Vilja efla atvinnulíf í Fjallabyggð
Einn af nýjustu íbúum Fjallabyggðar er Vigdís Häsler, fyrrum framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. Hún starfar nú sem verkefnastjóri Kleifa fiskeldis sem áformar stórtæka framleiðslu og atvinnuuppbyggingu á svæðinu.
„Áætlanir Kleifa byggja á áformum um uppbyggingu á að minnsta kosti 20.000 tonna framleiðslu af laxi á ári á landi og í fjörðum á Tröllaskaga,“ segir Vigdís, en að baki verkefninu standa athafnamennirnir Róbert Guðfinnsson, Siglfirðingur og Árni Helgason frá Kleifum í Ólafsfirði.
Ef af verður mun starfsemin vera þrískipt; seiðaeldi, landeldi og kvíaeldi og mun framleiðslan skapa um 170–180 bein störf í Fjallabyggð. „Uppbyggingin yrði í húsnæði sem áður hýsti starfsemi SR mjöls á Siglufirði og í höfninni í Ólafsfirði, sem nú er að mestu ónotuð. Hér verður því um að ræða umtalsverða umbreytingu á hafnarmannvirkjum á svæðinu. Seiðaeldið og slátrun yrði á Siglufirði. Landeldi yrði í kvíum sem komið yrði fyrir í lokaðri höfninni í Ólafsfirði. Áframeldi í kvíum færi svo fram í fjörðunum á norðanverðum Tröllaskaga,“ segir Vigdís.
Ófrjór laxastofn
Laxfiskurinn sem ætlað er að rækta verður ófrjór en Vigdís segir að vísindamenn fyrirtækisins Benchmark Genetics séu nú að þróa nýja aðferð við framleiðslu geldfisks fyrir fiskeldi. „Verkefnið snýr að því að beita svokallaðri genaþöggun, þ.e. að gera genin óvirk, en vitað er hvaða gen það eru sem stjórna myndun kynfrumna. Fiskurinn verður algerlega sambærilegur við frjóan lax í dag, að því frátöldu að hann verður ófrjór.“ Ef slíkur fiskur sleppi úr kvíum hafi hann ekki burði til þess að synda langt.
Eyjafjörður heppilegur
Vigdís segir að eldi á laxi hafi aukist mikið á undanförnum áratugum og fiskneysla enn fremur.
„Útflutningsverðmæti laxeldis hér á landi voru tæplega 49 milljarðar árið 2022 og við framleiðum um 1,5 prósent af öllum laxi í heiminum. Samhliða hefur störfum í fiskeldi fjölgað verulega, en rúmlega 83 prósent starfa í fiskeldi eru á landsbyggðinni,“ bendir Vigdís á. Tækifærin til að auka framleiðslu hér á landi séu mikil og Eyjafjörður sé ákjósanlegur til þess.
„Síðustu ár hafa ýmsir aðilar sýnt því áhuga að hefja sjókvíaeldi í Eyjafirði, enda er fjörðurinn afar heppilegur til slíkrar atvinnustarfsemi sé horft til ýmissa þátta, s.s. veðurfars, öldufars og hafstrauma en mælingar hafa staðfest hringstreymi í firðinum. Þannig var Brim fiskeldi hf., með starfsleyfi til framleiðslu á þorski og ýsu út af Skjaldavík, innarlega í Eyjafirði, Íslandslax hf. var með starfsleyfi og áætlanir um framleiðslu á 1.000 tonnum af laxi á tveimur staðsetningum við Ystuvík og Stapa í Eyjafirði og Skelfélagið ehf. var með starfsleyfi til kræklingaræktar á fjórum stöðum í Eyjafirði. Hugmyndir um uppbyggingu eldis í sjókvíum hafa því verið viðvarandi og til umræðu í allnokkurn tíma.
Áskoranirnar eru þó margvíslegar en tækifærin einnig, því þótt umhverfisáhrif sjókvíaeldis, sem er það eldi sem er komið hvað lengst í þroskaferlinu í samanburði við annað eldi, séu dregin upp sem áskorun þá liggja tækifærin einnig í framleiðslu matvæla sem grundvallast á sjálfbærri orkunotkun, lágri losun gróðurhúsalofttegunda og nýtingu hliðarafurða. Tækifærin felast enn fremur í efnahagslegum verðmætum í gegnum útflutning, störf og tekjur af sköttum og gjöldum. Á svæðinu eru því sóknartækifæri til þess að byggja upp stöndug strandsamfélög og nýjan þekkingariðnað.“
Ætthagaþráhyggja
Nafn fyrirtækisins er vísun í fæðingarstað Árna, Kleifa í vestanverðum Ólafsfirði. Þar er að finna húsþyrpingu en á tuttugustu öld bjuggu þar hartnær hundrað manns þegar mest lét. Nú er Árni eini ábúandinn þar.
„Hér er ég fæddur og uppalinn, var á sjó í áraraðir, en hef svo verið í vinnuvélabransanum síðan árið 1980. Það er ákveðin ætthagaþráhyggja að búa hér. Það kostar til dæmis miklu minna fyrir mig að gera út frá Akureyri, enda dýrt að flytja aðföng fram og til baka og nær allar tekjur koma utan bæjar,“ segir Árni en kýs þó að búa á Kleifum og vill með laxeldinu skapa forsendur fyrir frekari atvinnuþróun í Ólafsfirði.
Aðdragandinn að stofnun Kleifa fiskeldis var víst ekki flókinn en hugmyndin kemur frá fyrrnefndum Róberti Guðfinnssyni. Hann hefur staðið fyrir mikilli uppbyggingu á Siglufirði og er stofnandi líftæknifyrirtækisins Genís. „Þetta var var einhver hugdetta hjá honum. Hann bankaði upp á hjá mér einn daginn. Ég veit ekkert af hverju honum datt í hug að spyrja mig hvort ég vildi vera með í þessu,“ segir Árni sem sló þó til enda segir hann leitt að horfa upp á heimabæinn drabbast niður. Snúa þurfi þeirri þróun við og bæjarfélög sem ekki hýsa stórútgerðir verði að finna aðrar leiðir til tekjuöflunar. Laxeldi sé ein slík leið.
Nærsveitarfélögin fái hlutdeild í ágóða
Vigdís segir að ef af verði geti Kleifar fiskeldi vænst um 26 milljarða króna veltu árlega. Heildarskattspor fyrirtækisins yrði þá um 3,5 milljarðar króna sem færu til hins opinbera, fyrir utan störfin öll staðsett í Fjallabyggð – sem sé lykilatriði.
„Forsvarsmenn Kleifa eru meðvitaðir um að forsenda þess að atvinnugreinin fái að blómstra og að nærumhverfið njóti góðs af, þá þurfi þau sveitarfélög þar sem fiskeldi fer fram og áform eru um að byggja upp atvinnugreinina, að fá sanngjarnt afgjald af auðlindinni sem sveitarfélögin og samfélög þeirra geti nýtt til innviðauppbyggingar.“ Einnig sé ætlunin að sveitarfélögin á svæðinu fái hlutdeild í þeim arði sem skapast verði af framleiðslunni í gegnum B-hlutaeign í félaginu.
Pattstaða vegna kosninga
Árni telur að um helmingslíkur séu á því að áform þeirra félaga raungerist. Verkefnið sé á fyrsta stigi núna en forsendur þess að haldið verði í vegferðina séu leyfisveitingar í framhaldi af burðarþolsmati í Eyjafirði. En matvælaráðherra þarf, lögum samkvæmt, að kalla eftir slíku mati. „Það er þó allt í pattstöðu núna út af kosningum,“ segir Árni.
Staða stjórnmálanna er þeim því óhjákvæmilega báðum hugleikin. „Ég vil bara skipta alveg út fólki á Alþingi. Stjórnmálamenn í dag virðast ekki þora að taka á óvinsælum málefnum, þó vitað sé að það þurfi að takast á við þau,“ segir Árni og nefnir að bæði heilbrigðis- og vegakerfið séu komin á vonarvöl og gríðarleg þörf sé á orkuuppbyggingu. „Það er glórulaust að það fari einn olíubíll með tengivagn á hverjum degi til Bolungarvíkur til að knýja rafstöðina þar. Þetta er víðar svona og fer versnandi.“
Vigdís tekur í sama streng. „Við þurfum bara að fá fólk sem fattar hvað atvinnuuppbygging og tekjuöflun samfélaganna er.“ Hún býr nú á Siglufirði og segir þessi nýju verkefni sín afskaplega spennandi. „Verkefnunum fylgir ákveðið frelsi. Það er yndislegt að vera hérna og starfið hentar mér ótrúlega vel.“
Árni skefur ekkert utan af væntingum hans til Vigdísar. „Þegar hún er búin með þetta verkefni þá reynum við að gera hana að bæjarstjóra hér. Mér er andskotans sama hvar manneskja er í pólitík – hún þarf bara að geta tekið til hendinni.“