi en ekki á niðurleiðinni. Samkvæmt teljaranum komu um 17 þúsund manns í september en mestur var fjöldinn í ágúst þegar 24.500 manns lögðu leið sína upp að fossi. Mest eru þetta einstaklingar sem koma saman á bílaleigubílum,“ segir hún og bætir við að fólk fari upp í öllum veðrum en um tvo tíma tekur að ganga upp og niður aftur.“

Hringleið um gilið

„Gjaldtaka á bílastæði hófst núna í ágúst í gegnum „Check-It“, þar sem við rukkum gjald miðað við stærð bíls fyrir aðgang að þjónustu á staðnum. Þá bjóðum við upp á hraðhleðslu fyrir rafmagnsbíla frá InstaVolt.

Í gegnum árin hefur alltaf verið eitthvert viðhald á stígum en síðastliðin þrjú ár höfum við farið í stórfelldar endur- og viðbætur á þeim. Sumarið 2022 opnuðum við hringleið um gilið og tvær göngubrýr voru settar yfir ána, en áður fyrr var labbað upp og niður sömu megin. Síðastliðin tvö sumur höfum við unnið að því að byggja stígana upp svo þeir þoli ágang ferðafólks og tryggi jafnframt að ekki sé labbað út fyrir þá með tilheyrandi gróðurskemmdum. Við neðri göngubrúna hefur svo verið unnið að því að hlaða upp flóðvörn við brúarstólpana sem kláraðist núna í sumar,“ segir Helga.

Mikilvægt að tryggja öryggi ferðafólks

Umhverfið við Hengifoss er varhugavert, gilið er djúpt og bæði mikil fallhætta og hætta á grjóthruni. „Þess vegna er það okkur mjög mikilvægt að byggja upp stígakerfið til að tryggja öryggi ferðafólks og til að björgunaraðilar hafi greiðan aðgang um stígana. Við náðum stórum áfanga núna í sumar þegar við náðum að keyra í stóran hluta af stígnum sunnan við ána en hann var verulega illa farinn eftir rigningar og leysingar síðustu ára, ásamt því að laga stíginn umtalsvert efst uppi í gili sem tryggir betra aðgengi.

Við eigum þó enn eftir að byggja upp nokkra kafla bæði innan og utan við gil til þess að stígakerfið geti kallast viðunandi. Við munum alltaf þurfa að sinna viðhaldi á stígunum en fjallið er alltaf á hreyfingu og mikið vatn leynist í jarðveginum.

Allar þær framkvæmdir sem við höfum farið í síðustu ár hafa miðast að því að bæta álagsstýringu, vernda náttúruna og bæta upplifun ferðafólks. Við hefðum að öllum líkindum aldrei getað farið í þessar framkvæmdir ef ekki hefði verið fyrir Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem hefur styrkt okkur dyggilega í gegnum árin og mun vonandi halda því áfram. Við erum til að mynda nýbúin að skila inn tveimur umsóknum fyrir næsta ár, önnur þar sem við ætlum okkur að klára uppbyggingu á stígakerfinu og hin inniheldur áætlun um að byggja upp nokkra útsýnispalla til þess að tryggja öryggi ferðafólks og vernda náttúruna betur.

Stórfelldar endur- og viðbætur hafa orðið á stígum meðfram gilinu. Myndin til vinstri er frá því í vor og sú hægra megin er tekin núna í október.

Uppalin á Melum í Fljótsdal

Það er Fljótsdalshreppur sem hefur haldið utan um alla uppbyggingu við Hengifoss og heldur utan um allan rekstur tengdum þjónustumiðstöðinni. Helga segir að hún hafi verið ráðin sem verkefnastýra í kjölfar þess að hreppurinn auglýsti eftir starfsmanni í byrjun árs.

„Mitt helsta verkefni er að hafa umsjón með allri uppbyggingu og rekstri á staðnum. Ég er menntaður ferðamálafræðingur frá Háskólanum á Hólum og hef starfað að mestu leyti í ferðaþjónustu síðastliðin ár, nú síðast hjá Tanna Travel.

Þá er ég uppalin á Melum í Fljótsdal, en land Mela liggur meðal annars að Hengifossárgljúfri. Ég þekki staðinn og samfélagið vel og hef brennandi áhuga á þeirri uppbyggingu sem á sér stað hér í dalnum.“

Uppbygging sem gagnast nærsamfélaginu

Helga leggur áherslu á að öll uppbygging á svæðinu komi nærsamfélaginu öllu til góða. „Hengifoss er allra stærsti áfangastaður ferðamanna í Fljótsdal en innan svæðisins má einnig finna fjölmarga aðra staði sem vert er að heimsækja og mætti nefna Skriðuklaustur, Snæfellsstofu, Hallormsstaðaskóg, Vallanes, Óbyggðasetur Íslands og marga aðra staði. Þá erum við einnig með eitt besta aðgengi að hálendinu hér rétt í túnfætinum. Við erum því í kjöraðstöðu hér við Hengifoss að upplýsa ferðafólk um hvað fleira má skoða í nærumhverfinu.

Hún segir tvær jarðir liggja að Hengifossi; að innanverðu Melar, sem er í einkaeigu, og að utanverðu Hjarðarból, sem sé í eigu ríkisins. Fljótsdalshreppur leigi lóð úr landi Mela fyrir þjónustumiðstöðina og sé með samning við báða aðila sem gefur rétt til uppbyggingar á stígum meðfram gilinu.

Skylt efni: Hengifoss

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt